Leita í fréttum mbl.is

Öll að koma til - og óvænt heimsókn

Mikið óskaplega finnst mér leiðinlegt að vera veik. Hvað er varið í það að hanga heima hjá sér allan daginn, emjandi úr beinverkjum, vorkennandi sjálfum sér og hundleiðast? Ekkert, það er nákvæmlega ekkert spennandi. Ég skil ekki í fólki sem „notar“ sína tvo veikindadaga í mánuði. Því miður þekki ég of mikið af slíku fólki og verð að viðurkenna að ég hef ekki mikið álit á framferðinu.

Sem betur fer er ég þó að uppskera eftir að hafa haldið mig innandyra í tvo sólarhringa. Hitinn er horfinn og hálsbólgan minnkar hægt og rólega. Allt að gerast og kannski mæti ég bara í vinnuna á morgun. Hef reyndar fengið hótanir þaðan að ef ég læt sjá mig þá verði mér varpað á dyr. Við sjáum til með það. Hef reyndar náð að vinna fullt héðan af heiman, kom meira að segja öllum frá vinnu í dag með því að endurræsa netþjóninn héðan að heiman, já mikill er mátturinn gott fólk! Cool

Það birtist óvæntur gestur hjá mér í dag. Fyrir nokkru pantaði ég mér disk þar sem haldið var uppá afmæli Harðar Torfasonar. Nokkrir vinir hans í tónlistargeiranum boðuðu til tónleika, sungu lögin hans honum til heiðurs og gáfu út á geisladiski. Fyrir tilviljun villtist ég inná vefsíðu Harðar Torfa og sá að ég gat pantað þennan disk af vefsíðunni. Ég gerði það og spáði svo ekki meira í málið. Nema hvað, haldið þið að Hörður Torfason hafi ekki bara hringt í mig og boðað komu sína með diskinn. Ég varaði hann við að ég væri veik heima og því kannski ekki í standi til að taka á móti háttvirtum trúbadorum en hann blés á það og mætti galvaskur og töffaralegur heim til mín í dag. Ég var náttúrulega eins og einhver trúður þegar ég opnaði dyrnar, í köflóttum náttbuxum með klauf og þykkri peysu með rúllukraga. Ég veit ekki hvað blessaður trúbadorinn hefur hugsað þegar hann sá mig. En hann kom færandi hendi með diskinn og ég var fljót að setja hann í spilarann. Flottur diskur þar sem hin mestu ólíkindatól flytja lögin hans Harðar. Mér finnst lagið Stjörnuhrap sem Fabúla syngur vera besta lagið á diskinum en ég verð þó að viðurkenna að ég er alltaf dálítið svag fyrir Litlum fugli, Guðjóni og Ég leitaði blárra blóma. Allt frábær lög í dálítið óhefðbundnum flutningi.

Kannski var það bara Hörður Torfa sem kom mér á lappir og uppúr veikindunum. Hver veit, ég er a.m.k. mikið hressari en síðustu tvo daga og nýt þess að hlusta á Heiðurstónleika Harðar Torfasonar. Hafi hann þökk fyrir sendinguna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Þetta er frábær saga, og alveg í stíl Harðar Torfa að kippa sér ekki upp við smá veikindi,  hann hefur vitað að þú  þyrftir á upplyftingu að halda.  Hann er og hefur alltaf verið mikill gleðigjafi hann Hörður. Ég þarf að ná mér í þessa plötu.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 6.3.2008 kl. 00:37

2 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sæl Lilja, já Hörður á klárlega hlut að máli en líka hvatningin frá þér. Eitt sinn þegar ég bjó úti á landi tók ég þátt í uppsetningu á leikriti Olgu Guðrúnar „Amma þó!“ í leikstjórn Harðar Torfa. Hann þekkti mig ekki í dag í náttbuxunum og kemur það svo sem ekki á óvart enda sló leikur minn í hlutverki ömmu síður en svo í gegn. Olga Guðrún mætti á frumsýningu og sagði mér að hún hefði aldrei fyrir séð jafn lélega ömmu í nokkurri uppfærslu!  Ég held samt að hún hafi ekki vitað að hún var að tala við aðalleikkonuna þegar hún sagði þetta og ég var svo sem ekki að láta hana vita af því heldur.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 6.3.2008 kl. 00:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband