Leita í fréttum mbl.is

Siðferðisþrek þingmannsins

ALÞINGISMAÐURINN Jón Gunnarsson stakk niður penna í málgagni Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, Vogum, sem dreift var fyrir skömmu. Ber hann þar miklu lofsorði á bæjarstjórann í Kópavogi fyrir það að hafa „sýnt mikið siðferðisþrek" í lífeyrissjóðsmálinu svokallaða. Að vísu segir alþingismaðurinn að vissulega hafi bæjarstjórinn„farið á svig við lög" í störfum sínum sem formaður lífeyrissjóðsins, en það skín í gegnum grein hans að hinn siðferðislegi styrkur bæjarstjórans hafi hreinlega borið hann ofurliði og hann sagt af sér þess vegna.

Jón Gunnarsson, sá hinn sami og skrifar í Voga um siðferðisþrek bæjarstjórans í Kópavogi, situr á Alþingi Íslendinga en starfsmenn þeirrar stofnunar hafa m.a. þann starfa að setja þjóðinni lög sem ætlast er til að almenningur fylgi og fari eftir. Það að fara á svig við lög er ekki léttvægt atriði og það ber að mínu viti engan vott um siðferðisþrek að víkja sæti þegar grunur leikur á að formaður stjórnar opinberrar stofnunar hafi „gerst brotlegur við lög".

Þingmaðurinn nefnir í upphafi greinar sinnar málefni fyrirtækis dóttur bæjarstjórans, það sem mikill styr stóð um skömmu áður en FME vék stjórn LSK frá. Það var gott hjá honum að nefna, því þegar málefni LSK komst í hámæli lá þegar fyrir krafa frá samstarfsflokki Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Kópavogs að bæjarstjórinn viki sæti vegna þess máls. Og bæjarstjórinn var á förum að kröfu framsóknarmanna. Engu að síður lítur þingmaðurinn svo á að það hafi verið að kröfu Samfylkingarinnar sem bæjarstjórinn vék. Samfylkingin er ekki í meirihlutasamstarfi í bæjarstjórn Kópavogs og hefur því ekkert úrslitavald um það hvort bæjarstjórinn segir af sér eða ekki, slíkt er alfarið á forræði Framsóknarflokksins.

Jón Gunnarsson, tók sæti á Alþingi Íslendinga árið 2007 og hefur hefur stutt Sjálfstæðisflokkinn og forystusveit hans í gegnum súrt og sætt um árabil. Alþingismaðurinn Jón Gunnarsson hefur ekki minnst einu orði á siðferðisþrek sitt og félaga sinna, þeirra sem seldu íslensku bankana, sem lögðu af Þjóðhagsstofnun og stjórnuðu bæði forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti á þeim tímum sem kallaðir voru „mestu uppgangstímar Íslandssögunnar" - hvert er þeirra siðferðisþrek?

Er nema von að illa sé komið fyrir þjóðinni þegar siðferðisþrek sjálfstæðismanna er mælt í því hversu oft og mikið þeir fara á svig við lög.

Ingibjörg Hinriksdóttir
varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi

ps. meðfylgjandi grein birtist í Morgunblaðinu 22. júlí 2009.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Flott grein

Magnús Helgi Björgvinsson, 23.7.2009 kl. 10:37

2 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Mjög góð grein hjá þér Ingibjörg, og umhugsunarverð. 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 25.7.2009 kl. 01:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband