Leita í fréttum mbl.is

Hvorki fyrr né síðar...

Fyrir 20 árum þegar Kringlan opnaði var ég að vinna sem flokksstjóri í Vinnuskóla Kópavogs og ákvað að skoða þetta ferlíki á fyrsta degi. Þar sem ég var komin langleiðina norður Kringlumýrarbrautina þá fór ég að hugsa að klæðaburður minn, sem voru í stíl við atvinnuna; stígvél, lopapeysa og gallabuxur, væru ekki tækur klæðnaður í svona glæsiverslunarmiðstöð eins og Kringlan er. Ég sneri því heim aftur, skipti um föt og mætti svo í Kringluna ásamt tugþúsundum annarra Íslendinga.

Eftir á að hyggja þá skammast ég mín næstum fyrir að hafa gert þetta því hvorki fyrr né síðar hef ég látið það hafa áhrif á mig hvaða föt prýða mig þegar ég fer í búðir.

Ég óska Kringlunni til hamingju með afmælið!


mbl.is 98 milljónir gesta á tuttugu árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert hlustað á íbúana

Í gær var haldinn aukafundur í bæjarstjórn Kópavogs þar sem eina mál fundarins var tillaga að deiliskipulagi fyrir einn reit af 10 á vestanverðu Kársnesi. Undanfarna mánuði hafa íbúasamtök í Vesturbæ mótmælt fyrirhuguðu skipulagi kröftuglega og ítrekað farið með umkvartanir sínar í fjölmiðla. Auk þess hafa íbúar á svæðinu borið fram mótmæli vegna skipulagsins á formlegan hátt í gegnum skipulagssvið bæjarins.

Það skal tekið fram strax að persónulega hef ég nákvæmlega ekkert á móti endurskipulagningu svæðisins og uppbyggingar þess. Ég fagna því að hugmyndir um slíkt séu komnar fram enda eru margar þeirra bygginga sem nú eru á svæðinu barn síns tíma en eru nú lýti á svæðinu og það er eðilegt að menn hugi að því að nýta þá miklu landkosti sem þarna eru.

En offorsið í gjörðum meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur farið langt úr hófi fram. Upphaflegar hugmyndir voru slíkar að á kynningarfundi sem haldinn var í Salnum féllust mönnum hendur. Enda var það svo að þó svo að enginn fulltrúi meirihlutans hafi tjáð sig á þeim fundi þá fullyrtu þeir þegar í óformlegum samtölum í fundarhléi að þær skipulagsbreytingar sem þar voru kynntar yrðu aldrei að veruleika.

Nú slá þessir sömu menn sér á brjóst og segja að verulega hafi verið dregið úr byggingarmagni á svæðinu þegar í raun hefur lítið sem ekkert verið hlustað á mótmæli íbúana sem vilja miklu minni og lágreistari byggð og er það með ólíkindum að meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks skuli hafa geð í sér til að hundsa svo kröftug mótmæli. Þeirra skoðun er að keyra málið í gegn með góðu eða illu og er ekki laust við að sá grunur læðist að manni að hagsmunir annarra en íbúa á svæðinu séu hafðir að leiðarljósi í málinu.

Mótmæli íbúanna hafa að mestu leytið snúið að fjórum þáttum þar sem þess er krafist að:

  • svæðið verði skipulagt sem heild
  • sannfærandi lausn af umferðarmálum fyrir allan Vesturbæinn liggi fyrir
  • stórskipahöfn verði lögð af
  • samráð og samvinna verði höfð við íbúana við skipulag svæðisins

Kröfur íbúanna eru bæði eðlilegar og réttmætar. Þarna eru engar ofurkröfur á ferðinni og krafan um samráð er einfaldlega krafa um nútímalega stjórnsýsluhætti sem byggja að miklu leyti á samráði og samstarfi við íbúa. Þá getur það ekki verið skipulagsyfirvöldum í Kópavogi ofviða að sýna íbúum hvernig þeir hyggjast skipuleggja svæðið í heildina.

Hvað varðar kröfurnar um að sýna fram á að sú fjölgun sem fyrirhuguð er verði ekki umferðinni í Vesturbænum ofviða og að leggja beri hugmyndir um stórskipahöfn af eru mjög samofnar. Aðkoma að því svæði sem hér um ræðir frá Reykjavík er að mestu í gegnum eina götu, Kársnesbraut. Þeir íbúar sem munu búa í nýju hverfunum, ekki aðeins vestast á nesinu heldur einnig á uppfyllingu norðanvert á sama nesi munu nota Kársnesbrautina til að komast til og frá vinnu. Flutningar um stórskipahöfn munu einnig fara fram í gegnum Kársnesbraut, sem og öll sú umferð sem þegar fylgir núverandi og komandi starfsemi á svæðinu.

Bæjarstjórinn, Gunnar I. Birgisson, hélt því fram í bæjarstjórn í gær að umferð sem tengdist stórskipahöfn myndi fara fram á þeim tíma þar sem flestir íbúar yrðu í vinnu. Það má svo sem vel vera, en flutningarnir munu fara fram á þeim tíma sem börn þessara sömu íbúa eru í skóla og eru einmitt á ferli um og við Kársnesbraut til þess m.a. að komast að nýjum heimilum sínum vestast og norðan á nesinu. Skólar í Vesturbænum eru miðsvæðis á nesinu og þangað munu börnin fara til að sækja sitt nám.

Fleiri færslur um sama mál á vefsíðunni www.ingibjorg.net:


mbl.is Samþykkt að fjölga íbúðum á Kársnesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið af berjum

 

Já það er sannarlega mikið af berjum á Vestfjörðum. Var þar í síðustu viku og tíndi ber bæði á Ströndum og á Barðaströndinni. Krækiberin voru frábær á Ströndunum, stór, safarík og góð en á Barðaströnd báru aðalbláberin af en nóg var af þeim og voru þau orðin vel stór þó sum þeirra mættu alveg bæta á sig einni til tveimur vikum til viðbótar.

Hér fyrir neðan má sjá myndir af krækiberjalyngi og bláberjalyngi á Ströndum, nánar tiltekið í landi Asparvíkur.

krækiberjalyng
Krækiberjalyng
Blaberjalyng
Bláberjalyng

ps. ég tók myndina sem birtist á vef mbl.is, en þar er ég rangfeðruð og sögð Haraldsdóttir, sem er ekki rétt enda hef ég verið talin Hinriksdóttir til þessa dags.


mbl.is Berjaspretta góð á Vestfjörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vestfirðir í allri sinni dýrð

Strax að U19 ára mótinu loknu fór ég ásamt tveimur systrum mínum, Bryndísi og Sigrúnu, í ferðalag um Vestfirði. Hófum við leik strax síðdegis á mánudag er við ókum norður á Hólmavík þar sem við gistum á bænum Kirkjubóli í Steingrímsfirði, þar sem gistingin kostar 2.300 krónur nóttin. Á þriðjudeginum skoðuðum við okkur vel um á Ströndunum, fórum meðal annars í heimsókn að Asparvík (en þar er Jón Bjarnason þingmaður VG fæddur) og ókum sem leið lág norður á Gjögur og allt norður í Krossneslaug við Trékyllisvík.

Eftir að hafa spókað okkur um Strandir ókum við sem leið liggur til Ísafjarðar þar sem við gistum á Gistiheimili Áslaugar, þar sem gistingin kostar 1.800 krónur nóttin. Á leiðinni þangað hringdi ég í bæjarstjórann á Ísafirði, Halldór Halldórsson, enda hafði ég fyrir löngu sagt honum frá fyrirætlun minni að aka um Vestfirðina á þessum tíma og hann tekið af mér loforð um að hringja í sig. Tilviljunin olli því að þegar við komumst loks í símasamband eftir að hafa ekið um Djúpveg, nr. 61, yfir Steingrímsfjarðarheiði. Vegurinn þessa leið var þokkalegur en þar eru að finna vefmyndavélar sem sýna ágætlega ástand vegarins.

Morguninn eftir skoðuðum við okkur um á Ísafirði en héldum síðan sem leið lá til Bíldudals þar sem við gistum næstu nótt í mjög fínu svefnpokaplássi sem kostaði okkur 2.000 krónur nóttin. Á leið okkar til Bíldudals skoðuðum við m.a. Súðavík, Flateyri, Suðureyri, Bolungarvík, Hnífsdal og fleiri staði. Auk þess stoppuðum við lengi við Dynjanda, sem er mestur fossa á Vestfjörðum. Sannarlega tilkomumikill foss og glæsilegur. Vegurinn frá Ísafirði til Bíldudals er nr. 63. Sannast sagna var hann sá versti á leið okkar (ef undan eru skildir allra nyrstu vegirnir á Ströndum). Makalaust að ekki skuli vera betri samgöngur frá Bíldudals til Ísafjarðar og má eiginlega telja að með því sé verið að reka Barðstrendinga til þess að leita frekar í suðurátt en norður til að fá þjónustu.

Það hitti svo á að þegar við vöknuðum að morgni dags í Bíldudal þá var Sigrún, systir okkar Binnu, orðin árinu eldri og farin að fylla seinni hluta fimmtugsaldurins. Það sá þó ekki stóran mun á henni en þó vorum við ekki frá því að hún hefði vitkast örlítið um nóttina. Það var því verkefni okkar Bryndísar að sjá til þess að dagurinn rynni Sigrúnu ekki úr minni og verður ekki annað sagt en að okkur hafi tekist frábærlega til. Við fórum á sjóstöng frá Bíldudal. Hann Jón, sem virðist vera hinn mesti kraftaverkamaður á staðnum, útvegaði okkur bát, mann, stangir og olíu svo okkur var ekkert að vanbúnaði að róa til fiskjar. Veiðin var mögnuð, við fönguðum um 100 kg. af vænum þorski og fluttum með okkur í land (ég verð að segja frá því að ég hef sennilega halað inn um 70 kg. af þessum 100!).

Nú voru góð ráð dýr, hvað átti að gera við aflann? Ekki treystum við okkur til að taka aflann með okkur suður, enda hefði hann bæði orðið illa lyktandi og skemmdur eftir nokkura daga volk í nýja bílnum mínum. Þær systur mínar vildu þó endilega gera að aflanum, flaka og pakka og varð það úr að þær rifjuðu upp gamla takta úr Barðanum og Búr og flökuðu öll ósköpin. Þessu var síðan pakkað í poka, sett í skottið og ekið sem leið lá til Patreksfjarðar (um Tálknafjörð þar sem við syntum dálítið). Þegar við komum á Patreksfjörð hringdum við í Lögguna á staðnum sem kom og gerði aflann upptækan enda utan kvóta og algjörlega ólöglegt fyrir okkur að ætla að koma þessu í verð. Reyndar var lögregluþjónninn gamall kunningi minn héðan úr Kópavogi, Ingþór vinur Hinna frænda míns.

Frá Patreksfirði ókum við yfir í Kvígindisdal þar sem við áttum frábæra daga í faðmi fjölskyldu og vina. En það er annar pistill sem liggur þar að baki.

Ég færi systrum mínum bestu þakkir fyrir ferðalagið og er þegar farin að leggja drög að næstu reisu okkar systra um landið okkar fagra, Ísland.


Hóteldvöl í höfuðborginni

U19 ára stúlknalandsliðið fór inná hótel í dag.  Flestar stelpurnar eru héðan af höfuðborgarsvæðinu og eiga ekki nema um 10-15 mínútna akstur heim til sín úr Vatnsmýrinni. Það á reyndar líka við um þá fylgdarsveina sem eru með liðinu, sjálfa mig þar með talda.

Það er óneitanlega dálítið undarlegt að þvælast um í rútubíl frá hóteli á æfingu og að liggja andvaka á hótelherbergi þegar rúmið manns er aðeins í 10 mínútna fjarlægð. En svona er þetta og það er spenningur í hópnum fyrir komandi móti. Úrslitakeppni Evrópumóts stúlknalandsliða yngri en 19 ára.

Í dag hef ég hitt marga gamla kunningja úr boltanum, s.s. fararstjórnir danska, norska og enska liðsins, auk nokkurra kunnuglegra andlita frá Frakklandi og Þýskalandi. Það er alltaf gaman að hitta þetta fólk sem hefur brennandi áhuga á knattspyrnu og vill leggja ótrúlegustu hluti á sig til að efla kvennaknattspyrnuna í sínu heimalandi. Í gegnum tíðina hef ég lært mikið af þessu fólki og vona sannarlega að mér hafi tekist að smita einhverju til þeirra héðan ofan af Íslandi.

Fyrsti leikur íslenska liðsins er á miðvikudag, en þá tökum við á móti Norðmönnum í opnunarleik mótsins á Laugardalsvelli kl. 19:15.  Enn og aftur hvet ég alla þá sem vettlingi geta valdið til að mæta á völlinn, það er ókeypis inná alla leiki í boði Orkuveitu Reykjavíkur!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband