Leita í fréttum mbl.is

Nú hverfur sól í haf

Herra Sigurbjörn Einarsson biskup er látinn. Það kemur kannski einhverjum á óvart að ég skuli setjast niður við tölvuna og rita hugleiðingar um mann sem ég átti engin persónuleg samskipti við. Engu að síður vil ég minnast þessa mæta mans í nokkrum orðum því þó hann hafi ekki vitað af því þá hafði hann nokkur áhrif á uppeldi mitt.

Þannig er að þegar ég var ung stúlka að alast upp í Kópavoginum þá fór ég ævinlega á gamlársdag með föðurforeldrum mínum í messu í Hallgrímskirkju kl. 18. Þar sat ég sperrt við hlið Guðnýjar ömmu minnar og Lárusar afa míns og fylgdist með predikunum sem oftast voru fluttar af sr. Ragnari Fjalari Lárussyni en einnig kom fyrir að hr. Sigurbjörn Einarsson biskup predikaði. Ef hr. Sigurbjörn var ekki að messa þá sat hann alltaf nærri okkur, mjög framarlega í kirkjunni. Alltaf hlutstaði ég af athygli á messuorðin og söng svo hástöfum með, sérstaklega þegar sálmurinn „Ég kveiki á kertum mínum" eftir sr. Hallgrím Pétursson var fluttur.

Að messu lokinni var presturinn kvaddur með þökk fyrir messugjörðina en þá fóru amma mín og afi alltaf til hr. Sigurbjörns og frú Magneu og þökkuðu þeim líka fyrir og óskuðu þeim gleðilegs nýs árs. Það gerði ég líka og ég man alltaf hvað mér fannst vera mikil og djúp virðing yfir þeim hjónum báðum og mikil blíða sem umkringdi þau.

Þegar ég las um andlát hr. Sigurbjörns þá vöknaði mér um augu, ég fékk kökk í hálsinn og ég gerði mér grein fyrir því að án beinna afskipta af mér eða mínum þá hafði hann áhrif á mitt uppeldi og mína kristilegu hugsun. Fyrir það er ég honum ævarandi þakklát og er einhvernvegin sannfærð um að víða í íslensku þjóðfélagi megi finna fólk sem bera þessar sömu tilfinningar í brjósti.

Ættingjum og vinum hr. Sigurbjörns Einarssonar færi ég samúðarkveðjur og þökk fyrir samfylgd þessa mikla manns.

Rás 1 flutti einstaklega vel viðeigandi lag á andlátsdegi hr. Sigurbjörns Einarssonar, ljóðið heitir Nú hverfur sól í haf og er eftir hann sjálfan en lagið eftir son hans Þorkel Sigurbjörnsson tónskáld. Sjaldan eða aldrei hefur lagaval verið jafnvel viðeigandi og þarna og hitta þeir þó oft naglann á höfuðið á Rás 1.

Nú hverfur sól í haf
og húmið kemur skjótt.
Ég lofa góðan Guð,
sem gefur dag og nótt,
minn vökudag
minn draum og nótt.

Þú vakir, faðir vor,
og verndar börnin þín,
svo víð sem veröld er
og vonarstjarna skín,
ein stjarna hljóð á himni skín.

Lát daga nú í nótt
af nýrri von og ttrú
í myrkri hels og harms
og hvar sem gleymist þú
á jörð, sem átt og elskar þú.

Kom, nótt, með náð og frið,
kom nær, minn faðir hár,
og leggðu lyfstein þinn
við lífsins mein og sár,
allt mannsins böl,
hvert brot og sár.

(Sigurbjörn Einarsson)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 129662

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband