Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Ríkisstjórnin er óstarfhæf

Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin með eins manns meirihluta er óstarfhæf. Nægir þar að benda á að í Sjálfstæðisflokknum heitir einn þingmaður Árni Johnsen, hann er ekki maður sem ríkisstjórn getur treyst á enda hafa skoðanir hans oftar en ekki farið á skjön við stefnu flokksins yfirleitt og nægir þar að benda á jarðgöng til Eyja.

Annar maður sem gerir það að verkum að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er óstarfhæf er að í liði Framsóknarmanna er maður að nafni Bjarni Harðarson sem hefur sýnt það í kosningabaráttunni að hann er ekki maður flokksstefnu, honum myndi sjálfsagt lynda ágætlega við Guðna Ágústsson, en hann er ekki maður sem mun taka hverju sem er þegjandi og hljóðalaust, það sýndi sig svo ekki varð um villst í baráttunni.

Það er því ljóst að ríkisstjórnin mun fara frá og við munum fá nýjan flokk í ríkisstjórn fyrir næstu mánaðamót.

 


Samfylkingin á erindi í ríkisstjórn

Þrátt fyrir að Samfylkingin hafi því miður misst tvo menn fyrir borð í kosningunum í gær þá er það meira en 100% ljóst í mínum huga að flokkurinn á erindi í ríkisstjórn og í gær voru skilaboð kjósenda, Íslendinga, þau að það á að skipta um ríkisstjórn. Það er líka kristaltært að ríkisstjórn með eins manns meirihluta er ákaflega tæp og það verður erfitt að gera slíka stjórn starfhæfa eftir öll þau ummæli sem fallið hafa í kosningabaráttunni á milli flokkanna tveggja sem hana mynda.

Guðríður Arnardóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi, orðaði þetta vel í Silfri Egils í dag þegar hún sagði eitthvað á þá leið að Framsóknarflokkurinn hafi búið við pólitískt heimilisofbeldi í 12 ár af hendi Sjálfstæðisflokksins og það væri þeim flokki fyrir bestu að draga sig út úr ríkisstjórninni og byggja sig upp fyrir næstu kosningar utan ríkisstjórnar.

Með þetta í huga þá á Samfylkingin, og reyndar Sjálfstæðisflokkur líka, aðeins einn möguleika í stöðunni og það er að mynda sterka tveggja flokka stjórn þar sem Samfylkingin mun leiða þær nauðsynlegu umbætur sem þarf að standa fyrir í velferðarmálunum.

Ég hvet því nöfnu mína og forsætisráðherrann til að setjast niður í kvöld, eða strax eftir helgi, og ræða þá möguleika sem eru í stöðunni og skora á þau bæði (og þá sérstaklega Geir H. Haarde) að hafa hagsmuni íslenskrar þjóðar að leiðarljósi en ekki framapot einstakra þingmanna eða bestu vina aðal. Það er létt að láta af öllu slíku þegar Framsóknarflokkurinn er horfinn úr ríkisstjórninni.

 


mbl.is Ingibjörg Sólrún: Ríkisstjórnin of veik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversu siðblindir geta menn orðið?

Hæstiréttur dæmdi Jónas Garðarsson í þriggja ára fangelsi í dag fyrir að hafa verið valdur að dauða tveggja einstaklinga og lagt líf tveggja annarra í stórkostlega hættu.

Allt frá því að Harpan sökk,  haustið 2005, hef ég fundið til með aðstandendum þeirra sem létust og um leið haft mikla skömm á þeim afsökunum og ávirðingum sem Jónas Garðarsson hefur borið á látið fólk. Þegar hann var dæmdur sekur í héraðsdómi þá las ég dóminn allan yfir, lýsingar þær á aðstæðum farþeganna um borð í bátnum og sérstaklega samtal eiginkonu Jónasar við neyðarlínuna eru svo átakanlegar að mann beinlínis verkjar.

Dómur héraðsdóms og það sem þar kemur fram sýnir svo ekki verður um villst að Jónas Garðarsson er algjörlega siðblindur einstaklingur, já ég fullyrði það, hann er algjörlega siðblindur og þegar maður lítur til þess hvers hann krefst af hæstarétti þá fyrst gerir maður sér grein fyrir að siðblinda hans er komin út fyrir öll mörk. Í áfrýjuninni segir: Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur. Til vara krefst hann sýknu en að því frágengnu að refsing verði milduð og bundin skilorði. Hann krefst þess að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af þeim en að því frágengnu að þær verði lækkaðar. Þá krefst hann þess aðallega að kröfu um greiðslu sakarkostnaðar fyrir héraðsdómi samkvæmt yfirliti að fjárhæð 3.187.248 krónur verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfunni en ella að hún verði lækkuð. Þá krefst hann þess að annar sakarkostnaður fyrir héraðsdómi og sakarkostnaður fyrir Hæstarétti verði felldur á ríkissjóð.“

Ætlast maðurinn virkilega til að einhver trúi því að hann sé saklaus? Maður sem siglir fullur, í sudda og myrkri, steytir á skeri, drepur við það mann, bakkar af skerinu og reyndir að sigla út í Viðey (væntanlega til að reyna að losna undan ábyrgð af mannslátinu) og drekkir þar með annarri manneskju. Neitar að hringja á aðstoð eða ræða við neyðarlínuna og leggur líf eiginkonu sinnar og sonar í stórkostlega hættu. Á einhver von á því að þessi maður verði sýknaður? Hvernig getur honum og lögmanni hans dottið í hug að leita eftir sýknu í þessu máli og til að fullkomna ósvífnina og siðblinduna krefst hann þess að ríkissjóður, ég og þú, greiði sakarkostnaðinn!

Mér finnst Jónas Garðarsson sleppa vel, alltof vel, frá þessu máli. En ég er ekki búin að gleyma því að Sjómannafélag Reykjavíkur stóð við bakið á honum og er það þeim sem þar ráða til ævarandi skammar. Sjómannafélag Íslands sýndi þó þann sóma að krefjast afsagnar hans í kjölfar slyssins og fyrir það fá þeir prik í svörtu minnisbókinni minni.

Dómur Hæstaréttar (og héraðsdóms).


Þið talið of mikið um gamla fólkið

„Þið talið alltof mikið um gamla fólkið,“ sögðu tvær eldri dömur við mig í kaffiboðinu hjá Samfylkingunni á verkalýðsdaginn, 1. maí. Þarna hitti ég tvær vinkonur mínar, sem eru ögn eldri en ég, en ég starfaði með þeim í Sunnuhlíð þegar ég var um það bil að skríða út úr menntaskóla. Mér var nokkuð brugðið við þessa athugasemd þeirra, ég taldi víst að þær vildu ræða sem mest um málefni eldri borgara, hjúkrunarheimili og vistheimili. En nei, alls ekki, stjórnmálamennirnir tala of mikið um gamla fólkið!

Ég sperrti að sjálfsögðu eyrun. Hvað voru þær að meina. Ég sem ætlaði að skora hjá þeim með athugasemd sem ég heyrði í útvarpinu eitt kvöld um síðustu helgi en þar sagði einn viðmælanda að foreldrar myndu ekki sætta sig við það að barnið þeirra kæmist ekki í 7 ára bekk fyrr en það er 9 ára vegna þess að það er ekki pláss í skólanum!  Þetta þótti mér bráðsnjallt um síðustu helgi, en vinkonur mínar tvær töluðu af visku og skynsemi og eftir að hafa melt málið með mér í þrjá daga er ég komin á þeirra skoðun. Stjórnmálamenn tala of mikið um gamla fólkið!

Þær voru svo sem ekki á því að það ætti alls ekki að ræða um úrræði fyrir fólk sem komið er á efri ár, jú þær vildu það endilega en bara á öðrum forsendum. „Það á ekki endalaust að ræða um þessi hjúkrunarheimili og elliheimili, það þarf að finna úrræði til að eldra fólk geti verið lengur heima hjá sér, verið stolt og sjálfstætt á sínu eigin heimili og lifað með sama sóma og það hefur gert til þessa dags.“ Mæli þær manna heilastar! Auðvitað vilja eldri borgarar vera heima hjá sér eins lengi og mögulegt er, ég hafði svo sem ekki hugsað það en okkur systrum hefur ekki dottið í hug að sækja um fyrir foreldra okkar í Sunnuhlíð eða annarsstaðar. Þau vilja vera heima og við munum styðja þau af fremsta megni til að svo megi verða.

Ömmur mínar og annar afi minn dvöldu síðustu æviár sín á elliheimili, á slíkri stofnun dvaldi reyndar líka ömmusystir mín og nafna sem ég var ákaflega náin sem barn. Föðurforeldrar mínir dvöldu síðustu árin á Droplaugastöðum, sem þá var ný bygging og þótti með flottari bústöðum eldra fólks á sínum tíma. Þar nutu þau ágætrar þjónustu, þau voru í lítilli íbúð þar sem amma gat hellt uppá kaffi og bakað pönnukökur á eldavélahellu. Ég á ekki aðrar minningar en þær að þeim hafi liðið vel þarna og þau voru þakklát fyrir að fá að eyða síðustu árum ævi sinnar saman.

Móður amma mín dvaldi á Hrafnistu. Ég held að henni hafi leiðst þar og var oft hjá okkur á Álfhólsveginum. Ég minnist þess að hafa oftsinnis farið að sækja ömmu á Hrafnistu, þá nýkomin með bílpróf. Amma var held ég alltaf pínulítið hrædd í bíl með mér enda deildum við einu ótrúlegu ævintýri saman eitt sinn þegar ég var að aka henni aftur í Hrafnistu.  

Inga frænka var undir það síðasta á Grund og satt best að segja þá vorkenndi ég henni að vera þar. Hún bar sig þó vel en mér var hins vegar ekki vel að fara þangað í heimsókn. Grund er sjálfsagt hinn prýðilegasta vistheimili en allt frá því á mínum unglingsárum hef ég haft einhvern illan bifur á þessum stað og þangað langar mig hreinlega ekki aftur. Húsið sem Grund er í við Hringbrautina er þó óvenju glæsileg bygging og ég læt mér duga að dást að því utan frá, inn langar mig ekki.

En aftur að vinkonum mínum í 1. maí kaffinu. Önnur þeirra sagði líka eitt sem við þurfum að ræða við hvern og einn einstakling. Hún sagði: „Þegar ég fer á öldrunarstofnun þá vil ég ekki vera ein. Það er örugglega hræðilegt að vera ein í herbergi. Manni líður einfaldlega betur að hafa einhvern hjá sér, tíminn verður fljótari að líða að hafa einhvern til að tala við. Hvað heldur þú að fólk hugsi sem er eitt í herbergi? Ekkert, nema um tímann og það er sennilega það síðasta sem fólk á þessum aldri vill vera að hugsa um. Svo er það starfsfólkið, veistu hvað hver og einn starfsmaður er lengi inni í hverju herbergi? Nei, ekki nógu lengi, a.m.k. ekki ef maður er einn í herbergi, en það eru líkur á að starfsfólkið verði helmingi lengur í hverju herbergi ef þar eru tveir vistmenn.“

Ég hafði aldrei hugsað þetta svona, aldrei, en þetta er örugglega rétt hjá vinkonum mínum. Stjórnmálamenn þurfa einfaldlega stundum að hlusta betur á það fólk sem það er að fjalla um, þeir þurfa að forðast alhæfingar, sumt hentar einum og annað öðrum.

En það er bara einn flokkur sem getur ráðist í það að vinna betur að málefnum eldri borgara og það er Samfylkingin. Hugsum okkur vel um og merkjum X við S í alþingiskosningunum þann 12. maí nk.


« Fyrri síða

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband