Leita í fréttum mbl.is

Ríkasta fólk í heimi

Ert þú meðal ríkasta fólks í heimi?

Smelltu á tengilinn til að komast að því.


Fór þetta nokkuð framhjá þér?

„Íbúar hræðast aukna umferð“ þetta er fyrirsögn á sjónvarpsfrétt á www.mbl.is í dag, eða á maður kannski frekar að kalla þetta vídeófrétt? Hvaða umferð óttast íbúar svona mikið og hvaða íbúar eru þetta? Það kemur landsmönnum sjálfsagt ekki á óvart að þarna eru íbúar í Kópavogi á ferð, og enn og aftur er það verðandi, væntanleg umferð sem hræðir þá.

Meirihluti bæjarstjórnar Kópavogs hefur á þessu kjörtímabili slegið Íslandsmet í því að hræða íbúa sína. Þrjú íbúasamtök hafa verið stofnuð, öll til höfuðs meirihluta bæjarstjórnar sem hefur sem aldrei fyrr farið mikinn í því sem þeir kalla þéttingu byggðar en sumir aðrir gætu kannski kallað lofttæmingu byggðar. Íbúar óttast ekki bara umferðina þeir beinlínis óttast að geta ekki andað, a.m.k. ekki heilnæmu lofti að sér vegna aukinnar umferðar á þéttingarsvæðunum.

Á kjörtímabilinu hafa íbúar á Kársnesi stofnað samtök þar sem þau mótmæla tvöföldun íbúafjölda og umferðar á Kársnesi. Íbúar á Nónhæð hafa stofnað samtök sem mótmæla aukningu byggðar og umferðar við Nónhæð og nú hafa íbúar í Lindahverfi stofnað samtök þar sem þeir mótmæla aukningu verslunar- og þjónustuhúsnæðis ásamt gríðarlegri aukningu umferðar í hverfinu. Svo skulum við átta okkur á að kjörtímabilið er rétt hálfnað!

Til að þetta fari nú örugglega ekki framhjá þér þá bendi ég á þessa vídeófrétt frá mbl.is og upplýsi að Guðríður Arnardóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi er íbúi í Lindahverfi. http://www.mbl.is/mm/frettir/sjonvarp/19714/


14. sætið

Ætli einhvern hinna 4.056 kjósenda sem kusu Framsóknarflokkinn í Reykjavík í síðustu sveitarstjórnarkosningum hafi órað fyrir því að maðurinn í 14. sæti myndi setjast í borgarráð á kjörtímabilinu? Ég leyfi mér að efast um það.

Annars væri skemmtilegt að spyrja vin minn Guðmund Hreiðarsson, markmannsþjálfara og markaðsstjóra, að því hvort hann eigi nokkuð von á því að taka sæti í bæjarráði Kópavogs á kjörtímabilinu! Guðmundur var í 14. sæti á lista Framsóknarflokksins í Kópavogi við sveitarstjórnarkosningarnar 2006.

  • Einnig mætti spyrja Jóhannes Bjarnason sem skipaði 14. sætið á lista Framsóknar í Sandgerði,
  • Kjartan Kjartansson í 14. sæti á lista Framsóknarflokks á Akranesi,
  • Sigríði Magnúsdóttur 14. mann á lista Framsóknar á Ísafirði eða
  • Örlyg Þór Helgason 14. mann á lista Framsóknar á Akureyri

Ekki held ég að þessu fólki hafi nokkru sinni órað fyrir því að það taki sæti í bæjarráði sinna sveitarfélaga, enda á Framsóknarflokkurinn aðeins einn mann í bæjarstjórn á hverjum þessara staða. Nú sem aldrei fyrr hefur Framsóknarflokkinn sett niður í þrotlausri eftirsókn eftir völdum.


Nú hverfur sól í haf

Herra Sigurbjörn Einarsson biskup er látinn. Það kemur kannski einhverjum á óvart að ég skuli setjast niður við tölvuna og rita hugleiðingar um mann sem ég átti engin persónuleg samskipti við. Engu að síður vil ég minnast þessa mæta mans í nokkrum orðum því þó hann hafi ekki vitað af því þá hafði hann nokkur áhrif á uppeldi mitt.

Þannig er að þegar ég var ung stúlka að alast upp í Kópavoginum þá fór ég ævinlega á gamlársdag með föðurforeldrum mínum í messu í Hallgrímskirkju kl. 18. Þar sat ég sperrt við hlið Guðnýjar ömmu minnar og Lárusar afa míns og fylgdist með predikunum sem oftast voru fluttar af sr. Ragnari Fjalari Lárussyni en einnig kom fyrir að hr. Sigurbjörn Einarsson biskup predikaði. Ef hr. Sigurbjörn var ekki að messa þá sat hann alltaf nærri okkur, mjög framarlega í kirkjunni. Alltaf hlutstaði ég af athygli á messuorðin og söng svo hástöfum með, sérstaklega þegar sálmurinn „Ég kveiki á kertum mínum" eftir sr. Hallgrím Pétursson var fluttur.

Að messu lokinni var presturinn kvaddur með þökk fyrir messugjörðina en þá fóru amma mín og afi alltaf til hr. Sigurbjörns og frú Magneu og þökkuðu þeim líka fyrir og óskuðu þeim gleðilegs nýs árs. Það gerði ég líka og ég man alltaf hvað mér fannst vera mikil og djúp virðing yfir þeim hjónum báðum og mikil blíða sem umkringdi þau.

Þegar ég las um andlát hr. Sigurbjörns þá vöknaði mér um augu, ég fékk kökk í hálsinn og ég gerði mér grein fyrir því að án beinna afskipta af mér eða mínum þá hafði hann áhrif á mitt uppeldi og mína kristilegu hugsun. Fyrir það er ég honum ævarandi þakklát og er einhvernvegin sannfærð um að víða í íslensku þjóðfélagi megi finna fólk sem bera þessar sömu tilfinningar í brjósti.

Ættingjum og vinum hr. Sigurbjörns Einarssonar færi ég samúðarkveðjur og þökk fyrir samfylgd þessa mikla manns.

Rás 1 flutti einstaklega vel viðeigandi lag á andlátsdegi hr. Sigurbjörns Einarssonar, ljóðið heitir Nú hverfur sól í haf og er eftir hann sjálfan en lagið eftir son hans Þorkel Sigurbjörnsson tónskáld. Sjaldan eða aldrei hefur lagaval verið jafnvel viðeigandi og þarna og hitta þeir þó oft naglann á höfuðið á Rás 1.

Nú hverfur sól í haf
og húmið kemur skjótt.
Ég lofa góðan Guð,
sem gefur dag og nótt,
minn vökudag
minn draum og nótt.

Þú vakir, faðir vor,
og verndar börnin þín,
svo víð sem veröld er
og vonarstjarna skín,
ein stjarna hljóð á himni skín.

Lát daga nú í nótt
af nýrri von og ttrú
í myrkri hels og harms
og hvar sem gleymist þú
á jörð, sem átt og elskar þú.

Kom, nótt, með náð og frið,
kom nær, minn faðir hár,
og leggðu lyfstein þinn
við lífsins mein og sár,
allt mannsins böl,
hvert brot og sár.

(Sigurbjörn Einarsson)


Orða eða ekki orða, þar er efinn

Í dag bárust af því fréttir að forseti vor hyggðist sæma leikmenn íslenska landsliðsins Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framgöngu sína á handboltavellinum í Kína. Er það vel og hugmyndin sjálfsagt vel meint. En það berast einnig fréttir af því að forsetinn ætli að sæma fyrirliðann, þjálfarann og formann HSÍ stórriddarakrossi fyrir framgönguna. Gott og vel. Sem dugandi þjóðfélagsþegn og liðsmaður innan íþróttahreyfingarinnar þá set ég dálítið spurningamerki við þessi ósköp öll.

Í fyrsta lagi minnir mig að forsetinn hafi ætlað að draga úr því prjáli sem fylgir orðuveitingum þegar hann bauð sig fyrst fram til forseta. Sjálfsagt eru allir búnir að gleyma því og kannski ég líka, en á annarri öxl minni situr púki sem hvíslar þessu stöðugt í eyra mér.

Í öðru lagi velti ég því fyrir mér af hverju þrír úr hópnum eigi að fá stórriddarakross á meðan aðrir fá riddarakross. Jú fyrirliðinn er búinn að fá riddarakrossinn svo það á sér skýringar. En hvað með þjálfarann og formanninn. Af hverju stökkva þeir beint í stórriddarann?

Í þriðja lagi þá spyr ég, af hverju fær ekki allur hópurinn orðu? Var ekki um það talað á meðan á leikunum stóð að hópurinn ALLUR væri þéttur, samstilltur og óhugnanlega samstíga í öllu sínu! Í hópnum eru nefninlega líka nokkrir "fótgönguliðar" sem eru ekki að falla í kramið hjá forsetanum. Það er ég viss um að aðstoðarmenn þjálfarans hafa ekki sofið mikið meira en hann á meðan á leikunum eða undirbúningi þeirra stóð. Það sama á við um hjúkrunarliðið sem nuddaði, plástraði og læknaði drengina í gríð og erg á meðan á leikunum stóð.

Á myndinni hér að neðan má sjá hópinn sem stóð að baki þessum ótrúlega glæsilega árangri. Þarna er framkvæmdastjórinn, sjúkraþjálfarinn, nuddarinn, læknirinn, aðstoðarþjálfarinn og aðstoðarmaðurinn. Þessir fimm verða eftir þegar forsetinn afhendir krossana. 

Hvað sem verður þá óska ég þeim sem hljóta vegtyllur forsetans innilega til hamingju.

Ísl landsliðið


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband