Leita í fréttum mbl.is

Bændamarkaður í Grímsnesi

Helginni eyddi ég að mestu austur í Grímsnesi, var þar í sumarbústað sem systir mín er með í vikuleigu og skrapp síðan í Bláskógabyggðina, nánar tiltekið á Laugarvatn, og fylgdist með úrtaksæfingum U17 ára landsliðs kvenna. Átti ég þarna ósköp ljúfar og góðar stundi í faðmi fjölskyldu og framtíðarlandsliðskvenna.

Á laugardeginum skruppum við mæðgur og fleiri að Minni Borg þar sem búið var að setja upp þennan líka fína bændamarkað. Þar gerði ég frábær kaup, keypti 3 kg. af nýuppteknum íslenskum kartöflum, hvítkál, blómkál, gulrófur, gulrætur, hnúðkál og brokkoli. Ég afþakkaði grænkál sem Ingvar Ingvarsson oddviti vildi ólmur selja mér, kvaðst ekki vera svona mikil grænmetisæta!

Á bændamarkaðinum var líka að finna glæsilegan markað með ýmsan heimilisiðnað, bæði til matar, nytja og skrauts, í íþróttahúsinu og er greinilegt að í Grímsnesi má finna margan handverksmanninn. Ég stóðst ekki mátið og keypti mér rúgbrauðshleif og dreplangaði að kaupa mér krukku af chillisultu sem ég fékk að bragða á en náði að halda aftur af mér í það sinnið.

Það héldu mér hins vegar engin bönd þegar ég fór inní gamla félagsheimilið að Gömlu Borg, þar var tombóla að hætti Kvenfélags Grímsneshrepps. Þar voru engin núll og vinningar glæsilegir. Við mæðgur keyptum okkur 5 miða hvor og stóðum síðan í mikilli ös til að sækja vinningana okkar. Eftir að hafa fylgst með því hvernig konurnar í kvenfélaginu völdu fólk til að afgreiða náði ég að skella móður minni framfyrir mig, lét hana fá alla miðana og sagði "stattu fremst, þær afgreiða gamlar konur fyrst!" Og það stóð á endum, mamma fékk afgreiðslu um hæl og við héldum glaðar og kátar með marga glæsilega vinninga í farteskinu aftur út í sólskinið og rigningarskúrina sem voru í aðalhlutverkum í Grímsnesinu um helgina.

Í dag ætla ég síðan að fjárfesta í glænýrri ýsu, hún verður soðin með nýuppteknum íslenskum kartöflum og rúgbrauðið verður vandlega smurt með gömlu góðu og íslensku smjöri! Býður einhver betur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Nei elskan,ja  kanski mörfloti, sem flestir kalla hamsatólg.

Helga Kristjánsdóttir, 10.8.2009 kl. 06:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband