Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Finnast sökudólgar í skúffum á skrifstofunni við Hverfisgötu?

Það er nú kannski ekki gott að greina frá því að hér sitji ég á föstudagskvöldi og horfi á útsendingu frá Alþingi. Einhver kann að segja að þeir sem það geri eigi sér lítið eða jafnvel ekkert líf, en ég hef það mér til afsökunar að ég rétt skipti yfir milli þátta og hitti á Vigdísi Hauksdóttur fara hamförum í ræðustóli Alþingis. Þar ræddi hún, en ræddi samt ekki, um hina ógurlegu Icesave reikninga. Það eru reikningar sem Landsbankinn stofnaði í Englandi og Hollandi og sankað að sér fjármunum gróðafíkla í þessum löndum. Þetta fólk lét glepjast af vöxtum sem ekki þekktust í öðrum bönkum í þessum löndum en síðar kom í ljós að fjármunina notuðu stjórnendur bankans til að blekkja almenning og hluthafa. Óþarft er að hafa fleiri orð um það ábyrgð stjórnenda Landsbankans er gríðarlega mikil sem og þeirra sem stjórnuðu efnahagsmálum hér uppi á Íslandi, því vissulega átti bankinn aldrei að fá leyfi til þess að stofna til þessara reikninga í nafni íslensku þjóðarinnar og íslenska ríkisins.

Þennan gjörning situr íslenska þjóðin uppi með, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Jú við getum neitað að borga og verið útskúfuð meðal annarra þjóða sem svikarar, ruplarar og ræningjar. Eða við getum sagt, jú við berum ábyrgð á þessum vitleysingum, við munum ábyrgjast reikningana eins og við mögulega getum. Slíku samkomulagi verða að fylgja ákveðnir fyrirvarar um það að Ísland er og mun verða áfram eins sjálfstæð þjóð og gjaldþrota þjóð getur orðið og við munum standa vörð um okkar náttúruauðlindir, þær eru grundvöllur þjóðarinnar og fara ekki úr okkar eigu.

En aftur að Vigdísi þessari Hauksdóttur. Hún fór mikinn í ræðustóli Alþingis og hjó þar helst í raðir Samfylkingarinnar og vísaði allt aftur til þess tíma sem Alþýðuflokkurinn var í stjórn og innleiddi EES samninginn og lét að því liggja að hrun íslensku bankanna væri Alþýðuflokkum og þar af leiðandi Samfylkingunni að kenna. Vigdís hagaði sér þarna eins og kostulegur hlaupari í hindrunarhlaupi, stökk yfir ábyrgð Framsóknarflokksins (sem er og hefur verið einn armur Sjálfstæðisflokksins undanfarin ár) með því að nefna hann ekki á nafn og skildi í leiðinni eftir 20 ára sögu þjóðarinnar og Alþingis eftir í myrkrinu.

Í færslunni sem ég skrifaði í gær benti ég á grein Jóns Baldvins Hannibalssonar þar sem hann vísar á ábyrgð Kjartans Gunnarssonar. Vissulega væri hægt að benda á fleiri í því sambandi. Má þar m.a. nefna til sögunnar nöfn eins og Halldór Ásgrímsson, Valgerði Sverrisdóttur og að ógleymdum Finni Ingólfssyni, ástmögur Framsóknarflokksins, sem var þeirra snjallasti viðskiptamaður. Hann var enda skipaður í stöðu viðskiptaráðherra og þegar hann nennti ekki að taka við leifunum af Framsóknarflokknum af Halldóri Ásgrímssyni þakkaði Halldór honum fyrir með því að skipa hann í stöðu Seðlabankastjóra, enda maðurinn snjallasti viðskiptamaður Framsóknar. Þegar Finnur nennti ekki lengur að vera seðlabankastjóri bankaði hann nett í öxlina á Halldóri, fósturföður sínum og Halldór afhenti honum Búnaðarbankann. Það var eðlilegt enda hafði Davíð látið vini sína Björgólfsfeðga fá Landsbankann fyrir lítið fé. Og til að bíta höfuðið af skömminni þá fóru Bjöggarnir til Finns vinar síns og fengu lán frá honum til að "borga" fyrir Landsbankann. Þar sem Finnur er sérfræðingur Framsóknar í viðskiptum ætli hann hafi ekki rölt sér yfir til Bjögganna og fengið lán fyrir Búnaðarbankanum frá þeim!!! Spyr sá sem ekki veit!

Finnur þessi Ingólfsson, nennti síðan ekki lengur að eiga banka, "eignaðist" fjárfestingafélag, sem óx af slíkum ógnarhraða að viðskiptaheimurinn horfði á í forundar og skildi hvorki upp né niður í þessum snillingi Finni Ingólfssyni framsóknarmanni. Enda sprakk þetta félag í loft upp síðasta haust. Og framsóknarmenn horfðu með stjörnur í augum á þetta skilgetna afkvæmi sitt og afhentu sínum fremsta viðskiptamanni leifarnar af Samvinnuhreyfingunni. Leifar sem höfðu legið á nokkuð tryggum bankareikningum um áratuga skeið eigendum sínum, hverjir sem það voru, til lítils gagns. Aurarnir voru "dautt fé" eða "fé án hirðis" eins og snjallasti Sjálfstæðismaðurinn orðaði það svo vel hér um árið. Finnur Ingólfsson, framsóknarmaður, tók milljarða króna, leitaði uppi eigendur og erfingja þeirra og lofaði því að peningarnir yrðu greiddir út fljótlega eða a.m.k. bráðum. En hvað gerði þessi snjallasti viðskiptamaður Framsóknarflokksins, jú hann "fjárfesti" hinu "dauða fé" í mis gæfulegum fjárfestingum og nú sitja eigendurnir og erfingjar þeirra sem leitað var að af miklum móð uppi með milljarðatuga skuld eftir þennan snilling.

Í kvöld vogar svo þingmaður Framsóknar, Vigdís Hauksdóttir, sér að koma í ræðustól og níða skóinn af stjórnmálaflokki sem ekki hefur verið til í tæpan áratug og sakar hann um það að bera ábyrgð á umræddum reikningum. Ég held að Vigdís Hauksdóttir ætti að leita hófanna annarsstaðar en í sögu Alþýðuflokksins, henni væri nær að líta í sinn eigin rann.  Ætli hún geti ekki leitað að sökudólgum í skúffum á skrifstofunni við Hverfisgötu, ég held það væri nær!

ps. ég bendi á bloggið hennar Láru Hönnu þar sem hún fann Finn.


Botlaus ósvífni í bland við forherðingu

Í gær skrifaði Jón Baldvin Hannibalsson, fv. utanríkisráðherra, einkar athyglisverða grein í Morgunblaðið. Fór hann þar mikinn um ábyrgð stjórnenda Landsbankans á bankahruninu og þá sérstaklega ábyrgð Kjartans Gunnarssonar, fv. framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins og varaformanns bankaráðs Landsbankans.  Hafir þú ekki þegar lesið greinin þá hvet ég þig til að gera það nú þegar því Jóni Baldvin er í lófa lagið að segja hlutina eins og þeir eru og þannig að þeir verði auðskiljanlegir.

Eins og flestum er kunnugt skrifaði Kjartan bréf í Morgunblaðið fyrir nokkrum dögum, bréf sem maður hefði getað haldið að væri fullt af iðrun, eftirsjá og beiðni um fyrirgefningu. En nei, slíkt á ekki uppá pallborðið hjá Kjartani. Nú er bruninn slökkviliðsmönnunum að kenna, ruslið kemur frá öskukörlunum og bankahrunið er þjóðinni að kenna. Kjartan sér sannarlega ekki bjálkann í eigin auga í þessari grein.  

En Jón Baldvin sér bjálkann og hann segir m.a.: "Getur þetta verið? Hefur mér ekki missýnst? Ég trúi ekki mínum eigin augum. Að á sama tíma og menn leggja nótt við nýtan dag til að moka skuldirnar og skítinn upp eftir greinarhöfund, Kjartan Gunnarsson, pólitíska fóstbræður hans og viðskiptafélaga, þá þyki honum sæma að gera hróp að björgunarliðinu. Hvað kallast svona hegðun? Hroki og óbilgirni? Vissulega. Botnlaus ósvífni væri nær lagi. Ósvífni í bland við forherðingu kemst líklega næst kjarna"

Í gærkvöldi var síðan Hreiðar Már Sigurðarson, fv. bankastjóri Kaupþings, í viðtali í Kastljósi. Þar reyndi hann að hvítþvo sjálfan sig af allri sök. Jú, hann hefði mátt halda öðruvísi á hlutum gagnvart starfsmönnum bankans sem stóðu sig frábærlega. Þeir voru beðnir afsökunar á stjórn bankans en Hreiðari datt ekki í hug að hann skuldaði þjóðinni nokkuð. Og til að bíta höfuðið af skömminni þá sagði Hreiðar Már að hann væri ekki ríkur maður. Tja, ef ég hefði 100 milljónir í laun á ári eða meira í nokkur ár, þá myndi ég klárlega líta á sjálfa mig sem ríka konu. Jafnvel þó ég hafi ekki fjárfest í hlutafélögum í nokkur ár, en það var nokkuð sem Hreiðar "fórnaði" þar sem hann hafði næga fjármuni milli handanna fyrir sína 9-4 vinnu. Svo ætlaðist hann til þess að fá samúð frá áhorfendum. Er drengurinn ekki að grínast?

Skömmina af höfðinu bitu síðan stjórnendur Straums sem buðust til þess að bjarga sem mestu úr brunarústum bankans fyrir ofurbónusa, milljarðar og ekkert minna var í boðinu gagnvart eigendum bankans. Var einhver sem hlustaði á þetta boð? Var einhverjum sem datt í hug að kannski væri þetta ekki galið boð? Er það nokkuð sama fólkið og settu aðra banka á höfuðið og íslensku þjóðina með?

Ég bara spyr!

 

2009-08-19 Jon Baldvin

Ég held að það sé hægt að smella á myndina og hún birtist stærri!


Hinir ósnertanlegu

Arnþór Sigurðsson, bloggvinur minn, segir á boggi sínu í dag:

Þegar að Hannes Hólmsteinn messaði hér um árið um að við íslendingar ættum alveg einstakt tækifæri í því að virkja hið dauða fjármagn og laða að erlenda fjárfesta og gera Ísland að fjármálamiðstöð þá óraði okkur hinum ekki fyrir því að við værum ábyrg.

Það hreinlega gleymdist í allri frjálshyggjunni að segja okkur að við bærum ábyrgð á einkavæðingunni og hugmyndum Hannesar. Því var statt og stöðugt haldið fram að best væri að einkavæða allt sem mögulegt væri. Einstaklingum væri mun betur teystandi heldur en ríkinu í rekstir fyrirtækja. En fór sem fór og við erum gerð jafnábyrg fyrir sukkinu eins og um ríkisfyrirtæki væri að ræða.

Í framhaldi af þessu velti ég því fyrir mér hvort þessi einkavæðing hafi í raun verið ein allsherjar dulbúin ríkisvæðing. Eru frjálshyggjupostularnir í raun últra kommúnistar þar sem hagnaðurinn og gróðinn fari í vasa hinna útvöldu (skráðum eigendum) en skuldirnar, skíturinn og ósóminn verði greiddur, þrifinn og borinn af almenningi (ríkinu).

Svo virðist reyndar meira að segja að hinir útvöldu (skráðir einkaeigendur) eigi ekki aðeins að sleppa við að borga þær skuldir sem þeir hafa stofnað til heldur eigi þeir líka að halda eftir því sem þeir kalla eigur sínar. Jafnvel sameign þjóðarinnar, fiskurinn í sjónum, má vera eftir í þeirra eigu þó við, ríkið, berum grilljóna skuldir þeirra á herðum okkar um ókomin ár.

Kannski eru hinir útvöldu ekki réttnefni, nær væri að kalla þessa kauða hina ósnertanlegu.


Með stjörnur í augum

Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá neinum að kvennalandsliðið í knattspyrnu er meðal þátttakenda í úrslitakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Finnlandi í lok ágúst. Frá því að markmiðið náðist á ísilögðum Laugardalsvellinum síðasta haust hefur KSÍ unnið öruggum höndum að því að vanda til allra verka í undirbúningi liðsins með það að markmiði að hámarka árangur stelpnanna þegar á hólminn er komið. Frammistaða liðsins og þeirra sem að því standa hefur vakið mikla athygli innanlands sem utan, enda er það ekki sjálfgefið að Ísland eigi fulltrúa í úrslitakeppni EM í þessari vinsælustu íþrótt í heimi.

Erlendis hafa knattspyrnumiðlar gert liðinu góð skil og sjaldan eða aldrei hafa íslenskar knattspyrnukonur átt jafnmikla möguleika á að spreyta sig í keppni erlendis og einmitt nú. En athyglin hér heima hefur verið hreint mögnuð og hafa fjölmiðlamenn keppst við að bera lof á stelpurnar, bæði sem einstaklinga og sem lið. Hámarkinu var náð þann 14. ágúst sl. þegar heimildarmyndin „Stelpurnar okkar" var frumsýnd í Háskólabíói. Þessum áhuga ber að fagna, ekki aðeins vegna kynningarinnar heldur einnig vegna þess að nú gefst ungum íslenskum knattspyrnustúlkum og -drengjum færi á að eiga sér margar og góðar fyrirmyndir hér heima.

Kannanir hafa sýnt að fyrirmyndir og markmiðasetning í íþróttum skipta gríðarlega miklu máli. Í dag njóta ungir knattspyrnuiðkendur þess að geta horft jafnt til Eiðs Smára Guðjohnsen og Margrétar Láru Viðarsdóttur, Gunnleifs Gunnleifssonar og Guðbjargar Gunnarsdóttur í leit sinni að fyrirmyndum. Það fer ekki framhjá neinum sem mætt hefur á hin ýmsu hraðmót í knattspyrnu í sumar að fyrirmyndir ungra iðkenda eru bæði konur og karlar. Hvar sem landsliðsfólk okkar kemur eru þau umkringd af ungu fólki sem vill fá eiginhandaráritanir og horfa með stjörnur í augum á þessar frábæru fyrirmyndir.

En leið liðsins að markmiði sínu hefur ekki verið neinn dans á rósum, þvert á móti hefur hún verið löng og ströng og þó stærstu ljónunum hafi verið rutt úr vegi á síðustu misserum þá býr mun lengri undirbúningur að baki.  Ég vil rekja þessa baráttu aftur til  níunda áratugarins þegar nokkrar áhugakonur um knattspyrnu kvenna stofnuðu Hagsmunasamtök knattspyrnukvenna, HKK. Meginmarkmið samtakanna var að endurvekja kvennalandsliðið sem lagt hafði verið niður haustið 1987, krefjast þess að félagsliðin í efstu deild fengju að leika á grasvöllum og í grastakkaskóm og velta úr vegi fordómum gagnvart konum í knattspyrnu, en auk þess lögðu samtökin áherslu á að umfjöllun fjölmiðla um knattspyrnu kvenna yrði aukin. Fyrstu árin var baráttan ströng en með framsýni á skrifstofu KSÍ að leiðarljósi kom að því að starfsemi HKK lognaðist smátt og smátt útaf en samtökin hafa þó aldrei verið formlega lögð niður.

Stórum áfanga hefur verið náð en stelpurnar okkar hafa þegar sett sér nýtt markmið, þær eru ekki að fara á Evrópumótið til þess eins að taka þátt, þær vilja ná enn lengra. Til þess að svo megi verða þurfa allir að stefna að þessu sama marki, ekki aðeins leikmennirnir, þjálfararnir og þeir sem að liðinu standa, heldur einnig þú lesandi góður og allir hinir. Við þurfum að standa saman, taka eitt skref í einu og setja okkur markmið. Stöndum öll að baki stelpunum, mætum á völlinn og hrópum ÁFRAM ÍSLAND!!

Ingibjörg Hinriksdóttir,
formaður útbreiðslunefndar KSÍ


„Heldur þú að stjórnin sé að falla?“

„Heldur þú að stjórnin sé að falla?“ var ég spurð í dag.

„Ég veit það ekki, en ef ríkisstjórnin fer ekki að verða verklegri þá held ég að dagar hennar verði færri en fleiri.“

Af hverju er ég þessarar skoðunar, ég sem er gildur limur í Samfylkingunni og jafnaðarmaður í gegn? Jú, það er vegna þess að ég sætti mig ekki við allan þann óróa og óvissu sem virðist fylgja Icesave samningnum, ég sætti mig ekki við það að ekki skuli enn vera búið að ná lögum yfir þá sem mesta ábyrgð bera á efnahagshruninu og ég sætti mig ekki við það að ríkisstjórnin (lesist forsætisráðherrann) talar ekki við fólkið í landinu.

Icesave
„Af hverju eigum við að skipta okkur af Icesave?“ gæti einhver spurt. Jú, Icesave samningarnir eru af slíkri stærðargráðu að þeir virðast eiga létt með að setja íslenskt þjóðarbú á hausinn ... aftur. Ég hef skipt um skoðun í þessu máli frá því sem áður var. Þá var ég á þeirri skoðun að við ættum að greiða reikninginn, annað væri fjarstæða, menn eiga að greiða skuldir sínar! En ég er ekki tilbúin að skrifa uppá hvað sem er.

Ef Bretar og Hollendingar hafa ákveðið að greiða hærri fjárhæðir en okkur bar þá á það að vera á þeirra ábyrgð. Okkar hlutur er rúmar 20 þúsund evrur, Bretar borguðu 50 þúsund evrur og Hollendingar 100 þúsund evrur, allt án þess að eiga um það samráð við Íslendinga - og ætla svo að rukka okkur um mismuninn.

Það er ég ekki tilbúin að samþykkja!

„Já, en ástæða þess að Bretar og Hollendingar greiddu meira var af því að íslenska ríkisstjórnin ábyrgðist allar innistæður innanlands með neyðarlögunum.“ Það má vera að neyðarlögin hafi verið mistök, þau geta slengst í andlitið á okkur aftur en við skulum ekki gleyma því hverjir voru í stjórn þegar þau voru samþykkt. Geir H. Haarde var forsætisráðherra og eftir að hann var búinn að tilkynna þjóðinni að innistæður væru tryggðar bað hann Guð að blessa Ísland! Núna, eftir þetta marga mánuði, skilur maður betur af hverju Guði var blandað í málið.

Ef Bretar og Hollendingar vilja tryggja innistæður á reikningum í þeirra heimalöndum þá er þeim það frjálst. Þeir geta ekki rukkað mig fyrir greiðslunum. Ég stend því við fyrri ákvörðun og er ekki tilbúin að samþykkja Icesave samninginn eins og hann liggur fyrir.

Ábyrgðarmennirnir
Íslendingar eru allir gerðir ábyrgir fyrir hruni bankanna. Vissulega voru alþjóðlegar aðstæður okkur fjandsamlegar og Íslendingar lifðu hátt og hratt, það er í okkar eðli. En það voru ekki allir sem tóku þátt í „ruglinu“. Hvað með þá, af hverju eiga þeir að greiða fyrir sukkið og svínaríið. Af hverju á íslenska þjóðin að greiða fyrir afmælisveislu Ólafs Ólafssonar þegar þjóðinni var ekki einu sinni boðið í partýið?

Fréttaskýrendur hafa oft sagt að það séu um það bið 40 einstaklingar sem mesta og stærsta ábyrgð bera á hruni bankanna. Má ég sjá þann lista? Hverjir eru á listanum? Er þar nafn Illuga Gunnarssonar sem stýrði sjóði 9. Er þar nafn Kristjáns Arasonar sem setti allt sitt í Sjö hægri rétt fyrir hrun. Er þar nafn Björgvins G. Sigurðssonar sem svaf værum svefni á skrifstofu viðskiptaráðherra? Er þar nafn Valgerðar Sverrisdóttur sem gaf íslensku bankana til sérvalinna vina sinna? Hvaða 40 nöfn erum við að tala um?

Ég vil líka fá að vita hvort ekki eigi að opna lánabækur Landsbankans og Glitnis frá því fyrir hrun. Af hverju eru þær bækur ekki komnar fram í dagsljósið, er það vegna þess að þar má finna nöfn Bjarna Benediktssonar, Lúðvíks Bergvinssonar, Geirs H. Haarde, Illuga Gunnarssonar, Péturs H. Blöndals og fleiri alþingismanna fyrrverandi og núverandi sem handhafa kúlulána eða hvað sem þetta nú heitir?

Af hverju er ekki búið að frysta eigur auðmananna og af hverju er þessi 40 manna hópur ekki komin í einangrun á Litla Hrauni? Er það vegna þess að það er í lagi að setja heila þjóð á hausinn eða er það vegna þess að ekki er pláss fyrir stórbokkana meðal smákrimmanna á Litla Hrauni og Kvíabryggju?

Fólkið í landinu
Mér finnst leiðinlegt að segja þetta, en „hvar ertu Jóhanna mín, nú þegar þinn tími er kominn?“ Vissulega var þér hampað í Gay Pride göngunni um daginn en það nægir mér ekki. Ég vil að þú komir fram fyrir íslenska þjóð og segir henni staðreyndir málsins. Hver klikkaði, hver svaf á verðinum, hverjir munu sæta ábyrgð, hvenær ætlar þú að opna lánabækur, hvenær fáum við að vita sannleikann? Það er ekki nóg að halda vikulega blaðamannafundi ef þar á ekki að segja frá neinu.

Þögnin elur aðeins á tortryggni, vantrú og ótta þjóðarinnar. Það sem íslensk þjóð þarfnast nú er heiðarlegur og trúverðugur foringi sem kemur til dyranna eins og hann er klæddur. Enginn er til þess betur falinn en þú Jóhanna. Ekki loka þig af og dyljast á meðan Skallagrímur ríður röftum í eigin flokki. Jóhanna, íslenska þjóðin þarf á þér að halda. Við þolum sannleikann, en þorir þú að segja hann?

 


Bændamarkaður í Grímsnesi

Helginni eyddi ég að mestu austur í Grímsnesi, var þar í sumarbústað sem systir mín er með í vikuleigu og skrapp síðan í Bláskógabyggðina, nánar tiltekið á Laugarvatn, og fylgdist með úrtaksæfingum U17 ára landsliðs kvenna. Átti ég þarna ósköp ljúfar og góðar stundi í faðmi fjölskyldu og framtíðarlandsliðskvenna.

Á laugardeginum skruppum við mæðgur og fleiri að Minni Borg þar sem búið var að setja upp þennan líka fína bændamarkað. Þar gerði ég frábær kaup, keypti 3 kg. af nýuppteknum íslenskum kartöflum, hvítkál, blómkál, gulrófur, gulrætur, hnúðkál og brokkoli. Ég afþakkaði grænkál sem Ingvar Ingvarsson oddviti vildi ólmur selja mér, kvaðst ekki vera svona mikil grænmetisæta!

Á bændamarkaðinum var líka að finna glæsilegan markað með ýmsan heimilisiðnað, bæði til matar, nytja og skrauts, í íþróttahúsinu og er greinilegt að í Grímsnesi má finna margan handverksmanninn. Ég stóðst ekki mátið og keypti mér rúgbrauðshleif og dreplangaði að kaupa mér krukku af chillisultu sem ég fékk að bragða á en náði að halda aftur af mér í það sinnið.

Það héldu mér hins vegar engin bönd þegar ég fór inní gamla félagsheimilið að Gömlu Borg, þar var tombóla að hætti Kvenfélags Grímsneshrepps. Þar voru engin núll og vinningar glæsilegir. Við mæðgur keyptum okkur 5 miða hvor og stóðum síðan í mikilli ös til að sækja vinningana okkar. Eftir að hafa fylgst með því hvernig konurnar í kvenfélaginu völdu fólk til að afgreiða náði ég að skella móður minni framfyrir mig, lét hana fá alla miðana og sagði "stattu fremst, þær afgreiða gamlar konur fyrst!" Og það stóð á endum, mamma fékk afgreiðslu um hæl og við héldum glaðar og kátar með marga glæsilega vinninga í farteskinu aftur út í sólskinið og rigningarskúrina sem voru í aðalhlutverkum í Grímsnesinu um helgina.

Í dag ætla ég síðan að fjárfesta í glænýrri ýsu, hún verður soðin með nýuppteknum íslenskum kartöflum og rúgbrauðið verður vandlega smurt með gömlu góðu og íslensku smjöri! Býður einhver betur?


Fráleitt bann

Í sjónvarpsfréttum í kvöld var haft eftir forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, eitthvað á þá leið "að lánabók Kaupþings hafi sýnt framá siðlausa viðskiptahætti og að bann á birtingu upplýsinga úr lánabókinni væri fráleitt."  Sannarlega get ég tekið undir þessi orð Jóhönnu. Lánabókin sýnir ótrúlega hluti þar sem eigendur lána sjálfum sér með veði í sjálfum sér til þess að kaupa hlut í sjálfum sér sem síðan hækkar gengið í þeim sjálfum svo þeir geti greitt sjálfum sér út arð vegna vaxtar sjálfs sín! (sem eru að líkindum einu beinhörðu peningarnir sem fara milli aðila í þessum gjörningi).

Um helgina hef ég verið tiltölulega mikil með sjálfri mér, enda gott að eiga heima í Kópavogi, og hef hugsað mikið um þessi mál. Spurningin sem ég stansa oftast við er þessi. Það má vera að gjörningurinn hafi verið löglegur, en siðlaus er hann klárlega og hvar var Fjármálaeftirlitið á meðan á þessum blekkingarleik stóð?

Fjármálaeftirlitið er einmitt sama stofnunin og gamli og nýi bankinn kærði RÚV til vegna birtingarinnar. Fjármálaeftirlitið brást skyndilega snaggaralega við og fór fram á lögbann á lánabókina. Lánabókina sem Fjármálaeftirlitið átti að vera fyrir löngu búið að draga fram og krefjast að sýnt væri fram á að raunveruleg veð væri að baki lánveitingunum. Ég hélt að það væri eitt af hlutverkum FME að tryggja að útlán væru raunverulega gegn tryggum veðum. Þar fyrir utan mega lánin ekki vera umfram 25% til eins eða skyldra aðila en skv. fréttum RÚV í kvöld námu lánin allt að 50% til örfárra aðila.

Í upphafi þessarar færslu minntist ég á ummæli forsætisráðherra sem hún lét frá sér fara í dag um siðleysi lánabókar og fáránleika lögbannsins. Ég komst að þessari sömu niðurstöðu á laugardag, af hverju þurfti forsætisráðherra svona langan umþóttunartíma til að koma þessu áliti frá sér?

Það sýður dálítið á mér og ég verð reiðari og reiðari með hverjum degi sem líður. Bölvið mun ekki þagna inní mér fyrr en ég sé glitra á stál á úlnliðum þeirra örfáu sem bera ábyrgð á þessum voðaverkum!


Lánabók Kaupþings - gjörið svo vel

Á fyrstu vikunum og mánuðunum eftir hrun kröfðust almennir íbúar þessa lands að þeir væru upplýstir um það hverjir bæru ábyrgð á hruninu. Íbúar landsins söfnuðust saman og kröfðust þess að þeir sem voru við stjórnvölinn vikju svo hægt væri að kjósa nýtt fólk til þess að stýra okkur út úr þeim vanda sem að okkur steðjaði. Íbúar kröfðust þess að skipt væri um stjórn Fjármálaeftirlits og Seðlabanka. Og viti menn sú varð raunin.

Í kosningabaráttunni voru uppi hávær loforð frá öllum flokkum að íbúar væru upplýstir um stöðu mála á hverjum tíma, allt skyldi uppá borð! Því miður hefur orðið minna úr efndum á þessum loforðum nýrrar stjórnar. Feluleikir hafa verið viðvarandi, bréf og skýrslur hafa ekki komið fram fyrr en á lokastigum og ekki aðeins íbúar hafa mátt þola þessa miklu leynd heldur hefur Alþingi og nefndir þess mátt sætta sig við þurfa að taka ákvarðanir í myrkrinu.

Enn á ný koma fram skjöl og pappírar sem sýna og sanna glannalega "stjórnun" bankanna. Bankarnir virðast hafa verið sjálfala, reknir af gervitöffurum sem reyndu að skara sem mestan eld að eigin köku og tóku ákvarðanir sem voru ekki í hag bankanna, ekki í hag viðskiptavinanna og ekki í hag íslensku þjóðarinnar, sem á endanum ber ábyrgð á vanrækslu, siðleysi og vanhæfi stjórnendanna.

Í dag var síðan einni bensínskvettu enn hellt á bál reiða Íslendinga. Lögbann á umfjöllun RÚV um lánabók Kaupþings þar sem fram kemur m.a. að lán voru veitt langt umfram ábyrgðir, langt umfram lánshæfi og að mestu til örfárra einstaklinga sem nú standa frammi fyrir íbúum þessa lands og reyna að pússa geislabauginn.

Ég er ekki tilbúin að sætta mig við það þegjandi og hljóðalaust að dómstólar þessa lands taki málstað útrásarvíkinganna og þaggi niður í RÚV. Fréttastofa RÚV er að sinna starfi sínu, Fréttastofa RÚV er að fara að kröfu eigenda sinna og upplýsa um það hvernig málum var háttað í aðdraganda hrunsins. Að dómstólar þessa lands skuli verja málstað þeirra sem hafa svikið, prettað og logið að þjóðinni er fordæmalaust og slíkt sætti ég mig ekki við. Það er því með stolti sem ég bendi á að unnt er að skoða lánabók Kaupþings á tenglinum hér að neðan. Endilega afritaðu skjalið á tölvuna þína til seinni tíma nota - ég treysti ekki dómstólum til að láta aðra fjölmiðla í friði.

http://88.80.16.63/leak/kaupthing-bank-before-crash-2008.pdf

Viðbót af bloggi Láru Hönnu:  Kannski kemur þetta málinu ekkert við, en er ekki beint traustvekjandi og vægast sagt umhugsunarvert. Ég var að fá upplýsingar - og kannaði þær nánar - að tengsl eru milli Sýslumannsins í Reykjavík og Kaupþings. Sýslumaður er Rúnar Guðjónsson (f. 1940). Rúnar var sýslumaður í Borgarnesi og rótarýfélagi Ólafs, föður Ólafs Ólafssonar. Sonur Rúnars er Frosti Reyr Rúnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar Kaupþings. Eins og sjá má t.d. hér og hér var Frosti Reyr einn af kúlulánþegum Kaupþings.

Annar sonur Rúnars er Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja. Búið er að loka vef samtakanna, að því er virðist, og ég finn þau ekki í símaskránni. En lauflétt gúgl leiðir ýmislegt í ljós, m.a. að þessi samtök virðast hafa gengið einna lengst í að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef eins og sjá má t.d. hér og hér. Gúglið leiðir ýmislegt fleira í ljós um samtökin, eins og t.d. þetta.

Ég fékk upplýsingar á fésinu rétt í þessu um að samtökin heiti nú Samtök fjármálafyrirtækja. Guðjón er ennþá framkvæmdastjóri - og kíkið á hverjir eru í stjórninni.

-°-°-°-°-°-°

Upplýsingar sem ég "stal" af bloggi Þorsteins Ingimarssonar:

Í stuttu máli  
Félög tengd Bakkabræðrum

332,7

milljarðar

Félög tengd Jóni Ásgeiri Jóhannessyni

326,0

milljarðar

Félög tengd Tchenguiz bræðrum

286,1

milljarður

Félög tengd Skúla Þorvaldssyni

142,9

milljarðar

Félög tengd Ólafi Ólafssyni

141,7

milljarðar

Félög tengd Kevin Stanford

103,1

milljarður

Antonis Yerolemou

66,0

milljarðar

Félög tengd Jákubi Jakobsen

57,5

milljarðar

Félög tengd Jóni Helga Guðmundssyni

46,1

milljarður

Saxhóll

42,1

milljarður

Össur

39,5

milljarðar

Samvinnutryggingasjóðurinn

30,2

milljarðar

Félög tengd Björgólfsfeðgum

22,7

milljarðar

Félög tengd Þorsteini M. Jónssyni

13,2

milljarðar

 


Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband