Leita í fréttum mbl.is

Dansinn í kringum gullkálfinn

Í Silfri Egils í dag var Hjálmar Sveinsson meðal viðmælenda en hann hefur á undanförnum misserum fjallað nokkuð um skipulag og skipulagsbreytingar á höfuðborgarsvæðinu. Hjálmar sagði að sennilega yrði dómur sögunnar miskunnarlaus yfir skipulagi því sem hér hefur ruðst yfir samfélagið á síðustu 5-7 árum.

Það vakti athygli mína að þátturinn ekki margra mínútna gamall þegar bæjarstjórinn hér í bæ  var kominn upp í samtali hans og Egils Helgasonar. Árið 2002 var samþykkt aðalskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið sem gilda átti til ársins 2024 en Hjálmar benti á að sveitarstjórar á svæðinu, m.a. bæjarstjórinn í Kópavogsbæ, hefðu ekki tekið neitt mark á þessu plaggi. Hann benti líka á að ef talað var um samráð milli sveitarfélaga um skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu þá fór bæjarstjórinn hér strax að tala um "sovétskipulag". Í mínum huga er það nokkuð merkilegt að bæjarstjórinn skuli nota orðið "sovétskipulag" því það er einmitt dæmigert fyrir þá uppbyggingu sem höfð hefur verið í hávegum hér í Kópavogi. Í dæmigerðu sovétskipulagi er þétting byggðar höfð í fyrirrúmi, þar má finna háar ósmekklegar byggingar þar sem nágrennið er undirlagt undir bílastæði og umferðin er alltaf eins mikil og götur ná að anna, jafnvel meiri. Dæmi um þetta má einmitt finna í þeim ríkjum sem byggð voru upp af kommúnistum uppúr síðari heimsstyrjöld.

Annað sem Hjálmar benti á var að skipulagið var alltaf unnið í þágu verktakanna. Það voru ekki hagsmunir íbúanna sem voru í forgrunni, heldur var skipulagi þröngvað í gegn á stuttum tíma með eins naumum meirihluta og unnt var. Hann nefndi einnig að sveitarstjórar hér á svæðinu litu svo á að skipulagsmál væri samkeppni um íbúa, þeir hundsuðu samráð og hver og einn hugsaði um sinn eigin rass án þess að líta til heildarinnar. Ég man eftir því þegar við, fulltrúar Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Kópavogs, bentum á að nær útilokað væri að manna allar þær íbúðir sem í byggingu væru á höfuðborgarsvæðinu og við vildum að Kópavogsbær færi að haga sér eins og hluti af heild í stað þess að vera eins og "Palli einn í heiminum". Svar bæjarstjórans var hnitmiðað: "Ef við byggjum ekki þá gera það einhverjir aðrir og við töpum íbúunum!"

Viti menn, nú þegar bankakreppan hefur skollið á okkur af fullum þunga eru mörg hundruð íbúða í Kópavogi auðar og það er ekkert sem bendir til þess að þær muni fyllast fyrr en eftir umtalsverðan tíma. Það sama má segja um heilu hverfin í Mosfellsbæ, Reykjavík, Garðabæ og Hafnarfirði, þar sem skipulagið hefur liðið fyrir það að sveitarstjórarnir hafa litið á það sem samkeppni um íbúa og á sama tíma hundsað alla samvinnu. Í raun er hægt að segja að viðhorf þeirra sé eins og bankastjóranna sem kepptust við að lána viðskiptavinum sínum eins mikið fé og hægt var á sem stystum tíma. Þeir kepptu líka um það hver gæti sýnt bestu afkomuna á hverjum tíma og virðist í dag sem engu hafi skipt hvort sannleikur var þar á borð borinn eða ekki.

Bankamenn, útrásarvíkingar og jafnvel bæjarstjórar hafa sagt að "allir" hafi tekið þátt í dansinum í kringum gullkálfinn og benda þá gjarnan á almenning máli sínu til stuðnings. Slíkar bendingar hafa engan tilgang annan en að draga athyglina frá þeim sem mesta eiga sök, þar er ekki við almenning að sakast. Almenningur sat aðeins danstíma í boði fjölmiðla hjá sveitarstjórnum, bankastjórnum og útrásarvíkingum. Það er löngu kominn tími til að menn líti í spegil og játi á sig að þeir hafi farið of geyst og látið glepjast. Menn verða menn að meiru eftir slíkar játningar!

Viðtalið við Hjálmar er allrar athygli vert og tengill á það er hér fyrir neðan.

Silfur Egils, viðtalið við Hjálmar Sveinsson:
http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4440920/2009/02/22/2/.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fínn pistill hjá þér og dregur ágætlega fram vitleysuna sem viðgengist hefur í skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu. Þessi vitleysa var auðvitað drifin áfram af sömu hugmyndafræðinni og bankaruglið - ofuráherslu á samkeppni og taumlausri peningahyggju.

Umræðan núna um að allir hafi tekið þátt er svo auðvitað keyrð af þeim sem eru að reyna að verja flóttann. Röksemdirnar halda svona álíka vel vatni eins og að halda því fram að dópistinn sé jafn sekur dópsalanum!

Reinhard Reynisson (IP-tala skráð) 22.2.2009 kl. 17:42

2 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Góð grein Ingibjörg.

Glaðheimaskipulagið með þéttustu byggð höfuðborgarsvæðisins er enn á leið í gegnum kerfið eins og ekkert hafi breyst og eins og lífið liggi á að byggja eftir því. - Svo er tengingin milli þess yfir Reykjanesbrautina hingað yfir á Nónhæðina hringtorgsbrú sem ekki er fær gangandi vegfarendum - Svo ef þetta gengur eftir er annarsvegar gríðlega þétt þjónusta og atvinnuhúsnæði og nokkrar íbúðir en hinsvegar hinum megin við Reykjanesbrautina íbúðabyggð margra þeirra sem þarna myndu starfa og sækja sér þjónustu en á milli er bara fært á bílum.

Helgi Jóhann Hauksson, 22.2.2009 kl. 20:49

3 identicon

Við í minnihlutanum í Kópavogi höfum gagnrýnt þessi vinnubrögð meirihlutans og þessa hröðu uppbyggingu. Það eina sem kannski er jákvætt við þessa kreppu er stöðnun hinna ógnvænlegu fyrirhuguðu framkvæmda í Lindum III, við Smáralind og á Glaðheimasvæðinu. Þegar kreppunni linnir verða vonandi komnir nýjir aðilar við stjórnvölinn í Kópavogi, þar sem manneskjulegri hugmyndafræði um bæjarskipulag verður í heiðri haft.

Margrét Júlía (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 00:29

4 Smámynd: drilli

góð grein, takk fyrir hana. Og ofangreint viðtal var enn betra. En hvað er meira að frétta af ''björgun'' verktakans sem sprakk á limminu við hesthúsakaupin og þætti Gunnars Birgissonar og meirihluta hans í því illþefjandi máli?

Grétar R

rindpoop.blog.is  

drilli, 23.2.2009 kl. 08:30

5 identicon

Í Hafnarfirðir ræður ríkjum samfylkingin þannig að ekki er þetta nú flokkahugsun sem ræður ríkjum.

En við skulum heldur ekki taka þátt almennings alfarið úr þessu því háar raddir vorum um að úthluta lóðum til bygginar á einbýlum. Í Hafnarfirði er nú heilt hverfi óbyggt með tilbúnum götum fyrir einbýli, rað og parhús þar sem umsóknir voru vel yfir framboð. Enda voru ansi margir sem töldu sig geta grætt á lóðarhappdrætti, líkt og ansi margir höfðu í raun gert árin á undan. 

Þetta er þó engu að síður rétt sem bent er á að skipulagsmál hafa fengið að fjúka út um gluggan á undanförnum árum, reyndar þegar ég hugsa um það þá man ég ekki neitt tímabil á íslandi þar sem skipulagi hefur verið fylgt. Þetta er bara fínt orð sem alltaf er hægt að kasta út um gluggan þegar fólki sínist sem svo.

Jón (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 09:02

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þetta var mjög merkilegt viðtal.

Jenný Anna Baldursdóttir, 23.2.2009 kl. 12:52

7 Smámynd: Bragi Sigurðsson

Það á að sameina öll þessi sveitafélög á höfuðborgarsvæðinu í eitt. Mönnum þykir ekker mál að sameina sveitarfélög úti á landi en gleima oft að horfa til höfuðborgarsvæðisins.

Bragi Sigurðsson, 23.2.2009 kl. 13:07

8 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Þetta fór allt úr böndunum, þegar bankarnir hófu að lána fólki til að eignast þak yfir höfuðið. Allir ærðust og markaðurinn varð stjórnlaus í kjölfarið.

Þetta verður kannske til að flýta fyrir sameiningu skipulags allt frá Tíðaskarði til

Voga ?

Með kveðju, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 23.2.2009 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband