Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Hvað er ásættanlegt umferðaröryggi?

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Kópavogs og frambjóðandi til Alþingis, Ármann Kr. Ólafsson, sagði þann 9. janúar sl. að hann gæti ekki stutt fólk fyrir austan sérstaklega í baráttunni fyrir tvöföldun Suðurlandsvegar. Það er ágætt fyrir kjósendur fyrir austan fjall að vita það að í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðvesturkjördæmi er maður sem hefur engan sérstakan áhuga á að styðja íbúa á Suðurlandi. Það er ágætt að það sé bara á hreinu. 

 

Á fyrsta fundi nýs árs í bæjarstjórn Kópavogs, þann 9. janúar sl., báru fulltrúar Samfylkingarinnar upp áskorun til samgönguráðherra þar sem hann var hvattur til að ráðast þegar í tvöföldun Suðurlandsvegar. Margar ástæður lágu að baki þess að fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram þessa áskorun en þar vóg ekki minnst sú staðreynd að að baki var eitt versta slysaár Íslandssögunnar þar sem 31 einstaklingur lét lífið í 28 banaslysum í umferðinni. Þar af létust fjórir einstaklingar á Suðurlandsvegi og af þeim tveir við Sandskeið, sem er í lögsagnarumdæmi Kópavogs.

Á fundinum í janúar varð löng umræða um áskorunina sem við lögðum fram. Þar kom m.a. fram í orðum Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að hann væri ekki viss um að  tillöguflytjendum væri raunverulega alvara með áskoruninni og lét hann að því liggja að að baki hennar lægju pólitískar ástæður sem ættu ekkert skylt við umferðaröryggismál. Bæjarfulltrúanum var ítrekað bent á að með áskoruninni vildu flytjendur hennar standa með vegfarendum um Suðurlandsveg, Sunnlendingum, sveitarstjórnum á svæðinu og ýmsum félagasamtökum sem ályktað höfðu um málið og hvöttu til þess að ráðist yrði í tvöföldun vegarins í stað þess að ráðast í 2+1 veg eins og áformað var á þeim tíma.

Af hálfu Samfylkingarinnar voru engar duldar meiningar sem fylgdu áskoruninni. Samfylkingin er ekki þannig flokkur. Við tölum hug okkar og það þarf ekkert að setja upp einhver pólitísk gleraugu til þess að lesa á milli línanna. Það var og er einlægur vilji okkar, flytjenda tillögunnar, að ráðist verði í tvöföldun Suðurlandsvegar. Það var og er einlæg skoðun okkar að tvöföldun Suðurlandsvegar sé hagsmunamál Kópavogsbúa sem og annarra þeirra sem um veginn fara. Það var og er einlæg skoðun okkar að við Íslendingar megum engu til spara að auka öryggi á þjóðvegum landsins og þá ekki síst á hættulegustu köflum hringvegarins, s.s. á Suðurlandsvegi.

Undir þetta sjónarmið okkar treystu fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna sér ekki að taka og vísuðu málinu til bæjarráðs þar sem það hefur sofið, að því er virðist svefninum langa, enda er greinilegt að aðrir bæjarfulltrúar en fulltrúar Samfylkingarinnar hafa ekki mikinn áhuga á málinu. Þeir höfðu enda ekki kjark til þess í janúar að taka afstöðu í málinu og senda samgönguráðherra áskorun í nafni Kópavogsbúa um tvöföldun Suðurlandsvegar.

Í umræðum í bæjarstjórn í janúar sagði Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi Vinstri grænna að vildi ekki að málið yrði pólitískur ásteitingarsteinn og lagði til að málinu yrði vísað til bæjarráðs. Sú tillaga var á endanum samþykkt, þar sem málið svaf í heila 105 daga áður en það komst aftur á dagskrá bæjarstjórnar þann 24. apríl.

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Kópavogs og frambjóðandi til Alþingis, Ármann Kr. Ólafsson, sagði þann 9. janúar sl. að hann gæti ekki stutt fólk fyrir austan sérstaklega í baráttunni fyrir tvöföldun Suðurlandsvegar. Það er ágætt fyrir kjósendur fyrir austan fjall að vita það að í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðvesturkjördæmi er maður sem hefur engan sérstakan áhuga á að styðja íbúa á Suðurlandi. Það er ágætt að það sé bara á hreinu. 

Vilji Ármanns á bættu umferðaröryggi kom glögglega fram í orðum hans á fundinum þegar hann sagði fækkun slysa frá núverandi vegi yfir í 2+1 veg væri nægileg, slíkt væri „eðileg niðurstaða“. Og að auki væri það einfaldlega ódýrara. Ég get ekki lagt annan skilning í orð hans en þau að hann sé að verðleggja mannslíf. Það er ódýrara fyrir samfélagið að leggja 2+1 veg og fækkun slysa frá núverandi ástandi er ásættanleg. Ásættanleg. Er banaslys einhverntíman ásættanlegt?

Í lok marsmánaðar bárust fréttir af því að hægt væri að tvöfalda Suðurlandsveg fyrir 7,5-8 milljarða króna sem er lítið meira en þriðjungur þess sem umferðarslys kosta þjóðarbúið á ársgrundvelli.  Í framhaldi af yfirlýsingu nokkurra aðila um að unnt væri að setja tvöföldun vegarins í einkaframkvæmd lýsti samgönguráðherra, samflokksmaður Ármanns Kr., yfir miklum áhuga á að heimila framkvæmdina. Ármann, sem hefur lýst því yfir í bæjarstjórn Kópavogs að han sé ekki sammála samgönguráðherra um tvöföldun vegarins, getur e.t.v. fengið hann til að skipta um skoðun og bent honum á að 2+1 vegur sé eðlileg niðurstaða, ódýrari enda er fækkun slysa við slíka breytingu er að hans mati ásættanleg.

Það líður senn að kosningum til Alþingis og þá vill það henda suma stjórmálamenn að þeir skipta um skoðun og hefja upp ýmsan fagurgala sem síðan er gjarnan lagður í salt næstu fjögur árin. Nú eru allir flokkar jafnaðarmannaflokkar!

Samgönguráðherra hefur lýst yfir vilja til að ráðast í tvöföldun Suðurlandsvegar, fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, sagði í kosningaþætti í sjónvarpinu á dögunum að kosningarnar 2007 snerust um tvöföldun Suðurlandsvegar, hvorki meira né minna. 

En fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna í bæjarstjórn Kópavogs treystu sér ekki til að taka afstöðu til áskorunar um bætt umferðaröryggi. Ferðalangar um Suðurlandsveg ættu að hugsa það fram að kosningunum þann 12. maí hvort hægt sé að treysta fólki til starfa á þingi sem ekki getur einu sinni tekið afstöðu til einfaldrar áskorunnar um bætt umferðaröryggi á Suðurlandsvegi.


Lindaskóli flottastur

Það var gaman að fylgjast með Skólahreysti í gær. Krakkarnir allir stóðu sig frábærlega og það er algjörlega óviðjafnanlegt að fá í beinni útsendingu að sjá rjómann af íslenskum ungmennum. Fréttir af ungu fólki eru oftar en ekki á neikvæðum nótum, en þá hefur miklum minnihluta þeirra tekist að komast í fréttir í kjölfar einhverra strákapara eða ótuktarskapar. Í gær kvað við annan tón.

Þetta var í annað sinn sem Skólahreysti er haldin en í fyrra sigraði lið Salaskóla með glæsibrag. Titillinn fór ekki út fyrir lögsögu Kópavogs því að þessu sinni var komið að Lindaskóla að fara með sigur af hólmi.  Sigurliðið var enda skipað frábærum íþróttamönnum sem hafa sannarlega verið Kópavogi og Íslendingum til sóma á undanförnum vikum og þá ekki síst í gær. Fremst meðal jafningja var sexfaldur Norðurlandameistari í fimleikum, Fríða Rún, en hinir krakkarnir voru ekki síðri og geta þau öll og leikfimiskennarinn þeirra verið stolt af árangrinum. Ég er það allavega og á þó engan þátt í þessum árangri.

Ég get ekki lokað fyrir þessa færslu án þess að hrósa skipuleggjendum keppninnar, þeim bræðrum Andrési og Pétri Guðmundssonum og Láru konu Andrésar (frekar en Péturs) fyrir þeirra framtak.

Já og til hamingju krakkar í Lindaskóla!


Sigurlið Lindaskóla eftir riðlakeppnina.


Gunnar hótar umhverfisráðherra og félögum sínum

Meirihlutamenn í bæjarstjórn Kópavogs og þá sérstaklega þeir sem eru í miklum meirihluta í meirihlutanum, eru afar pirraðir þessa dagana. Það hefur birst best í Morgunblaðinu síðustu daga en Umhverfisráðuneytið hefur neitað að staðfesta svæðisskipulag vegna Glaðheimasvæðisins í Kópavogi.

Gunnar á ótrúlega spretti í Mogganum í dag er hann lætur hafa eftir sér: „Ef svæðisskipulagsráðið samþykkir ekki þessa tillögu þá er það náttúrulega orðið ónýtt. Þá munum við beita okkur gegn hinum sveitarfélögunum í öllu sem þau gera varðandi breytingu á svæðisskipulagi. Með þessu er komið á stríðsástandi í skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu og gott innlegg í kosningabaráttuna fyrir umhverfisráðherrann.“

Ef skipulagið verður ekki samþykkt munum við beita okkur gegn hinum sveitarfélögunum í öllu sem þau gera... er hægt að orða hótun með skýrari hætti?

Gunnar ítrekar stöðugt uppbyggingu á verslunarsvæði IKEA við Kaupþing í Garðabæ og segir að Garðbæingar vilji einoka Reykjanesbrautina. Hann horfir vitaskuld ekki til þess að gríðarlegt magn verslunarhúsnæðis hefur verið að rísa og boðað er að muni rísa við Smáratorg, Smáralind, Glaðheima og Lindir IV. Eru þá ótaldar breytingar á svæðisskipulagi í Hnoðraholti, Smalaholti og Rjúpnahæð. Svæðisstjóri Vegagerðarinnar, Jónas Snæbjörnsson, segir enda að breytingar í Kópavogi hafi verið „ansi örar“ og að erfitt væri fyrir Vegagerðina að reikna út umferðarþunga þegar skipulagsmál breyttust líkt og þau hafa gert í Kópavogi. Nefnir hann sérstaklega Vatnsendahverfið í því sambandi en þar hafi verið þrengt að ofanbyggðavegi sem gert hafi verið ráð fyrir í skipulagi.

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra og samflokkskona Ómars Stefánssonar, sem ber uppi meirihlutann í Kópavogi, segir að skipulagsbreytingin á Glaðheimasvæðinu sé veruleg. Rökstyður hún þá niðurstöðu m.a. með sömu rökum og við Samfylkingarfólk í Kópavogi höfum haldið fram, þ.e. að það þurfi að vera heildarsýn yfir skipulagið. Markmiðið væri m.a. að tryggja að fólk kæmist leiðar sinnar en umferðarþunginn á Reykjanesbrautinni og öðrum stofnbrautum væri nú þegar mjög íþyngjandi.  

Við rökum sem þessum bregst Gunnar að sjálfsögðu við með hótunum, enda málstaðurinn veikur og illa ígrundaður.

Ómar virðist hins vegar standa með bæjarstjóranum í þessu máli, en hann hefur til þessa tjáð sig lítt eða ekki um mörg umdeild skipulagsmál í Kópavogi.

 

 


Tvöföldun Suðurlandsvegar og pólitískur geislabaugur

Ég sá það mér til mikillar ánægju að samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, og félagar hans í Sjálfstæðisflokknum hafa skipt um skoðun þegar kemur að ákvörðun um tvöföldun Suðurlandsvegar. Það er vonandi að þessi sinnaskipti nái alla leið inní bæjarstjórnarflokks sjálfstæðismanna í Kópavogi, en þó er ekkert öruggt þar í hendi eins og flestir vita.

Í upphafi árs, nánar til tekið þann 9. janúar sl., lögðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Kópavogi fram tillögu um áskorun á samgönguráðherra að ráðast þegar í tvöföldun Suðurlandsvegar en um þetta leyti hafði þar nýlega orðið enn eitt banaslysið. Tillagan var einföld:

„Bæjarstjórn Kópavogs skorar á samgönguráðherra að ráðast þegar í tvöföldun Suðurlandsvegar frá höfuðborginni að Hveragerði.

Greinargerð:  Tvöföldun Suðurlandsvegar varðar Íslendinga alla og þá ekki síst íbúa höfuðborgarsvæðisins.  Málið á sérstakt erindi við íbúa Kópavogs, þar sem stór hluti Suðurlandsvegar frá Hafravatnsvegi að Hveragerði liggur um land Kópavogsbæjar. 

Áform um 2+1 veg er eingöngu hægt að líta á sem bráðabirgðalausn, sem þó er áformað að muni duga fram til ársins 2030.  Löngu er viðurkennt að svæðið frá Akranesi, austur í Árborg og suður á Reykjanes er eitt atvinnusvæði og umferð um þjóðvegina út frá höfuðborginni er stöðugt að aukast og ekkert bendir til að breyting verði þar á.  Ákvörðun um að fara í framkvæmd 2+1 vegar er í engu samræmi við þá staðreynd.  Góð reynsla af tvöföldun Reykjanesbrautar hefur sýnt fram á að ekki er annað raunhæft en að tvöfalda Suðurlandsveg þegar loksins verður ráðist í þær löngu tímabæru endurbætur.

Bæjarstjórn Kópavogs hvetur ráðuneyti samgöngumála að horfa til framtíðar og tryggja til fulls öryggi vegfarenda á einum hættulegasta vegi landsins sem þegar hefur tekið allt of mörg mannslíf.
Ingibjörg Hinriksdóttir, Guðríður Arnardóttir, Jón Júlíusson, Flosi Eiríksson“

 

Já, tvöföldun Suðurlandsvegar á sérstakt erindi við íbúa Kópavogs. Stór hluti vegarins liggur í umdæmi sveitarfélagsins og því töldum við að okkur bæi skylda til að leggja Sunnlendingum, sem höfðu náð þverpólitískri samstöðu um málið, lið og senda ofangreinda ályktun til samgönguráðherra. 

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks svæfði málið og sendi það til umsagnar bæjarráðs, þar sem það liggur enn og síðst í dag þá ítrekuðum við þá beiðni í bæjarráði að afgreiða málið og samþykkja áskorunina. Á fundinum í janúar fór Ármann „á Alþingi“, forseti bæjarstjórnar, mörgum orðum um það hversu vitlaus honum þótti tillagan, hún ætti ekkert erindi í bæjarstjórn Kópavogs og fyrst við ætluðum að fara að skipta okkur af þessari framkvæmd, af hverju við ályktuðum ekki líka um tvöföldun Vesturlandsvegar? Að auki þá taldi hann það af og frá að bílaumferð myndi aukast á þjóðvegum landsins og sagði eitthvað á þá leið að það væru engar rannsóknri sem styddu það. Hvað varðar upplýsingar um umferðaþunga þá höfðum við svo sem engar staðfestar tölur þar um en hins vegar má gera ráð fyrir því að Íslendingum muni halda áfram að fjölga og því aukist bílaumferðin í takt við það. En Ármanni til vorkunnar þá verður líka að benda á það að þarna talar forseti sömu bæjarstjórnar og ætlar að tvöfalda íbúafjölda Vesturbæjar Kópavogs án þess að gera sérstaklega ráð fyrir því að umferð muni aukast á svæðinu og það sama á við um svæðið í kringum Smáralind. Þar mun umferð að þeirra áliti ekki aukast heldur. 

En Ármanni til upplýsingar lásum við áskorunina upp aftur og lögðum sérstaka áherslu á þá staðreynd að stór hluti Suðurlandsvegar liggur í umdæmi Kópavogs, og bentum honum einnig á að mikla umræður væru í þjóðfélaginu um tvöföldun Suðurlandsvegar og því væri sá hluti þjóðvegarins í sérstakri umfjöllun innan bæjarstjórnar. Það væri næg ástæða til að álykta um tvöföldun Suðurlandsvegar og við bentum líka á að meðan bæjarstjóri Kópavogs sat á þingi þá hafði hann miklar skoðanir á Héðinsfjarðargöngum og sá sérstaka ástæðu til að álykta um þau í bæjarstjórn Kópavogs, þá hafi Ármanni ekki þótt neitt athugavert við að álykta um þróun á þjóðvegum landsins.

En það virðist þó vera að þeir kumpánar sem eiga sæti í bæjarstjórn Kópavogs fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins neyðist til að endurskoða þá einörðu afstöðu sem þeir höfðu gegn þessu máli því nú um helgina mun landsþing flokksins væntanlega álykta um málið og sjálfsagt hyggjast menn ætla að slá sig til riddara í leiðinni, með því að leggja til tvöföldun auk þess sem samgönguráðherra hefur gert þetta að pólitískum geislabaug fyrir sjálfan sig nú í aðdraganda Alþingiskosninga.

Á bæjarráðsfundi í dag tók Gunnar bæjarstjóri ekki illa í tillöguna og lofaði að afgreiða hana úr bæjarráði eftir viku. Þetta er stórundarleg tilviljun og ég bíð spennt!

 


Vandfenginn er vinur í nauð

Kæru vinir ég sendi ykkur mínar bestu óskir um gleðilega páskahelgi og von um að súkkulaðið beri ykkur ekki ofurliði í dag. Þegar ég opnaði ísskápinn minn eftir morgunsundið þá varð ég fyrir því óhappi að páskaeggið mitt (sem er nr 2 frá Nóa Síríus) datt í gólfið og brotnaði. Ég brosti reyndar að þessu og þótti það bara ágætt að eggið skyldi þó ekki brotna fyrr en á páskadagsmorgun enda skammt í að það hverfi í hyldýpi maga míns, en þangað liggur leið þess einmitt um þær mundir er ég skrifa þennan pistil.

Þó mér þyki súkkulaði ákaflega gott þá er það þrennt sem þarf að vera til staðar þegar páskaegg er annars vegar. Í fyrsta lagi þarf að vera páskadagur, egg sem nartað er í fyrir páskadag teljast ekki með. Í öðru lagi þarf eggið að vera í sellófan, egg sem nartað er í fyrir páskadag og eru í álpappír teljast ekki heldur með. Og í þriðja lagi þá þarf að vera málsháttur í egginu, málshættir sem laumast úr álpappírseggjum fyrir páskadag teljast sem sagt ekki með.

Eggið mitt, sem datt úr ísskápnum í morgun er, eins og áður sagði, egg nr. 2 frá Nóa Síríus og er alveg einstaklega gott á bragðið. Páskaunginn varð frelsinu feginn þegar ég sturtaði mölbrotnu egginu í skál og málshátturinn var til ykkar kæru vinir:

Vandfenginn er vinur í nauð.

 


Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband