Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Þeir sem þrá regnbogann verða að sætta sig við regnið

Það var stjörnubjart en kalt þegar ég stillti mér upp fyrir utan dyrnar hjá vinkonu minni Dulfríði Jakobínu Hansdóttur, Dollý dulrænu. Slökkt var á útidyraljósinu og í stað bjölluhljóms í ætt við Big Ben, eins og í fyrra, heyrðist reiðilegt urg í dyrabjöllunni.  Enginn kom til dyra svo ég reyndi á ný við dyrabjölluna en það var ekki fyrr en ég barði þéttingsfast á dyrnar sem drottningin kom til dyra, nákvæmlega eins og hún var klædd!

Eins og venjulega heilsaði hún mér drottningin og hló að mér um leið, eða svo fannst mér því Dollý var svo ákaflega glöð að sjá mig að hún skellti uppúr og sló sér á lær. Greinilegt var að hún hafði fengið sér einn eða tvo „sterka " kaffibolla áður en ég kom og það var létt yfir henni. „Gakktu í bæinn elskan mín, komdu inn úr kuldanum. Meira hvað boli ætlar að bíta í okkur um þessi áramót," sagði hún. „Annars er það bara ágætt að hafa svona kalt, þá hefur maður afsökun fyrir því að vera ekkert að þvælast úti. Mér leiðist þessi kuldi og vildi helst vera bara á Kanarí með hinu gamla fólkinu, orna mér þar við sólaryl og kíkja kannski á strákana á nektarströndinni." Hér skellti Dollý uppúr, varð dálítið dreymin í framan og hafði augljóslega einhverja ákveðna mynd í huga sér.

„Þú ert víst komin til að forvitnast um árið komandi, er það ekki vina mín?" spurði hún og ég var fljót að játa það. „Var ég langt frá þessu í fyrra?" spurði hún. „Nei, nei, þetta var ágætt hjá þér" svaraði ég og var svo sem ekkert að tína það til að hvorki Ingibjörg Sólrún né Geir Haarde eru á þingi eins og hún hafði spáð. Ekkert bólar enn á syni Vilhjálms Bretaprins og engin urðu uppþotin í Lundúnaborg. En hún hitti svo sem á margt, formaður Framsóknar kom á óvart, sukkarar og eiginhagsmunapotararnir hafa leynst víða og margir hafa verið duglegir við að minna á þá sem brattast fóru í bönkunum.

Dollý er komin fram í eldhús og sækir sér kaffi úr könnu sem hellt hefur verið uppá á gamla mátann. Expressóvélin frá í fyrra stendur á sínum stað og lítur ekki út fyrir að hafa verið notuð lengi. Eins og mig grunaði laumaði hún göróttum drykk í kaffið, að þessu sinni úr plastbrúsa sem eitt sinn innihélt Kóka kóla. Ég spyr einskins en þigg kaffi sem hún býður mér, með örlítilli mjólk.

Við setjumst við eldhúsborðið og Dollý dregur fram forláta kristalskúlu sem þar var undir dulu með blómamynstri. „Hvað viltu vita ljúfan mín," spyr hún og fær sér vænan slurk úr kaffibollanum. „Æ, bara þetta sama og venjulega. Hvernig verður árið fyrir okkur Íslendinga, hvernig mun okkur farnast í þessum ógöngum sem við erum og getum við vænst bjartsýni á komandi ári?"

„Þú biður ekki um lítið ljúfan mín," segir Dollý og bætir við „Íslendingar eru loksins að átta sig á því að nafna mín Parton hafði lög að mæla þegar hún sagði að þeir sem þráðu regnbogann yrðu að sætta sig við regnið, og það hefur sannarlega rignt á okkur undanfarið, það hefur eiginlega verið úrhelli og ekki höfum við enn séð regnbogann, því miður. En það mun stytta upp um síðir, það er alltaf þannig, það er alltaf þannig," sagði Dollý og er greinilega mikið niðri fyrir.

Sannleikurinn getur orðið okkur þungbær
Dollý þagði um stund en sagði síðan stundarhátt  „Þú munt sjá sannleikann, og sannleikurinn mun gera þig brjálaðan!" Ég hváði en Dollý var komin í sinn hugarheim og var djúpt hugsi. „Sannleikurinn, ljúfan mín, sannleikurinn getur orðið okkur þungbær. Þegar skýrslan birtist í upphafi árs þá verða margir reiðir, margir hissa, margir fegnir og margir munu stynja stundarhátt og segja: „Ég sagði þetta!" En því miður verður ekki mikið gert í framhaldi þessa. Því miður.

Fólkið, fólkið er búið að fá nóg, margir þeirra sem höfðu sig mest í frammi fyrir ári síðan munu vera í því hlutverki að stilla til friðar. Marga óaði við þeim ólátum sem urðu við Austurvöll, en það var samt mikill skilningur á málum. Þeir sem stilltu sér upp fyrir framan lögregluna vita að ofbeldi leysir engan vanda. Ef ekki ríkir friður er það vegna þess að við höfum gleymt að við tilheyrum hvort öðru, hvort öðru, við erum eitt, ein þjóð, einn hópur. Einn,"

Dollý sígur hér niður að kaffibollanum sínum og virðist fallin í trans. Það varir þó ekki lengi því hún reisir sig upp og horfir djúpt í augu mér. „Friður næst ekki með ofbeldi, friður næst aðeins með skilningi. Við þurfum að skilja hvað gengur á, það er hlutverk stjórnvalda að upplýsa okkur. Það hefur ekki verið nóg af því hingað til, en það mun lagast. Sem betur fer það mun lagast. En það finnast alltaf einhverjir svartsýnismenn sem sjá ekkert nema bölmóð hvar sem þeir líta. Því miður eru nokkrir slíkir á þinginu. Þeir vita ekki að bjartsýnismaðurinn vakir fram yfir miðnætti á nýársnótt til að sjá nýja árið rísa en sá svartsýni vakir til að tryggja að það gamla fari örugglega. Þetta er ekki einfalt líf, ekki einfalt."

Erum við ekki búin að fá nóg af Icesave?
Ég er steinhætt að skilja nokkuð í því sem Dollý er að segja og reyni að vekja hana aftur til lífsins og spyr „Verður mikið talað um Icesave á nýju ári?"

Dollý sprettur á fætur, lemur þéttingsfast í borðið og hrópar á mig ... „Icesave, helvítis Icesave. Erum við ekki búin að fá nóg af því? Er því ekki lokið! Viltu endilega tala um Icesave?" Ég reyni að róa vinkonu mína og segi henni að ég sé sannarlega búin að fá nóg en er niðurstaða Alþingis í málinu skynsamleg? „Hvað er skynsamlegt? Veist þú hvað er skynsamlegt? Hvernig veit maður að loftið sem maður horfir á sé í raun og veru ekki gólf? Við vitum ekkert um það nema fara út og sjá hvað byggingin sem við erum stödd í er há.

Það er einmitt það sem mun gerast á næsta ári. Íslendingum lánast að fara út og sjá heildarmyndina, eða það sem eftir er af henni. Það verður ekki fallegt skal ég segja þér, það verður ekki fallegt. En þegar við loksins komumst út og sjáum vandann, þá vitum við líka hvar skal byrja, hvar þarf að bæta, breyta, laga og byggja upp. Þetta er risastórt skref framá við, en það sjá það ekki allir og enn munu bölsýnismennirnir koma fram og berja sér á brjóst. Þar mun formaður Sjálfstæðisflokksins fara fremstur í flokki, hvattur áfram af mönnunum á bak við tjöldin sem engum dylst þó hverjir eru.Formaður þessa flokks mun ekki njóta mikillar virðingar fyrir störf sín og er það miður en hann er of tengdur efnahagshruninu og að honum verður sótt innan hans eigin raða. Ég sé ekki betur en að hann muni láta af embætti þegar líður á árið, hann missir a.m.k. stóran spón úr aski sínum og stendur snauðari eftir og í mikilli vörn.

Heimspekingurinn Friedrich Niezsche sagði að það væru í raun ekki til neinar staðreyndir, aðeins túlkanir og einmitt það mun vefjast fyrir alþingismönnum á vorþingi. Það er komin gríðarleg þreyta í þingmenn og þeir treysta engum nema þeim sem eru innan þeirra eigin raða. Það er miður því ef íslensk þjóð hefur einhvern tíma haft þörf fyrir traust, sterkt þing og samstöðu þá er það nú. Því miður munu þingmenn missa af tækifærinu til að sýna styrk íslenskrar þjóðar og útá við munum við verða smáð og höfð að háði og spotti meðal þeirra þjóða sem áður voru okkar helstu bandamenn.

Verja heiður þjóðarinnar
Sem betur fer eigum við þó til fólk sem ekki hefur tapað sjálfu sér við það að sníða sér stakk sem hentar öðrum. Þessir einstaklingar munu standa upp og verja heiður þjóðarinnar út á við og blása henni byr í seglin sem svo mjög hefur skort. Ég sé engan af núverandi þingmönnum í þessu hlutverki en þetta er þó einstaklingur sem hefur verið í stjórnmálum og er virtur sem slíkur. Hann er ekki úr höfuðborginni og er karlmaður ... hann er ... er ... ég sé hann en kem honum ekki fyrir mig. Hann er fyrsta flokks útgáfa af sjálfum sér en ekki annars flokks útgáfa af einhverjum öðrum, eins og svo margir. Gæðamaður, gæðamaður.

Sagan hefur því miður kennt okkur það að menn og þjóðir haga sér aðeins viturlega þegar allir aðrir möguleikar hafa verið útilokaðir. Allir aðrir möguleikar útilokaðir. Það kemur þó ekki í veg fyrir að þrátt fyrir bölsýni og bölmóð sem hér hefur riðið röftum þá mun íslensk þjóð komast út úr þessu ástandi tiltölulega ólöskuð en vígmóð. Það mun ekki gróa um heilt fyrr en eftir mörg ár og sagan verður okkur erfið, mjög erfið.

Við þurfum að líta í spegilinn
Græðgi hefur ráðið hér ríkjum og enn hefur þjóðin ekki endurmetið gildismat sitt, enn vilja menn allt fyrir ekki neitt. Við verðum að líta í spegilinn, sjá okkur sjálf og byrja breytingarnar á okkur sjálfum. Það segir einhversstaðar að það að segja „Ég þarf að gera eitthvað" skilar mun betri árangri en að segja „það þarf að gera eitthvað". Þetta verðum við að temja okkur, við viljum breytingar, til að ná þeim þurfum við að byrja á okkur sjálfum, hver og einn þarf að byrja á sér sjálfum. Við búum ekki í einhverju hókus pókus samfélagi þar sem hægt er að veifa töfrasprota  og allar okkar áhyggjur, skuldir og misgjörðir hverfa. Því miður, það er ekki hægt."

Að byggja brú þó engin finnist áin
Hér þagnar Dollý og veltir vöngum í bókstaflegri merkingu. „Þessir stjórnmálamenn eru allir eins. Fyrir kosningar lofa þeir að byggja brú, jafnvel þó engin finnist áin, og stundum heimta þeir kosningar að því er virðist aðeins til þess að sýna fram á að eitthvað sé að marka skoðanakannanir. Hvað er að þessu fólki. Ert þú ekki í pólitík, sá ég það ekki einhversstaðar?" Spurningin kemur flatt uppá mig en ég get ekki neitað. „Jú, en ég held ég fari að hætta fljótlega, held ég!"

„Hvurslags svar er þetta kona, svaraðu almennilega þegar þú ert spurð. Ertu kannski eins og allir aðrir stjórnmálamenn sem hefur komist að því að það þarf að skilja stjórnmálin eftir hjá stjórnmálamönnunum og svo þykist þú ekki vera einn slíkur? Er það?"

Ég á ekkert svar við þessari spurningu og lít því ofaní borðið og stari í tóman bollann minn.

Dollý skynjar að mér finnst umræðan óþægileg og segir, heldur mýkri í röddinni, „sumarið verður gott, mjög gott, það þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Sem betur fer verður það til þess að létta lund okkar og ferðaþjónustan mun blómstra um allt land. Jafnvel á stöðum sem Íslendingar hafa ekki verið duglegir að heimsækja verða slegin aðsóknarmet. Þetta verður til þess að menn fara að ræða um að rukka inní þjóðgarðana líkt og gert er annarsstaðar í Evrópu og víðar. Það mun ekki mælast vel fyrir meðal almennings sem ferðast mun meira innanlands en áður enda mun krónan ekki ná sér á strik á árinu 2010. Hún verður á svipuðum stað um þessi áramót og þau næstu, sem er gott fyrir útflutningsfyrirtækin en að sama skapi slæmt fyrir almenning í landinu sem mun þurfa að sætta sig við meiri dýrtíð, meiri verðbólgu og minni kaupmátt en spáð hefur verið."

Kosningar í vor
Dollý stendur skyndilega á fætur, gengur að kaffivélinni með bollann sinn, hellir drjúgum slurk úr kókbrúsanum í bollann og fyllir upp með nokkrum dropum af kaffi. „Það verður kosið í vor, eins og vitað er. Ekki verða stórkostlegar breytingar á sveitarstjórnum en þeim mun þó í heildina vegna vel á nýju ári. Það er einfaldara að ná samstöðu á sveitarstjórnarstiginu en í landsmálunum. Baráttan er ekki eins hatrömm. Sveitarfélögum mun þó fækka á árinu og ekki verður öll sú sameining af góðu sprottin. En hún fer fram í góðri sátt og það er fyrir mestu.

Í Reykjavík sé ég nýjan meirihluta, en eftir síðasta kjörtímabil kemur það ekki á óvart, er það? Það verður mjótt á munum og enn verður uppi sú staða að einn borgarfulltrúi getur hallað sér til hægri og vinstri að vild og fer hann þangað sem hann fær best fyrir eigin hag. Prófsteinn hugrekkis kemur þegar menn eru í minnihluta og prófsteinn þolgæðis kemur þegar menn eru í meirihluta. Þessi eini fellur á báðum prófum, báðum prófum, því miður."

Dollý rýnir í kúluna sína, lítur svo í augu mér og segir: „Þú ert úr Kópavogi, er það ekki?" Því er ekki neitað og hún heldur áfram. „Mig langar að sjá breytingar þarna en það er djúpt á þeim. Líkt og í Reykjavík þá veltur þetta allt á einum manni sem virðist bara hafa hægri augað í lagi og eyrað sem hvíslað er í er klárlega hægra megin líka. Þetta verður erfitt þar, en það er allt hægt, ef viljinn, krafturinn og dugnaðurinn er fyrir hendi. Hann Gunnar mun sækja fram og aftur, en úr honum er allur kraftur, hann er ekki nema helftin af sjálfum sér, líkamlega og andlega og það dregur af honum. Siðbót hefur farið fram og jafnvel hinir dyggustu munu sjá að hann er ekki andlit siðbótarinnar og honum verður hafnað. Það á reyndar við um fleiri hér á höfuðborgarsvæðinu og fyrir austan. Siðbótin sem þjóðin krafðist á Austurvelli náði ekki inní Alþingi en hún mun ná inní sveitarstjórnirnar og er það vel. Þetta fer ekki vel í alla en ekki gleyma því að sagan lítur aldrei eins út í framtíð og nútíð. Menn sem hafa verið fordæmdir munu ekki fá eins þunga dóma í sögunni og aðrir sem hafa í dag ágæta stöðu."

Hvað fær konu til að eignast annað barn?
Enn stendur Dollý upp en mér að óvörum fer hún ekki að kaffikönnunni heldur að forláta geislaspilara og íslenska hljómsveitin Hjaltalín hefur upp raust sína. Dollý sest að nýju og segir „Ferðatöskumaðurinn er uppáhaldslagið mitt, mér finnst það vera svo vel við hæfi á Íslandi í dag, svolítið þungt, en samt svo létt. Íslendingar eru nefnilega að eðlisfari frekar léttir og kátir, við kunnum einhvernvegin ekki að vera reið lengi og við erum fljót að gleyma. Líkt og kona sem elur barn við miklar þjáningar, hvað fær hana til að eignast annað? ... ekki eins og ég hafi reynt þetta, en þetta hef ég heyrt!

Ekki gott íþróttaár
Eigum við ekki að kíkja aðeins á íþróttirnar? Þetta verður ekki gott íþróttaár, ekki á alþjóðlegan mælikvarða a.m.k. Okkar yngsta fólk mun þó skara framúr, fimleikar, dans og fótbolti stúlkna verður stolt Íslands. Margir af efnilegustu leikmönnum okkar í handbolta og fótbolta karla hverfa úr landi og freista þess að fá samning erlendis. Það verður þeim ekki öllum til góðs og nokkrir leikmenn koma heim aftur með skottið milli fóta sér. En þetta er allt ungt fólk og ungt fólk á að reyna fyrir sér. Ég hef engar áhyggjur af  æsku landsins, þvert á móti, æskan er ekki jafn uppfull af bölmóði og þeir eldri og þeir vekja vonir og bjartsýni í brjóstum okkar.

Makleg málagjöld til þeirra sem eiga þau skilin
Á menningarsviðinu koma margir fram en fáir munu slá í gegn. Kvikmyndaleikstjórinn sem ég spáði í fyrra nær loksins takmarki sínu og við munum vekja athygli erlendis á menningarsviðinu. Álit útlendinga mun almennt batna á árinu, það vill nefnilega þannig til að langtímaminnið í útlöndum er álíka slæmt þar og hér heima. Það verður okkur til happs.

Við munum gæta þess að þeir sem leiddu útrásina á árinu 2007 fái þau málagjöld sem þeir eiga skilið, hvorki meira né minna. Fyrir þetta munum við njóta virðingar. Það þarf að taka á þeim sem stærsta rullu léku af festu og heiðarleika. Hlutlægt mat og sanngirni mun verða leiðarljós dómstóla og þeirra sem ákæra. Margar ákærur munu líta dagsins ljós, þó þær verði e.t.v. færri en margir vildu. Útrásarmenn sem skráðir eru til heimilis erlendis munu koma hingað heim og taka út sína refsingu. Þeir skynja að undan því verður ekki komist og munu í framhaldinu taka þátt í að byggja upp á nýtt. Maðurinn getur breyst, menn læra með tímanum, jafnvel þó tíminn muni ekki koma í veg fyrir að sömu mistökin verði gerð tvisvar.

Ég var búin að segja þér að sumarið verður gott, veturinn verður mildur en það koma hryðjur sem munu kosta mikið og við verðum óþægilega minnt á náttúruöflin þegar við teljum að vorið sé komið. Enn á ný sé ég hamfarir fyrir austan, hamfarir sem verða okkur ekki léttvægar.

Bretar munu skipta um þjóðhöfðingja á árinu og öllum að óvörum tekur Karl Bretaprins við veldissprotanum af móður sinni. Andstaða við hjónaband hans og Camillu Parker Bowles verður þó til þess að hann mun ekki sitja lengi og sonur hans Vilhjálmur tekur við á árinu 2011 eða 2012. Þá verður hann ógiftur en mun eiga vingott við stúlku sem þjóðin á erfitt með að sætta sig við. Sonur hans verður loksins kominn í leitirnar og er það slíkur fríðleiksdrengur að Bretar standa hreinlega á öndinni. Okkur Íslendingum finnst hann hins vegar ósköp venjulegt barn. Þeir eru ekki beint fallegir Bretarnir„ segir Dollý og skellir uppúr með miklum látum.

Kínverjar fara mikinn
Ég sit hljóð, því ég sé að mikið æði er runnið á vinkonu mína „Kínverjar fara mikinn á árinu 2010, þeir sækja mikið fram tæknilega og svo verður komið að þeir ná ekki að brauðfæða þjóð sína því áherslan hefur verið á tækni en ekki lífsgæði. Þetta veldur gríðarlegri mikilli vesæld sem Kínverjar munu ekki viðurkenna en sökum tækniframfara tekst þeim ekki að fela það fyrir umheiminum eins og þeir hafa gert til þessa. Verða þeir fyrir miklu ámæli á heimsvísu og munu hljóta mikla skömm fyrir.

Írar munu sömuleiðis fara mikinn á árinu, en ekki sé ég hvers vegna. Taktu bara vel eftir Írlandi, ætli þeir vinni ekki bara Eurovision!"

Dollý dæsir, lítur á mig og spyr: „Eigum við ekki aftur að snúa okkur að pólitíkinni hér heima?"

„Jú, mín vegna. Hvað með Jóhönnu?"

Dollý skellir enn einu sinni uppúr, slær sér á lær og segir: „Jóhanna, henni er nú ekkert ómögulegt. Sagði hún ekki að amma hennar hefði orðið ríflega 100 ára? Hún verður það líka og á því nokkra áratugi eftir enn. En það verður sótt að henni, ekki aðeins utan hennar flokks, heldur einnig innan frá. En hún á sér marga stuðningsmenn og hún verður varin innan flokks og utan. Margir hafa dæmt hana úr leik, var ekki einhver skruddukerling að gera það í einhverju blaði á dögunum? En þeim verður ekki kápan úr því klæðinu. Jóhanna hefur hingað til ekki horfið frá hálfnuðu verki og það gerir hún ekki núna heldur. Ég er þó ekki viss um að hún klári kjörtímabilið, en hún víkur sjálfviljug, það er klárt!"

Framsókn henglar einar
Dollý stendur einu sinni enn upp, bætir kaffi og kaffibæti í bollann sinn og sest síðan niður. „Er það eitthvað fleira ljúfan mín?"

„Já ég var að spá í hvort þú gætir eitthvað séð hjá Framsóknarflokknum, eða hjá þeim mörgu Íslendingum sem flutt hafa til Noregs?"

„Heija Norge!" hrópaði Dollý. „Norðmönnum er ekki vöðlað saman skal ég segja þér. Þeir eru öðlingar heim að sækja, þó nískir séu þeir með afbrigðum. Íslendingar eru velkomnir í Noregi og verða enn um sinn, en þegar Norðmenn átta sig á að sumir hverjir hafa þangað komið til að yfirgefa skuldir sínar á Íslandi þá munu Íslendingarnir ekki njóta þar friðhelgi og einhverjir verða sendir heim aftur með skömm og fordæmingum.

Framsóknarflokkurinn eru henglar einar og lítið um það að segja. Formaðurinn sem sannarlega kom á óvart á árinu 2009 hefur haldið áfram að koma á óvart og er ekki sú hvíta dúfa sem hann þóttist vera þegar hann var kjörinn. Hann dregur á eftir sér ættardraug og fleira sem erfitt er að eiga við á tímum sem þessum. Hann verður afturreka úr flokknum annað hvort á nýju ári eða því næsta. Ungur ættstór drengur mun taka við flokknum og gera allt sem hann og faðir hans getur gert til að byggja upp þennan forna risa, þó án erindis og erfiðis."

Hér lítur Dollý upp horfir stíft í augu mér og segir svo: „Æ, er þetta ekki nóg. Ég þarf að þrífa og er búin að fá nóg kaffi í bili."

Ég spyr hana ekki út í lettnesku húshjálpina sem var hjá henni á síðasta ári því sjálfri finnst mér nóg komið. Ég þakka fyrir mig, kyssi Dollý á vangann, óska henni farsældar á nýju ári, býð góða nótt og hverf út í myrkrið og frostið.

 


63% fjarverandi þingmanna úr minnihlutaflokkum við atkvæðagreiðslu í morgun

Ætli það séu ekki einhverjir sem telji að ég sé stórskrítin að kvelja sjálfa mig við það að hlusta (og jafnvel horfa) á útsendingu frá Alþingi, nú nokkrum dögum fyrir áramót. Ástæða þess að ég ákvað að setja sjálfa mig í þessa stöðu er að fyrir þinginu liggur að ganga frá svokölluðu Icesave samkomulagi, eða lögum þar um.

Einhvern grun hafði ég um það í morgun að umræður við upphaf kjörfundar yrðu fjörugar í dag. Jólasteikin hefur greinilega farið vel í þingmenn því menn höfðu uppi mörg stór orð í upphafi fundar og skildu ekkert í því að það væri möguleiki á löngum fundi í dag og könnuðust ekkert við samkomulag þar um. Einn þingmaður, sem ég hygg að sé nýkjörinn þingmaður utan flokka Birgitta Jónsdóttir, hefur þann leiða sið að hrópa húrra eða jafnvel púa á þingmenn í ræðustól. Hún lét ekki sitt eftir liggja í dag.

Þingmenn greiddu atkvæði um hvort það ætti að hafa kvöldfund í kvöld, 30 sögðu já 24 sögðu nei. Það var því ekki tilviljun að ég velti því fyrir mér hvar þingmenn minnihlutans voru við upphaf þingfundar í dag? Meirihluti er skipaður 34 þingmönnum Samfylkingar og Vinstri grænna og þar af leiðandi 29 þingmanna minnihlutaflokkanna. Samkvæmt fjarvistarskrá á vef Alþingis er ljóst að Álfheiður Ingadóttir var fjarverandi á fundinum og því hefði átt að greiða 62 atkvæði um kvöldfundinn. Hvar voru 3 þingmenn meirihlutans og ekki síður hvar voru 5 þingmenn minnihlutans, þingmenn sem hafa lagt sig fram um það dag og nótt að tefja afgreiðslu Icesave laganna? Hafa þessir 5 þingmenn gefist upp, eða hafa þeir ekki áhuga lengur á því að mæta í vinnuna sína?

Mér finnst það mjög alvarlegt ef það vantar 8 af 62 þingmönnum (gleymum því ekki að einn þingmaður var á fjarvistarskrá) eða nærri 13% þeirra sem hafa verið kjörnir til þess að setja íslenskri þjóð lög og reglur. Af þessum 8 eru nærri 63% úr minnihlutaflokkunum.

Sussss, mætið í vinnuna gott fólk!


Áramótaspáin

Hin árlega áramótaspá Dollýjar vinkonu minnar dulrænu mun birtast hér á vefnum að morgni 31. desember eins og venjulega. Dollý spáði fyrir árinu 2009 og hafði rétt fyrir sér í mörgu en skaut yfir markið í öðru, þá var sumt af því sem hún spáði um árið 2009 ansi nærri lagi.

Það hefur ekki verið vaninn að ég geri upp árið fyrir hana, það þarf hver og einn að gera fyrir sig sjálfur en spá hennar fyrir árið 2009 má finna á þessum tengli.


Mikið óstjórnlega

finnst mér Agnes Bragadóttir leiðinleg.

Ég gerði heiðarlega tilraun til að hlusta á "rökræður" Agnesar og Marðar Árnasonar í morgunsárið. Geðheilsa mín leyfði ekki nema rúmar 90 sekúndur af sleggjudómum og nöldrinu í blaðakonunni og mikið óskaplega var ég fegin að fá ljúfa jólatóna í eyrun þegar ég skipti um stöð!

Ætli ég geti farið fram á það að það verði send út geðheilsuaðvörun á þriðjudagsmorgnum, áður en "rökræðurnar" hefjast?


Sjálfstæðismenn í Kópavogi fastir í fortíðinni

Enn sem fyrr eru sjálfstæðismenn í Kópavogi við sama heygarðshornið í málgagni sínu Vogum sem kom út í vikunni. Í nafnlausum pistli aftarlega í blaðinu er því haldið fram að undirrituð vilji leggja niður Kópavog. Vísað er í grein sem ég ritaði í blað Samfylkingarinnar, Kópavog, fyrr í mánuðinum en þar ræddi ég um sameiningu sveitarfélaga.

Á þeim tímum sem við stöndum nú frammi fyrir, og ber ekki síst að „þakka“ Sjálfstæðisflokknum fyrir, þarf að leita allra leiða til að draga úr kostnaði og helst er um það rætt að það verði gert á þann hátt að ekki verði dregið úr velferðarþjónustu og stuðningi við þá sem minnst mega sín. Margar tillögur hafa komið fram og í grein minni tæpi ég á einni, þ.e. sameiningu sveitarfélaga. Umræðan um sameiningu sveitarfélaga er ekki ný af nálinni en hefur á síðustu árum fengið byr í seglin, ekki síst vegna aukinna verkefna sem flust hafa frá ríki til sveitarfélaga og þeirra verkefna sem væntanleg eru. Einhverra hluta vegna hefur kastljósinu helst verið beint út á landsbyggðina en ekki til þeirra sveitarfélaga sem eru hér á höfuðborgarsvæðinu. Í grein minni í Kópavogi velti ég því fyrir mér af hverju ekki sé horft til höfuðborgarsvæðisins. Eftir að hafa nefnt nær öll sveitarfélögin á svæðinu spyr ég hvaða rök hnígi að því að „Kópavogur sé sérstakt sveitarfélag, með alla þá yfirstjórn, nefndir og ráð sem kosta íbúa sveitarfélagsins umtalsverðan hluta af skatttekjunum?

Vogar, blað Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi kýs að snúa út úr þessum orðum mínum og fara rangt með. Þetta gerir hinn nafnlausi blaðamaður Voga að því er virðist til þess eins að gera lítið úr mér. Nafnleysið er undarlegt í ljósi þess að sá háttur hefur undanfarið verið harðlega gagnrýndur af sjálfstæðismönnum.  Ég tek þetta þó ekki nærri mér, en mér finnst miður að ekki sé hægt að ræða þessi mál af alvöru. Viðhorf sjálfstæðismanna í Kópavogi, sem speglast í litlu fréttinni í Vogum sýnir svo ekki verði um villst að þeir eru fastir í fortíðinni. Þeir þora ekki að horfa fram á veginn, lausn þeirra að efnahagsvandanum virðist felast í því að þeirra fólk, þeir sömu og settu Ísland á hausinn, haldi sínum hlut óskertum. Niðurskurður og hagræðing er ákjósanleg, nema þegar hætta er á að þeir sjálfir gætu misst spón úr aski sínum.

Undirrituð er tilbúin til að ræða á málefnalegan hátt um sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, þar sem bærinn minn Kópavogur verður ekki undanskilinn að neinu leiti. Með sameiningu sveitarfélaga gæti hann mögulega horfið inní Reykjavík. Kópavogsbær gæti einnig stækkað enn frá því sem nú er með sameiningu við hluta Reykjavíkur eða við önnur nærliggjandi sveitarfélög. Þann möguleika sjá íhaldsmenn í Sjálfstæðisflokkum í Kópavogi ekki og ætli það lýsi þröngsýni þeirra ekki best.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 18. desember 2009.


Yfirlýsing vegna auglýsingar Sjálfstæðisflokksins um skattamál

Mér er það bæði ljúft og skylt að benda á eftirfarandi vegna ósvífinna auglýsinga SjálfstæðisFLokksins um skattamál

  1. Öll framsetning í auglýsingunni er vafasöm. Ekki er verið að bera tillögur ríkisstjórnarinnar saman við neinn raunveruleika eða raunverulega valkosti. Sjálfstæðisflokkurinn heldur að lesandanum þeirri tálsýn að óbreyttar skattareglur og áður fyrirhugaðar breytingar sé eitthvað sem raunhæft sé eftir að hann sigldi þjóðarbúinu í þrot og braut niður tekjuöflun ríkisins. Raunhæfur samanburður verður aðeins gerður á raunverulegum forsendum.
  2. Í kynningu á nýjum tillögum um skatta hefur ríkisstjórnin fyrst og fremst borið þær saman við skattareglur á yfirstandandi ári. Þær reglur og áhrif þeirra svo sem á skattbyrði og dreifingu skattbyrði á mismunandi tekjuhópa eru þekktar. Í þeim efnum hefur hún notað alþjóðlega viðurkenndar aðferðir svo sem skatthlutföll eftir tekjubilum og skattbyrði sem hlutfall af landsframleiðslu. Slíkar aðferðir eru notaðar af alþjóðastofnunum svo sem OECD. Útreikningar og samanburður með þeim hætti sýnir tvennt, sem ekki verður dregið í efa.

    Í fyrsta lagi að skattbyrði í heild og af tekjuskatti sérstaklega verður á árinu 2010 lægri en hún var á valdatíma Sjálfstæðisflokksins fyrir hrun. Í öðru lagi að dreifing hennar verður sanngjarnari, skattbyrði lágtekjufólks verður eitthvað lægri en áður en eitthvað hærri hjá þeim sem meira bera úr býtum. Ítarlegri upplýsingar því til staðfestingar verða birtar á næstu dögum. Þetta eru staðreyndir sem ekki verða hraktar með auglýsingabrellum.
  3. Í smáu letri neðst á auglýsingunni kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn reiknar það sem skattahækkun að persónuafsláttur hækki um 2.000 kr. í stað 5.800 kr.. Þarna er um minni skattalækkun en áður var áformað að gera, en það er hreinn útúrsnúningur að kalla þetta skattahækkun. Með sömu rökum ætti verslunareigandi sem kaupir inn vöru fyrir 5.000 þúsund krónur og verðleggur hana á 10.000 kr. en selur hana að lokum á útsölu fyrir 7.000 krónur að bókfæra söluna sem 3.000 kr. tap í stað 2.000 kr. ágóða! Allir sjá hversu fráleitar slíkar reikningskúnstir eru.
  4. Fyrirsögn auglýsingar Sjálfstæðisflokksins er: „Öll heimili munu greiða hærri skatta". Þar fyrir neðan segir: „Skattahækkanir ríkisstjórnarinnar munu kosta alla Íslendinga verulegar fjárhæðir á næsta ári." Þar fyrir neðan er svo tafla sem sýnir þennan aukna kostnað sem Íslendingar mega búast við á næsta ári vegna skatthækkana og verðlagsáhrifa þeirra. Í smáa letrinu kemur aftur á móti fram að þarna sé einnig teknar með þær breytingar sem gerðar voru á miðju þessu ári. Þarna er því um villandi framsetningu að ræða. Einhver þessara áhrifa hafa þegar komið fram og er þarna beitt blekkingum til að slá pólitískar keilur í þágu Sjálfstæðisflokksins á kostnað ríkisstjórnarflokkanna.
  5. Þau dæmi sem Sjálfstæðisflokkurinn tekur eru miðuð við mánaðartekjur einstaklinga eða fjölskyldna. Meint áhrif skattbreytinganna eru hins vegar sýnd á ársgrundvelli. Með þessu fær fólk ranga tilfinningu fyrir hinni raunverulegu breytingu. Heiðarlegast og gagnsæjast væri að sýna áhrifin á mánaðargrundvelli eða miða við árstekjur. Þá er í þessu samhengi sýnd hækkun höfuðstóls vegna vísitöluáhrifa, en auðvitað dreifist þessi hækkun á allan lánstíma og eru mánaðaráhrifin hverfandi.
  6. Í reiknivélinni sem er á heimsíðu Sjálfstæðisflokksins er smáa letrið hvergi sjáanlegt og geta notendur hennar því ekki áttað sig á því á hvað forsendum vélin byggir. Ljóst má þó vera að vélin byggir á svipuðum forsendum og koma fram í smáa letrinu í auglýsingunni.

    Þegar vélin er látin reikna áhrif breytinga á fjármagnstekjuskatti kemur tvennt í ljós.

    Hún gerir annarsvegar ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur sé að hækka úr 10% í 18% en ekki 15% í 18%. Þannig reiknar hún meiri aukningu en í raun mun verða. Skatturinn hækkaði úr 10% í 15% sl. sumar og hafa áhrif hans því þegar komið fram að nokkru leyti.

    Hins vegar kemur í ljós að vélin gerir ekki ráð fyrir 100 þús.kr. frítekjumarki á vaxtatekjur. Því reiknar hún út hækkun strax á fyrstu krónu (reyndar þúsund krónur því vélin sýnir ekki aukastafi). Þarna er því um hrein ósannindi að ræða því raunin er að fjármagnstekjuskattur mun lækka af fjármagnstekjum allt að 220 þús.kr.

Auglýsing Sjálfstæðisflokksins er dapurlegur vitnisburður um ómálefnalegan og ósannan málflutning sem flokkurinn telur bersýnilega best þjóna hagsmunum sínum.

Reykjavík, 11. desember 2009

Björgvin G. Sigurðsson                   Árni Þór Sigurðsson
form. þingflokks Samfylkingar         form. þingflokks Vinstri grænna

 


Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband