Leita í fréttum mbl.is

Lifi Kópavogur!!!

kopavogur100x150

Þá er það ljóst, Kópavogur lagði Reykjavík að velli í fyrstu Útsvarskeppni Ríkissjónvarpsins. Mér fannst sigurinn bæði sanngjarn og skemmtilegur hjá mínum mönnum þó ég hafi verið pínulítið móðguð yfir því að engum skuli hafa dottið í hug að setja a.m.k. eina konu í liðið!! Strákarnir stóðu sig frábærlega og þó þeir hafi ekki vitað hvað Sæmundur á sparifötunum er í lokaspurningunni þá var ég hæstánægð með niðurstöðuna.

Besta atriði kvöldsins átti þó annar þáttastjórnandinn, Kópavogsbúinn Þóra Arnórsdóttir, þegar hún náði að þagga niður í landsmönnum með vel leiknum hríðarverkjum. Hún náði mér í algjöra þögn, salurinn dró vart andann og Sigmar var ekki alveg viss um hvað hann ætti að gera. Hann var þó ekki alveg jafn steinrunninn og Össur Skarphéðinsson var þegar Ingibjörg Pálmadóttir fékk hjartaáfall í sjónvarpsviðtali fyrir nokkrum árum.

Í síðustu færslu sagði ég frá því að um þessar mundir eru liðin 25 ár frá því ég útskrifaðist sem stúdent frá MK. Af því tilefni og því að Kópavogur vann Útsvar þykir mér við hæfi að flytja ykkur ljóð sem við krakkarnir sungum gjarnan í rútu í skólaferðalögum. Þeir sem þekkja til Kópavogs kannast við Kópavogslækinn í Kópavogsdal. Hann rennur ofan úr Breiðholti og fellur til sjávar í Kópavogi, rétt sunnan við Þinghól. Lækur þessi, sem í dag er tær og fínn var í þá daga sem ég var að alast upp í Kópavogi ekki alveg eins hreinn og lengi vel mátti sjá í honum miður skemmtilega hluti, s.s. salernispappír. Lækurinn var því í daglegu tali okkar krakkana nefndur „Skítalækur“. Engu að síður leituðum við oft þangað og veiddum hornsíli og óðum í honum. Lækurinn var þó og er ekki hættulaus því í miklum rigningum umbreytist hann í allnokkuð fljót og fyrir mörgum, mörgum árum síðan drukknaði í honum barn.

Þó lagið sé engin „Reykjavíkurtjörn“ þá þykir mér vænt um það, rétt eins og mér þykir vænt um bæinn minn. Lagið er sungið við bandaríska blökkumannasálminn „We shall overcome“ og þú mátt alveg reyna þig! Til hamingju Kópavogsbúar, þetta var góð afmælisgjöf en afmælisdagur bæjarins er á sunnudaginn, 11. maí.

Lifi Kópavogur, lifi Kópavogur
lifi Kópavooooooooooooogur.
Ó þú yndislegi bær, og skítalækur tær.
Lifi Kópavooooogur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Æi ég var nú fljót að fyrirgefa þeim, enda vissi ég ekki svarið, vissi að þetta var eitthvað matarkyns og óttaðist mjög þegar Reykvíkingar nefndu kjöt í karrý. Hins vegar vissi ég strax myndagátuna (hjólið) og skatturinn í einni vísbendingaspurningunni kom hjá mér þegar enn voru 4 stig í pottinum, þá varð ég alveg spinnegal í sófanum, hentist um og tuðaði: „Þetta er skattur, þetta er skattur!“

Ingibjörg Hinriksdóttir, 10.5.2008 kl. 00:14

2 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Til hamingju með ykkar menn Kópavogsbúar! Þeir stóðu sig mjööög vel! - Og svo var einnig með Reykjavíkurliðið, þau stóðu sig frábærlega líka. Og Gísli Marteinn hélt uppi húmornum, hann var alveg rosalega fyndinn.  -  Spyrlarnir voru nú líka góðir.  - En það var Þóra sem toppaði allt, þegar hún lék rembingshríðina, hún náði þeirri mögnuðustu þögn sem ég hef heyrt í sjónvarpi.  Það var alveg dásamleg upplifun. Og hrikalega fyndið. 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 10.5.2008 kl. 01:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband