Leita í fréttum mbl.is

Hvernig er hægt að fá þessa niðurstöðu?

Hvernig getur stjórnmálafræðingurinn Stefanía Óskarsdóttir komist að þessari niðurstöðu? Jú kannski vegna þess að hún er ekki aðeins stjórnmálafræðingur heldur einnig fyrrverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður einhvers kvennaklúbbs innan flokksins! Þá er nú aldeilis þægilegt að segja að þessi fáránlega niðurstaða Alþingis sé þægileg fyrir Samfylkinguna.

Raunin er hins vegar allt önnur. Niðurstaðan er hræðileg fyrir Samfylkinguna. Flokkurinn jaðraði við klofning fyrir atkvæðagreiðsluna og ef ekki gerist eitthvað mjög öflugt á næstu dögum og vikum tel ég næsta víst að fjöldaúrsagnir verði úr flokknum og klofningurinn verði raunverulegur og áþreifanlegur.

Ég hef margítrekað þá skoðun mína að Samfylkingin sé flokkur að mínu skapi ekki aðeins vegna þeirrar stefnu sem flokkurinn fylgir heldur einnig vegna þess að þar leyfist manni að hafa sjálfstæða skoðun. Það kom heldur betur á daginn á Alþingi í dag, mörgum flokksfélögum til mismikillar gleði. Sjálf er ég afar ósátt við nokkra þingmenn Samfylkingarinnar, þ.e. þá sem ekki sýndu neina sannfæringu í skoðunum sínum og sveifluðust til í atkvæðagreiðslu sinni eftir því hvaða fv. ráðherra átti í hlut.

Stefanía Óskarsdóttir skal hins vegar ekki gleyma því að fyrrum formaður hennar og átrúnaðargoð, Davíð Oddsson situr nú skælbrosandi í Hádegismóum og það sama gera flokksfélagar hennar fyrrum bankastjórar Kaupþings, Glitnis og Landsbanka. Ætli niðurstaðan sé ekki bara þægileg fyrir Sjálfstæðisflokkinn að öll athyglin beinist að Geir H. Haarde? Kastljósið er þá ekki á þessum flokksfélögum á meðan!


mbl.is Þægileg lausn fyrir Samfylkinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan af gengistryggða bílaláninu mínu

Ótrúlega mikið hefur verið fjallað um gengistryggð bílalán á síðustu dögum og vikum, já jafnvel mánuðum. Það hefur sannarlega ekki farið framhjá mér hvað bílalánin hafa hækkað mikið en ég hef, sem betur fer, getað staðið í skilum með mitt lán og ekki hreyft neitt við því (ekki fryst það).

Eftir dóm hæstaréttar um bílalánin og ekki síður eftir tilmæli Seðlabanka Íslands (SBI) hefur umræðan um lánin komist á það stig að mér hefur ofboðið og viðurkenni að ég hef oft æst mig við þá sem rætt hafa málið við mig.

Ástæða æsingsins er að ég tel fyrst og fremst sú að ég er jafnaðarmaður, ég er sanngjörn og ég er skynsöm. Í mínum huga kom það aldrei til greina að ég myndi fá til baka allt það sem ég hef ofgreitt til lángjafans eftir dóm hæstaréttar, ég gerði alltaf ráð fyrir því að eitthvert æðra dómstig (eins og hæstirættur) myndi úrskurða hvað verði um lánið. Auðvitað var ég fegin að fá upplýsingar um að ég þyrfti sannarlega ekki að greiða 6 milljónir fyrir tæplega 2ja milljóna króna lán á sjö árum. En ég gerði ekki ráð fyrir því að ég myndi fá lánið á 3% vöxtum óverðtryggt, slíkt var algjörlega óhugsandi í mínum huga!

Til að sjá með eigin augum hvað mun gerast með lánið mitt miðað við þá möguleika sem nú eru uppi þá fór ég í dag til fyrirtækis sem heitir Sparnaður og þau reiknuðu út hvernig lánið mun breytast, tölur rúnnaðar í þúsund.

Lánið eins og lánafyrirtæki hefur innheimt
Höfuðstóll: 1.878.000 - lán tekið 13. júlí 2007.
Meðalgreiðslur á mánuði skv. greiðsluáætlun við lántöku: 26.000
Meðalgreiðslur á mánuði sl. 3 ár: 64.000
Heildargreiðslur sl. 3 ár: 1.757.000
Eftirstöðvar láns skv. lánayfirliti 1. júlí 2010: 3.167.000

Miðað við dóm hæstaréttar og 3,1% meðalvexti ætti lánið að standa þannig:
Meðalgreiðslur á mánuði hefðu átt að vera: 25.000
Eftirstöðvar láns miðað við það sem greitt hefur verið: 167.000
Ofgreitt til lánafyrirtækis með vöxtum: 1.014.000
Eftirstöðvar ættu að vera: 1.182.000

Miðað við tilmæli SBI með verðtryggingu og vöxtum:
Meðalgreiðslur á mánuði hefðu átt að vera: 40.000
Eftirstöðvar láns miðað við það sem greitt hefur verið: 799.000
Ofgreitt til lánafyrirtækis með vöxtum: 640.000
Eftirstöðvar ættu að vera: 1.439.000

Miðað við tilmæli SBI án verðtryggingar en með vöxtum:
Meðalgreiðslur á mánuði hefðu átt að vera: 35.000
Eftirstöðvar láns miðað við það sem greitt hefur verið: 644.000
Ofgreitt til lánafyrirtækis með vöxtum: 430.000
Eftirstöðvar láns ættu að vera: 1.073.000

Ég hef sagt það áður og segi það enn að ég á ekki von á því að lánið verði gert upp með þeim hætti sem um getur í fyrsta dæminu, þ.e. dómur hæstaréttar óbreyttur. Upplýsingarnar sem ég fékk í dag gefa mér hins vegar skýrt til kynna að ég mun fá verulega leiðréttingu minna mála og ég mun leggja traust mitt á dómstólana, hæstarétt, til að kveða úr um það og þeim dómi mun ég hlíta. Ég ráðlegg öðrum að spara stóru orðin, anda með nefinu og gera slíkt hið sama.

mbl.is Í sjálfsvald sett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt skal vera rétt

Eftirfarandi erindi barst mér í dag.

Ingibjörg HinriksdóttirSæl og blessuð.

Af rælni sá ég að mín var getið á bloggi þínu á mbl.isRétt er sem þar kemur fram að ég hafi ekki skilað inn upplýsingum tilríkisendurskoðunaar um kostnað í prófkjörum vegna viðleitni minnar til aðláta gott af mér leiða í samfélaginu.

Hitt kemur ekki fram að strax að loknu prófkjöri birti ég á heimasíðuminni allar upplýsingar varðandi prófkjörskostnað minn - þar með talinnútreiknaðan kostnað á hvert fengið atkvæði. Skemmst er frá því að segja aðég greiddi allan kostnað úr eigin vasa - líklega innan við ein mánaðarlaun láglaunamanns.

Allar upplýsingar lágu því fyrir opinberlega strax að loknuprófkjöri og engin ástæða til að bregðast við á öðrum vettvangi löngusíðar.

Nú hef ég afmáð þessar upplýsingar af heimasíðu minni og hef enginafskipti haft af "pólitík" eftir að mér varð ljóst að hugsjónir mínar áttu ekki upp á pallborðið á þeim vettvangi sem ég vildi hasla mér völl á.

Mér ætti vænt um að þú kæmir málavöxtum á framfæri á "þínum / samavettvangi".

Góð kveðja,Steinn Kárason

ps. innan skamms kemur ú hljómplatan mín "steinn úr djúpinu"í laginu Paradís sem þar er að finna er óður til Íslands sem endurspeglarað hluta hugsjónir mínar og elsku til landsins míns Íslands

kv. sk


Trúin á meirihlutaflokkum síðustu 20 ára farin

Fylgishrun Framsóknarflokksins í Kópavogi var gríðarlegt í sveitarstjórnarkosningunum sl. laugardag. Það sama má segja um Sjálfstæðisflokkinn sem tapar ríflega þriðjungi þeirra atkvæða sem flokkurinn fékk árið 2006.

Raunar er það þannig að allir þeir flokkar sem eiga fulltrúa í bæjarstjórn Kópavogs tapa fylgi frá því fyrir fjórum árum en aðeins tveir flokkar tapa manni, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking.

Það er athyglisvert að skoða töfluna sem sýnir atkvæðafjölda á bak við flokkana fjóra árið 2006 annars vegar og árið 2010 hins vegar. Þar sést að nærri helmingur þeirra sem kusu Framsóknarflokkinn árið 2006 yfirgefa hann í kosningunum 2010. 

 

B

D

S

V

2006

1789

6610

4646

1546

2010

991

4142

3853

1341

 

798

2468

793

205

 

44,61%

37,34%

17,07%

13,26%

Í fréttum undanfarna daga hafa komið fram fullyrðingar um að Samfylkingin hafi tapað jafnmiklu fylgi og Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur til samans. Það má örugglega sjá það hafi menn til þess einbeittan vilja og horfi einungis á fulltrúafjöldann. En atkvæðatölurnar ljúga ekki, þar er fylgishrun Framsóknarflokksins í Kópavogi gríðarlegt, alveg gríðarlegt!

Ég ætla ekki að koma með söguskýringu á fylgishruni Framsóknar hér, mín vegna hefði hrunið mátt verða enn meira og algjört. En hitt er að fylgishrunið frá árinu 2002, þegar hinn farsæli leiðtogi Framsóknarmanna Sigurður heitinn Geirdal, var og hét er allt að því ótrúlegt. Í kosningunum 2002 kusu 3.776 Kópavogsbúar Framsóknarflokkinn, fylgishrunið miðað við kosningarnar 29. maí sl. telur 2.785 atkvæði eða nærri 74%. 

Tafla sem sýnir atkvæðamagnið segir meira en mörg orð. Svona lítur hún út milli flokkanna fjögurra árin 2002, 2006 og 2010.

 

B

D

S

V

2002

3.776

5.097

3.821

831

2006

1.789

6.610

4.646

1.546

2010

991

4.142

3.853

1.341

Mism 02

-2.785

-955

32

510

Hlutf 02

-73,76%

-18,74%

0,84%

61,37%

Á þessari töflu má sjá að Vinstri hreyfingin grænt framboð hefur unnið mikið á í Kópavogi á síðustu átta árum. Samfylkingin heldur sínu fylgi að mestu en flokkarnir tveir sem stýrt hafa bænum tapa nærri því fjögur þúsund atkvæðum sín á milli.  

Af þessu má draga þann ályktun að rökrétt sé að þeir flokkar sem nú eiga fulltrúa í bæjarstjórn Kópavogs reyni að ná saman um stefnumál og verkefni. Kópavogsbúar eru búnir að missa trúna á 20 ára meirihlutanum og þó fyrr hefði verið!

 


Lítilsvirðing við frumbyggja Kópavogs

Síðasti (vonandi) kosningapési Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar var borinn út í morgun. Þar er að finna misgóðar eða misvondar greinar eftir frambjóðendur, ýmis nýyrði sett í fyrirsagnir á greinum og sitt lítið af hvoru. Merkilegt nokk þá er lítið um hnippingar til Samfylkingarinnar að finna í blaðinu og svo virðist sem sjálfstæðisfólk hafi ákveðið að leyfa Samfylkingunni að eiga sig að þessu sinni. Það er gott.

Mig langar svo sem ekki að fjalla mikið um þetta blað, en get ekki látið hjá líðast að minnast á eina litla grein sem Bragi Michaelson skrifar undir fyrirsögninni "Áður var það skömm en nú er gott að búa í Kópavogi". Með fyrirsögninni er Bragi sjálfsagt að reyna að slá um sig með slagorði sem fyrrverandi bæjarstjóri sló sjálfan sig til riddara með og það er bara í fínu lagi. Það er innihald greinarinnar sem er bæði særandi og móðgandi fyrir þá fjölmörgu sem telja sig til frumbyggja Kópavogs.

Í greinarstúfnum segir Bragi frá reynslu sinni þegar hann flytur í Kópavog árið 1969 og segir að einhver hafi spurt hann hvort hann væri brjálaður að flytja í þennan skelfilega bæ. Þar væru götur ekki malbikaðar, hitaveita ekki komin og leigubílar forðuðust að keyra á ákveðnum tímum í bæinn af ótta við að festa bílana. Ansi fróðlegir molar hjá Braga sem þó var betur lýst hjá skáldinu Böðvari Guðlaugssyni í Kópavogsbragi.

Í grein Braga liggur það milli orðanna að það hafi ekki þótt merkilegur pappír að flytja í Kópavog á 6. og 7. áratug síðasta aldar. Fyrirsögnin segir það beinum orðum, það var skömm! Þessi grein er Braga Michaelsyni til skammar. Kópavogur er byggður upp, bæði þá og nú, af fjöldanum öllum af harðduglegu fólki sem var og er tilbúið að leggja mikið á sig til að koma sér þaki yfir höfuðið. Á þessum tíma sem Braga er tíðrætt um var hægt að fá hér lóðir fyrir lítið og hingað flutti fólk sem ekki naut náðar í bönkunum og hafði ekkert milli handanna nema sinn eigin dugnað, kraft og vilja. Í dag er þessu öfugt farið, lóðir eru svo dýrar að þær eru ekki á allra færi og vilji, dugnaður og kraftur duga skammt fyrir ungt fólk sem vill koma sér þaki yfir höfuðið. Það fólk flytur í Hafnarfjörð eða í önnur sveitarfélög þar sem fordómar gagnvart eignastöðu eru fjarverandi og fólk er velkomið.

Það er vonandi að fáir hugsi eins og Bragi Michaelsson, ég er í það minnsta stolt af íbúum Kópavogs bæði gömlum og nýjum. Sérstaklega er ég stolt af fólki eins og foreldrum mínum sem byggðu sér stórt og mikið hús á Álfhólsvegi árið 1963 og fluttu þangað með allan barnahópinn sinn. Vissulega voru göturnar ekki malbikaðar, hitaveitan ekki komin og stundum mátti maður vaða drulluna uppí klof. En hér var gott að búa - já jafnvel betra en það er í dag.

Kópavogsbragur

Lít ég hér löngum
lögregluna fína.
Með öllum öngum
umferðinni stýra.
Hún er helst á róli
við Hafnarfjarðarveginn
vitlausu megin!

Út í flest er hún
ótrauð mjög að ganga.
Fílefldust fer hún
á föstudaginn langa.
Ég er satt að segja
svei mér ekki frá því
að hún sé á því.

Ég blessa eins og sjúkur
bæjarstjórn og Drottinn.
Mikið er mjúkur
malbikaði spottinn.
Enda gerist ekki
annarsstaðar betri
kvartkílómetri.

Forystuflokkar
flest er haf'í gjörðu.
Sundhöllin okkar
svo komst uppúr jörðu.
Ósköp var þá ýmsum
orðið mál að baða
búkinn blessaða.

Texti: Böðvar Guðlaugsson


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband