Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Stolt af MK!

Mikið var ég stolt af gamla skólanum mínum í kvöld. Strákarnir í MK-liðinu voru óheppnir að fara ekki með sigur af hólmi, ekki aðeins vegna þess að þeir sögðu Sauðárkrókur í staðinn fyrir Sauðá, heldur líka vegna þess að þeir voru með Hillary og Herðubreið og þríþrautina í restina á hreinu. Ég held að taugarnar hafi farið illa með mína menn og þær hafi umfram allt annað verið þess valdandi að svo fór sem fór.

Mér fannst líka í upphafi að það hafi hallað örlítið á þá í hraðaspurningunum því Zygmar, spyrillinn síkáti, átti í einhverjum erfiðleikum með að koma spurningunum út úr sér í byrjun og var í raun ekki orðinn almennilega heitur fyrr en hann fór að spyrja MR inga sem fengu líka einar þrjár spurningar til viðbótar til að svara. 

En það á ekki að kenna dómaranum um eða spyrlinum í þessu tilfelli, ég er stolt af skólanum mínum MK og strákunum, þeir voru skólanum og Kópavogi til sóma og ég óska þeim innilega til hamingju með árangurinn hann var þrátt fyrir allt stórglæsilegur.

 


mbl.is MR-ingar höfðu betur í Gettu betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafnfirðingar ... vandið valið!

Á morgun kjósa Hafnfirðingar um skipulagsbreytingu sem gerir ráð fyrir stækkuðu álveri í Straumsvík. Ég hef sveiflast nokkuð í afstöðu minni til álversins en þó hallast ég meira að því að heimila skipulagsbreytinguna.  Slík heimild þarf ekki að þýða að álverið stækki strax á sunnudag. Það mun taka lengri tíma og Hafnfirðingar, Landsvirkjun og ríkisstjórnin geta auðveldlega sett tímamörk á það hvenær stækkun verður framkvæmd.

Stækkun álversins er klárlega til hagsbóta fyrir Hafnfirðinga, sérstaklega fjárhagslega en einnig að teknu tilliti til atvinnu og uppbyggingar í tengslum við stækkunina. Neikvæðu þættirnir fyrir Hafnfirðinga snúa fyrst og fremst að útliti verksmiðjunnar og nærumhverfi hennar. Þá þarf stærra álver meiri orku og hana þarf að virkja austan fyrir fjall. Þar hafa landeigendur þegar gefið vilyrði sitt fyrir stækkun og því ætti ekki að stranda á því.

En þetta er hitamál en ég treysti engum betur en Hafnfirðingum til að komast að niðurstöðu sem vonandi verður sátt um í framtíð og nútíð.

 


mbl.is Send heim af slysadeild með hættulegan áverka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hólmfríður send heim af slysadeild með hættulegan áverka

Eftir ótal komur á slysadeild með slasaða íþróttamenn, sem hafa verið sendir heim með slitin krossbönd og liðbönd, brákuð bein og fleiri „smááverka“ sem áttu að „lagast á nokkrum vikum“ þá verð ég að segja að þarna fóru þeir á slysadeildinni framúr sjálfum sér. Að senda einstakling heim af slysadeildinni með jafn alvarlegan áverka og þarna er um að ræða er náttúrulega ábyrgðarleysi af hæstu gráðu og maður spyr sig hvort það sé allt í lagi á deildinni svona yfirleitt.

Það er von mín að þeir á slysadeildinni lesi þetta því það er greinilegt að þar vantar uppfræðslu. Það dettur í fyrsta lagi engum í hug að koma á slysadeild nema viðkomandi telji að hann sé svo slasaður að það þoli enga bið. Fyrir því eru ástæður sem ég þarf ekki að nefna en bendi þó á aðeins á biðtímann hjá þeim sem oftar en ekki liggur í klukkustundum frekar en mínútum. Það hefur enginn heilbrigður maður áhuga á að bíða þarna frammi í fleiri klukkustundir nema hann telji sig nauðsynlega þurfa þess með.

En það er annað sem rétt er að benda á og það er að íslenskar knattspyrnukonur sem náð hafa þeim árangri að leika með íslenska landsliðinu eru sannkallaðir „naglar“. Þær láta sér ekki allt fyrir brjósti brenna enda þurfa þær þess í harðri baráttu um boltann inni á vellinum og það eru engar væludúkkur í íslenska landsliðinu. Hólmfríður Magnúsdóttir, sem þarna varð fyrir barðinu á lélegri þjónustu slysadeildar, er einhver sú alharðasta í boltanum og það er meira en 100% öruggt að hún hefur sko ekki nennt að hanga á slysadeildinni ef hún hefur talið að áverki sinn lagaðist af sjálfu sér.

Það er hins vegar lán íslenskrar knattspyrnu að eiga hauk í horni eins og Sveinbjörn Brandsson bæklunarlækni og reyndar nokkra aðra lækna sem hafa gefið mikið af tíma sínum fyrir íslenska knattspyrnu. Þeir vita það frá fyrstu hendi að landsliðskonur Íslands í knattspyrnu eru engir aular eða vælukjóar og þegar þeir fá fréttir af þeim illa höldnum þá vita þeir það strax að þar er eitthvað að.

Ég vona að Fríða jafni sig hratt og vel af meiðslum sínum og óska henni alls hins besta í framtíðinni, innan vallar sem utan.

 


Arsenal að eilífu

Mig grunaði að þetta yrði niðurstaðan í kvöld. Eftir að Alex skoraði sjálfsmarkið þá sagði ég við hópinn í stofunni hjá mér að það væri eftir því að eiga allan leikinn, vera miklu miklu betri en falla úr leik á einhverju heppnismarki. Það gekk eftir.

Það breytir ekki því að ég stend með mínum mönnum og ber Arsenaltreyjuna mína með stolti hvar og hvenær sem er.

Áfram Arsenal, alltaf, allsstaðar.


mbl.is PSV sló Arsenal út úr Meistaradeild Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þú getur haft áhrif!!!!

Ég sá myndina „An Inconvenient Truth“ á laugardag og varð mjög uppnumin. Myndin fjallar um loftmengun, orsakir hennar og afleiðingar. Sögumaður í myndinni er „fyrrverandi næsti forseti Bandaríkjanna“ eins og Al Gore kynnir sjálfan sig í myndinni. Þó myndin hafi að mínu mati verið dálítið langdregin á köflum þá vakti hún mig sannarlega til umhugsunar um umhverfi mitt og það sem ég get gert til að draga úr magni gróðurhúsalofttegunda. Það er alveg 100% ljóst að hér gildir það sem Staðardagskrá 21 grundvallast á, „Think Globally, Act Locally“

Stefán Gíslason, sem er framkvæmdastjóri Staðardagskrárverkefnis sveitarfélaga, setur á heimasíðu Sd21 orð dagsins sem hann finnur í fjölmiðlum víða um heim og úr ýmsum fræðibókum. Þann 14. febrúar sl. skrifar Stefán:

„Sumarhitinn í Madrid gæti verið kominn í 50°C í lok þessarar aldar ef svo heldur sem horfir með hlýnun jarðar. Í þokkabót gæti úrkoman á Suður-Spáni orðrið 40% minni um næstu aldamót en hún er í dag. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu spænska umhverfisráðuneytisins sem birt var í gær. Spánn er í hópi þeirra landa sem líklegt er að verði hvað verst úti vegna loftslagsbreytinga. Þar eykst losun gróðurhúsalofttegunda einnig hvað mest um þessar mundir.“ (frétt PlanetArk/Reuter 14. febrúar 2007)

Hlýnun jarðar er af mannavöldum og hún kemur okkur við. Það þarf að bregðast við loftmengun og þar á hver og einn jarðarbúi að skila sínu. Þú getur haft áhrif. Þú getur gert Jörðina lífvænlega til frambúðar.

Á vefsíðunni http://www.climatecrisis.net/takeaction/whatyoucando/index.html eru ýmis ráð tíunduð sem maður getur auðveldlega tekið þátt í til þess að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda. Ég hef tekið nokkur þeirra til skoðunar og ætla að reyna að fylgja þessu eins og best ég get.

  • Notaðu sparnaðarljósaperur
  • Kauptu heimilistæki sem hafa verið umhverfisvottuð
  • Hengdu upp þvottinn þinn í stað þess að setja alltaf í þurrkarann
  • Slökktu á rafmagnstækjum sem þú ert ekkki að nota og taktu þau helst úr sambandi
  • Notaðu uppþvottavél aðeins þegar þú hefur hlaðið hana til fulls
  • Einangraðu húsið þitt vel og dragðu þannig úr hitunarkostnaði og notkun
  • Vertu viss um að endurvinna það sem hægt er að endurvinna
  • Gróðursettu tré, fullt af trjám!
  • Sparaðu orku heima fyrir
  • Kauptu lífrækt ræktaðar vöru og ferskar matvörur frekar en frosnar
  • Forðastu vörur sem hafa verið ofpakkaðar
  • Gakktu og hjólaðu þegar því verður við komið, samnýttu bíla
  • Hugsaðu vel um bílinn þinn og láttu stilla hann reglulega
  • Athugaðu loftþrýsting í dekkjum, það getur dregið úr orkunotkun
  • Kauptu umhverfisvæna bifreið næst þegar þú kaupir þér bíl
  • Fljúgðu minna, reyndu að halda símafundi eða fjarfundi þegar því verður við komið

 Og munum: Við fengum Jörðina ekki í arf frá forfeðrum okkar. Við höfum hana að láni frá börnunum okkar.


Sundurlyndi stjórnarflokkanna

Sundurlyndi stjórnarflokkanna er að ná hámarki. Framsóknarmenn berjast um á hæl og hnakka til að bæta við sig einu eða hálfu prósenti, sem þó myndi væntanlega ekki duga þeim til að koma formanninum á þing. Það er í lagi.

En heilbrigðisráðherrann Siv Friðleifsdóttir, sem heldur er ekki inni á þingi skv. skoðanakönnunum, reynir þó að standa í lappirnar í auðlindamálinu og hótar stjórnarslitum. Formaður hennar virðist vera hálf heyrnarskertur eða skilningssljór a.m.k. skilur hann ekki orð hennar sem hótun um stjórnarslit. Síðan hörfar kappinn undan spurningum fréttamanna og virðist hafa áttað sig á því að fæst orð hafa minnsta ábyrgð. Guðni Ágústsson sýnir þó þann manndóm að svara fréttamönnum og þó hann skilji ekki í Siv þá er hann þó maður að meiri fyrir það að hafa tekið þátt í umræðunni.

Innan Sjálfstæðisflokks er líka allt uppí loft. Ungliðsforinginn og framtíðarleiðtogi flokksins, Sigurður Kári, segir það skoðun sína að Siv eigi að segja af sér fyrir ummæli sín (sem þó voru engin að mati Jóns Sigurðssonar iðnaðarráðherra). Þorgerður Katrín, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að henni beri ekki að segja af sér og setur ofan í við Sigurð Kára.

Þetta er hið merkilegasta mál og ljóst að það er engin eining á stjórnarheimilinu þessa dagana. Félagsmálaráðherra ákvað, að því er virðist uppá sitt eindæmi, að hækka húsnæðislán Íbúðarlánasjóðs uppí 90% og fjármálaráðherra segir aðspurður að hann hafi ekkert um þetta að segja, þetta sé mál félagsmálaráðherra. Maður skyldi nú ætla að ráðherrar í ríkisstjórninni ræddu eitthvað örlítið saman áður en ákvarðanir eins og þær að hækka útlán Íbúðalánasjóðs myndu vera ræddar inná fundi ríkisstjórnar sem og afleiðingar slíkrar ákvörðunartöku.

Í byrjun síðasta árs eða á fyrstu mánuðum þess var mikið rætt um 100% lán bankanna og 90% lán Íbúðalánasjóðs og aukin verðbólga rakin til þessara lánamöguleika. Í kjölfarið drógu bankarnir úr útlánum og lánasjóðurinn lækkaði lánshlutfallið niður í 80%. Var það gert til að reyna að halda í stöðugleikann í efnahagslífinu og draga úr verðbólgu. Núna tekur félagsmálaráðherrann það uppá sitt eindæmi, ef marka má orð fjármálaráðherra, að hækka lánin í 90% að nýju. Hvernig ber að skilja það? Vill Framsóknarflokkurinn og félagsmálaráðherrann ekki halda í stöðugleikann. Kemur fjármálaráðherra það ekki við hvernig lánshlutfall Íbúðarlánasjóðs, sem er ríkisstofnun nota bene, er? Kemur fjármálaráðherra ekki við hvernig þróun verðlags er á Íslandi, kemur ráðherranum ekki við stöðugleikinn í efnahagslífinu?

Er nema von að maður spyrji!

 


Það er ekki til sérstakt herbergi í helvíti fyrir konur ...

Ég hef áhyggjur. Áhyggjur mínar felast fyrst og fremst í því að flokkurinn minn, Samfylkingin, er að mælast með minna og minna fylgi í hverri könnuninni á fætur annarri. Ég gæti auðveldlega barið mér á brjóst, og þau ekki smá, og sagt „sussussu, þetta eru BARA skoðanakannanir, við skulum sjá hvað kemur uppúr kjörkössunum“. Mér dettur ekki í hug að gera það. Niðurstöður skoðanakannana gefa vísbendingar og maður á að taka mark á vísbendingum.

Ég held að félagar mínir í forystu flokksins séu ekki að beita réttum aðferðum í baráttunni. Við eigum að nota okkar sterkasta vopn miklu, miklu mun betur en við gerum. Það vopn er stefnuskrá flokksins, stefna jöfnuðar, frjálslyndis, framfara og lýðræðis. Það er enginn annar stjórnmálaflokkur á Íslandi sem getur teflt fram jafn öflugri stefnu og Samfylkingin og við verðum að beita öllum meðulum mögulegum til að koma henni á framfæri, henni fyrst og fremst.

Oftsinnis áður hef ég sagt frá því að ég sé ekki femínisti. Ég er hins vegar mikill og öflugur talsmaður jafnra tækifæra allra; karla, kvenna, ungra, aldinna, fatlaðra sem ófatlaðra. Allir gildir þjóðfélagsþegnar eiga að eiga þess kost að fá jöfn tækifæri í lífinu hvort sem þeir eru fæddir með silfurskeið í munni eða ekki. Það er grundvallarregla sem ég hef haft í forgrunni allt frá því ég komst til vits og ára (og jafnvel fyrr). Fyrir þessu vil ég berjast og stefna Samfylkingarinnar er sú sem ég tel best til þess fallna að koma þessu í framkvæmd.

Síst af öllu vil ég þá forræðishyggju sem vinstri grænir boða í stefnuyfirlýsingum sínum. Forræðishyggja hefur verið reynd með illum árangri í mörgum ríkjum heims. Vissulega var hún góð til síns brúks á sínum tíma þegar ánauð og fátækt hrjáði þessar þjóðir en að reyna að troða þessu uppá Ísland dagsins í dag er slík tímaskekkja að það er tæplega hægt að færa það í orð.

Frjálshyggja íhaldsins er mér heldur ekki að skapi því það er einfaldlega þannig að þó í orði séu allir menn bornir frjálsir þá eru þeir engu að síður misfrjálsir. Ýmsar utanaðkomandi aðstæður geta valdið því að menn fá ekki jöfn tækifæri, þar skiptir fjárhagur mestu máli en frjálshyggja íhaldsins elur á því að þeir ríku verði ríkari og að hinir fátæku haldi áfram að vera fastir í fátæktrargildru. Þetta sést ekki síst í skattastefnu ríkisstjórnarinnar þar sem hinir ríku þurfa að borga minna og minna til samfélagsins, og jafnvel ekki neitt, en þeir sem minna hafa þurfa að greiða sífellt stærri hlut af tekjum sínum í skatta og skyldur.

Ég get ekki fellt mig við tækifærismennsku framsóknar þar sem menn taka þær ákvarðanir sem þeir telja að henti sér best á hverjum tíma. Stefna þeirra felst að því er virðist helst í því að vera við völd sem lengst og fórna málstað sínum, ef hann er þá nokkur, fyrir valdið. Það tel ég slæmt og þá ekki síst það að í skjóli valdsins hefur þessi flokkur helst opinberast sem atvinnumiðlun þar sem gæðingum flokksins eru skammtaðar opinberar stöður í ómældu magni.

Frjálslynda flokkinn nenni ég ekki einu sinni að tala um, svo ósmekklegur sem hann er.

En ég vil veg Samfylkingar meiri, miklu meiri. Ég tel ekki að endalaust tal um konu í stól forsætisráðherra sé vænlegt til árangurs. Satt best að segja tel ég að slíkt tal verði frekar til þess að fæla fólk frá flokknum en að honum. Konur kjósa ekki endilega konur, það er löngu sannað. Öllu tali um að það sé til sérstakt herbergi í Helvíti fyrir konur sem ekki standa með öðrum konum vísa ég til föðurhúsanna. Konur eiga að standa með sannfæringu sinni, þær eiga að standa á rétti sínum, þær eiga að standa að sanngjarnara og réttlátara samfélagi þar sem hver einstaklingur fær að njóta sín og sinna hæfileika. Þetta geta konur staðið vörð um og þetta eiga konur að standa vörð um. Þessi varðstaða mun á endanum leiða til þess að Samfylkingin mun komast í ríkisstjórn og fær vonandi forsætisráðuneytið. Nafna mín, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er formaður Samfylkingarinnar og mun þess vegna verða forsætisráðherra, fyrst íslenskra kvenna.

 


Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband