Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Fló á skinni

ImageSíðastliðið föstudagskvöld fór ég á leikritið Fló á skinni í uppfærslu Leikfélags Akureyrar ásamt systrum mínum, mágum og foreldrum. Núverandi leihússtjóri Borgarleikhússins og fyrrverandi leikhússtjóri LA flutti sýninguna suður og gengur hún nú í höfuðstaðnum fyrir fullu húsi um hverja helgi. Miðað við upplifun mína af leikritinu þá er það engin furða.

Árið 1972 setti Leikfélag Reykjavíkur verkið upp og þá fóru foreldrar mínir ásamt okkur systrum á verkið. Ég man enn eftir því hvað okkur þótti verkið skemmtilegt, Þorsteinn Erlingsson lék holgóma manninn (að mig minnir) og fór hann alveg á kostum. Við systur hermdum eftir honum í margar vikur á eftir. Í minningunni var hraðinn í verkinu árið 1972 ekki alveg eins mikill og er í því í dag en að þessu sinni er það í nýrri þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar en þýðingin frá 1972 var í höndum Vigdísar Finnbogadóttur.

Á laugardagskvöld fóru síðan systkinabörn mín og tengdabörn í leikhúsið 8 saman og skemmtu sér konunglega. Það er því engu logið þegar sagt er að verkið brúi kynslóðabil margra kynslóða.

Ég hvet alla sem hafa vott af húmor til þess að fara á þessa sýningu. Hún er stórfengleg. Guðjón Davíð Karlsson fer á kostum í hlutverkum sínum og það sama má segja um alla aðra leikara sem voru hver öðrum betri. Þýðing Gísla Rúnars er mögnuð eins og við var að búast, staðfærð og skemmtileg, þó örlaði á því hjá mér í leikhúsinu að það hefði verið hægt að staðfæra verkið uppá nýtt miðað við nýtt leikhús. Flytja verkið allt suður yfir heiðar!

Leikfélagi Akureyrar, Maríu Sigurðardóttur leikstjóra og öllum þeim sem að verkinu koma óska ég til hamingju með stórkostlega fyndið og skemmtilegt verk.


Áfram stelpur!!

Af vefsíðu Láru Hönnu.


Snillingurinn

Eilífðarstúdentinn Ómar Stefánsson birtir grein í Morgunblaðinu á miðvikudag þar sem hann fer ófögrum orðum um oddvita Samfylkingarinnar í Kópavogi, Guðríði Arnardóttur. Í greininni opinberar Ómar að hann á mikið ólært og á sjálfsagt eftir að sitja lengi enn á skólabekk áður en hann fær prófgráðu í greinaskrifum. Greinin er uppfull af vitleysu og rangfærslum. Mér dettur ekki í hug að halda að Ómar geri það af ráðnum hug, hann einfaldlega veit ekki betur.

Í greininni segir Ómar að Guðríður sé á móti nánast öllu. Ómar, líkt og guðfaðir hans bæjarstjórinn, trúir því nefnilega að ef einhver hefur eitthvað við stjórnsýslu þeirra félaga að athuga þá séu menn á móti. Ómar gerir sér enga grein fyrir því að rökræður um stjórnsýslu bæjarins fellur undir gagnrýna hugsun, endurskoðun og aðhald sem minnihlutaflokkum í bæjarstjórn ber skylda til að halda á lofti. Ómar er búinn að vera duglegur að læra undanfarin ár og guðfaðir hans bæjarstjórinn hefur verið duglegur að kenna drengnum. Ómar veit t.d. ekki alltaf í hvaða flokki hann er, svo samdauna er hann og hans skoðanir stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, þar kemst ekki hnífur á milli.

Ómar heldur því fram að oddvita Samfylkingar sé illa við opna og gagnsæja stjórnsýslu. Því fer fjarri, Samfylkingin hefur einmitt barist fyrir því að stjórnsýslan verði opnar og gegnsærri en hún hefur verið, m.a. er það gert með því að allir flokkar komi að málum þegar setja á bæjarstjórn siðareglur. En Ómar og guðfaðir hans vilja það alls ekki, þessar reglur á að semja á lokaðri skrifstofu bæjarstjóra og vallarstjóra og þær síðan bornar undir bæjarstjórn þar sem þær verða samþykktar af meirihlutanum. Þeir eru jú í meirihluta! Þetta er það sem þeir félagar kalla opna og gagnsæja stjórnsýslu.

Svo klikkir Ómar út með því að segja að það sé ekkert „aðalatriðið í huga Guðríðar Arnardóttir [sic] og félaga hennar sé það að búa í haginn fyrir íbúa Kópavogs." Þetta er náttúrulega bara firra, þvæla og þaðan af verra. Það er eindregið markmið Guðríðar Arnardóttur og félaga hennar í Samfylkingunni að búa í haginn fyrir íbúa Kópavogs, sérstaklega þannig að þeir þurfi ekki stöðugt að vera í slag við bæjaryfirvöld um allt og ekki neitt.

Þegar Ómar er búinn í skólanum þá væri kannski ráð fyrir hann og í anda opinnar og gegnsærrar stjórnsýslu að taka saman hversu miklum fjármunum Kópavogsbær hefur eytt í málaferli gegn íbúum bæjarins vegna ýmissa mála þau 18 ár sem meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa farið með meirihlutavald í bæjarstjórn Kópavogs.


Bullarinn bæjarstjórinn

Bæjarstjórinn í Kópavogi fer mikinn í heilagri för sinni til að sannfæra einhverja (væntanlega íbúa Lindahverfis) um að hverfasamtökin þar hafi verið stofnuð að frumkvæði Guðríðar Arnardóttur, oddvita Samfylkingarinnar. Slíkt er eins og allir vita algjör firra og uppspuni bæjarstjórans frá rótum. Ég hef áður bent bæjarstjóranum á að hann ætti að endurskoða þær upplýsingar sem hann fékk af stofnfundinum því þar virðist upplýsingagjöfin vera óvönduð í meira lagi.

Í grein sem bæjarstjórinn ritar í Morgunblaðið á miðvikudag upplýsir hann að visku sína fái hann úr veffrétt http://www.mbl.is/ þar sem rætt er við oddvitann fyrir utan Lindaskóla. Í bræði sinni segir bæjarstjórinn: „Morgunblaðsvefurinn hefði líka mátt ómaka sig við að fá viðtal við fulltrúa meirihlutans í bæjarstjórn, t.d. bæjarstjórann, úr því að sá eini sem hringt var í fyrir íbúafundinn átti ekki heimangengt." Í frétt mbl.is kemur einmitt fram skoðun Ármanns Kr. Ólafssonar, sem var síðast þegar ég vissi bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi. Ég hef ekki heyrt að Ármann sé genginn úr Sjálfstæðisflokknum en hann mætti reyndar ekki á síðasta bæjarstjórnarfund og hefur verið á fjarvistaskrá Alþingis. Kannski er álit Ármanns bæjarstjóranum ekki þóknanlegt. Bæjarstjórinn upplýsir reyndar að það er ekki að marka neinn annan bæjarfulltrúa meirihlutans með því að benda á sjálfan sig sem kjörinn viðmælanda hjá mbl.is.

Með útspili sínu í Morgunblaðinu í dag fullkomnar bæjarstjórinn bullið í sér og verður endanlega og algjörlega ótrúverðugur þegar kemur að samskiptum við íbúa í skipulagsmálum og af einstakri smekkleysu nefnir hann greinina Eyðum tortryggni.


Klukk

Smári Jökull klukkaði mig ... bölv.. Ég ætla að klukka Adda Sig, Steina, Ægi og Guggu.

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina.

Unglingavinnan (báðu megin við borðið)

Kennsla (eða leiðbeining eftir því hvernig á það er litið)

Matráður 

Þjónustufulltrúi - og allt sem því fylgir 


Fjórar bíómyndir sem ég held upp á.

Synir þrumanna

Sound of Music

Shawsank Redemption

Stella í Orlofi


Fjórir staðir sem ég hef búið á.

Kópavogur

Stykkishólmur

.... fjölbreytning er ekki meiri

.


Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:

House

Criminal Minds

Silfur Egils

Fréttir


Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum : 

Vestfirðir

Rimini

Calpe

Niðurlönd


Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg : 

mbl.is

ingibjorg.net (kemur alltaf jafnmikið á óvart!)

visir.is

samband.is

Fernt sem ég held uppá matarkyns:

Jólaöndin hennar mömmu

Saltkjöt og baunir á sprengidag

Fiskur af ýmsu tagi, svo fremi að hann hafi ekki skel!

Góð nautasteik með bernaise

 

Fjórar bækur sem ég hef lesið oft:

Njála

Ljóðasafn Steins Steinars

Brekkukotsannáll

101 Ljóð


Fjórir bloggarar sem ég ætla að klukka

Arnþór Sigurðsson

Þorsteinn Ingimarsson

Ægir Magnússon (svona til að koma honum aftur af stað)

Guðrírður Arnardóttir

 

Fjórir staðir sem ég vildi helst vera á núna : 

Heima hjá mér

Róm

París

Kaupmannahöfn


Bullið í bæjarstjóranum

Í Morgunblaðinu, blaði allra landsmanna, er í dag viðtal við bæjarstjórann í Kópavogi og því slegið upp í fyrirsögn að hann telji að hverfasamtök í bænum séu af pólitískum rótum runnin. Hvernig bæjarstjórinn finnur það út er erfitt að segja til um en í viðtalinu segir hann að formaður nýstofnaðra samtaka í Lindahverfi hafi farið ítrekað út úr fundarsalnum til að eiga leynilegar stundir með Guðríði Arnardóttur, oddvita Samfylkingarinnar í Kópavogi. Slíkar ásakanir eiga sér enga stoð og flokkast undir lygi og ekkert nema lygi.  

Þessi ótrúlega ímyndun bæjarstjórans ber ekki vott um annað en óöryggi og vanmátt gagnvart sterkum og samstilltum hverfasamtökum eins og þeim sem þegar hafa verið stofnuð í Lundi, á Kársnesi, á Nónhæð, við Skógarhjalla og nú í Lindum. Í raun mætti bæta við hverfissamráð við Vatnsenda en þar hafa íbúar haft ýmislegt að athuga við skipulagsmál án þess þó að stofna um það sérstök samtök.

Bæjarstjórinn í Kópavogi er lagstur í vörn og miðað við framkomu hans og önuglyndi í Morgunblaðinu í dag þá gæti ég helst trúað að upplýsingafulltrúi bæjarins sé í fríi, hann hefði aldrei hleypt bæjarstjóranum í viðtal í þessum ham. Auk þess velti ég því fyrir mér, vegna þess að ég trúi því ekki að karlinn hafi fundið þetta upp hjá sjálfum sér, hver hafi veitt bæjarstjóranum upplýsingar um tíðar ferðir verðandi formanns hverfasamtakanna út úr húsi. Ekki var bæjarstjórinn á staðnum. Spurningin sem bæjarstjórinn ætti að spyrja sig um helgina er: Var heimildarmaðurinn á staðnum yfirleitt?


Ríkasta fólk í heimi

Ert þú meðal ríkasta fólks í heimi?

Smelltu á tengilinn til að komast að því.


Fór þetta nokkuð framhjá þér?

„Íbúar hræðast aukna umferð“ þetta er fyrirsögn á sjónvarpsfrétt á www.mbl.is í dag, eða á maður kannski frekar að kalla þetta vídeófrétt? Hvaða umferð óttast íbúar svona mikið og hvaða íbúar eru þetta? Það kemur landsmönnum sjálfsagt ekki á óvart að þarna eru íbúar í Kópavogi á ferð, og enn og aftur er það verðandi, væntanleg umferð sem hræðir þá.

Meirihluti bæjarstjórnar Kópavogs hefur á þessu kjörtímabili slegið Íslandsmet í því að hræða íbúa sína. Þrjú íbúasamtök hafa verið stofnuð, öll til höfuðs meirihluta bæjarstjórnar sem hefur sem aldrei fyrr farið mikinn í því sem þeir kalla þéttingu byggðar en sumir aðrir gætu kannski kallað lofttæmingu byggðar. Íbúar óttast ekki bara umferðina þeir beinlínis óttast að geta ekki andað, a.m.k. ekki heilnæmu lofti að sér vegna aukinnar umferðar á þéttingarsvæðunum.

Á kjörtímabilinu hafa íbúar á Kársnesi stofnað samtök þar sem þau mótmæla tvöföldun íbúafjölda og umferðar á Kársnesi. Íbúar á Nónhæð hafa stofnað samtök sem mótmæla aukningu byggðar og umferðar við Nónhæð og nú hafa íbúar í Lindahverfi stofnað samtök þar sem þeir mótmæla aukningu verslunar- og þjónustuhúsnæðis ásamt gríðarlegri aukningu umferðar í hverfinu. Svo skulum við átta okkur á að kjörtímabilið er rétt hálfnað!

Til að þetta fari nú örugglega ekki framhjá þér þá bendi ég á þessa vídeófrétt frá mbl.is og upplýsi að Guðríður Arnardóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi er íbúi í Lindahverfi. http://www.mbl.is/mm/frettir/sjonvarp/19714/


14. sætið

Ætli einhvern hinna 4.056 kjósenda sem kusu Framsóknarflokkinn í Reykjavík í síðustu sveitarstjórnarkosningum hafi órað fyrir því að maðurinn í 14. sæti myndi setjast í borgarráð á kjörtímabilinu? Ég leyfi mér að efast um það.

Annars væri skemmtilegt að spyrja vin minn Guðmund Hreiðarsson, markmannsþjálfara og markaðsstjóra, að því hvort hann eigi nokkuð von á því að taka sæti í bæjarráði Kópavogs á kjörtímabilinu! Guðmundur var í 14. sæti á lista Framsóknarflokksins í Kópavogi við sveitarstjórnarkosningarnar 2006.

  • Einnig mætti spyrja Jóhannes Bjarnason sem skipaði 14. sætið á lista Framsóknar í Sandgerði,
  • Kjartan Kjartansson í 14. sæti á lista Framsóknarflokks á Akranesi,
  • Sigríði Magnúsdóttur 14. mann á lista Framsóknar á Ísafirði eða
  • Örlyg Þór Helgason 14. mann á lista Framsóknar á Akureyri

Ekki held ég að þessu fólki hafi nokkru sinni órað fyrir því að það taki sæti í bæjarráði sinna sveitarfélaga, enda á Framsóknarflokkurinn aðeins einn mann í bæjarstjórn á hverjum þessara staða. Nú sem aldrei fyrr hefur Framsóknarflokkinn sett niður í þrotlausri eftirsókn eftir völdum.


Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband