Leita í fréttum mbl.is

Hvað er ásættanlegt umferðaröryggi?

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Kópavogs og frambjóðandi til Alþingis, Ármann Kr. Ólafsson, sagði þann 9. janúar sl. að hann gæti ekki stutt fólk fyrir austan sérstaklega í baráttunni fyrir tvöföldun Suðurlandsvegar. Það er ágætt fyrir kjósendur fyrir austan fjall að vita það að í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðvesturkjördæmi er maður sem hefur engan sérstakan áhuga á að styðja íbúa á Suðurlandi. Það er ágætt að það sé bara á hreinu. 

 

Á fyrsta fundi nýs árs í bæjarstjórn Kópavogs, þann 9. janúar sl., báru fulltrúar Samfylkingarinnar upp áskorun til samgönguráðherra þar sem hann var hvattur til að ráðast þegar í tvöföldun Suðurlandsvegar. Margar ástæður lágu að baki þess að fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram þessa áskorun en þar vóg ekki minnst sú staðreynd að að baki var eitt versta slysaár Íslandssögunnar þar sem 31 einstaklingur lét lífið í 28 banaslysum í umferðinni. Þar af létust fjórir einstaklingar á Suðurlandsvegi og af þeim tveir við Sandskeið, sem er í lögsagnarumdæmi Kópavogs.

Á fundinum í janúar varð löng umræða um áskorunina sem við lögðum fram. Þar kom m.a. fram í orðum Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að hann væri ekki viss um að  tillöguflytjendum væri raunverulega alvara með áskoruninni og lét hann að því liggja að að baki hennar lægju pólitískar ástæður sem ættu ekkert skylt við umferðaröryggismál. Bæjarfulltrúanum var ítrekað bent á að með áskoruninni vildu flytjendur hennar standa með vegfarendum um Suðurlandsveg, Sunnlendingum, sveitarstjórnum á svæðinu og ýmsum félagasamtökum sem ályktað höfðu um málið og hvöttu til þess að ráðist yrði í tvöföldun vegarins í stað þess að ráðast í 2+1 veg eins og áformað var á þeim tíma.

Af hálfu Samfylkingarinnar voru engar duldar meiningar sem fylgdu áskoruninni. Samfylkingin er ekki þannig flokkur. Við tölum hug okkar og það þarf ekkert að setja upp einhver pólitísk gleraugu til þess að lesa á milli línanna. Það var og er einlægur vilji okkar, flytjenda tillögunnar, að ráðist verði í tvöföldun Suðurlandsvegar. Það var og er einlæg skoðun okkar að tvöföldun Suðurlandsvegar sé hagsmunamál Kópavogsbúa sem og annarra þeirra sem um veginn fara. Það var og er einlæg skoðun okkar að við Íslendingar megum engu til spara að auka öryggi á þjóðvegum landsins og þá ekki síst á hættulegustu köflum hringvegarins, s.s. á Suðurlandsvegi.

Undir þetta sjónarmið okkar treystu fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna sér ekki að taka og vísuðu málinu til bæjarráðs þar sem það hefur sofið, að því er virðist svefninum langa, enda er greinilegt að aðrir bæjarfulltrúar en fulltrúar Samfylkingarinnar hafa ekki mikinn áhuga á málinu. Þeir höfðu enda ekki kjark til þess í janúar að taka afstöðu í málinu og senda samgönguráðherra áskorun í nafni Kópavogsbúa um tvöföldun Suðurlandsvegar.

Í umræðum í bæjarstjórn í janúar sagði Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi Vinstri grænna að vildi ekki að málið yrði pólitískur ásteitingarsteinn og lagði til að málinu yrði vísað til bæjarráðs. Sú tillaga var á endanum samþykkt, þar sem málið svaf í heila 105 daga áður en það komst aftur á dagskrá bæjarstjórnar þann 24. apríl.

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Kópavogs og frambjóðandi til Alþingis, Ármann Kr. Ólafsson, sagði þann 9. janúar sl. að hann gæti ekki stutt fólk fyrir austan sérstaklega í baráttunni fyrir tvöföldun Suðurlandsvegar. Það er ágætt fyrir kjósendur fyrir austan fjall að vita það að í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðvesturkjördæmi er maður sem hefur engan sérstakan áhuga á að styðja íbúa á Suðurlandi. Það er ágætt að það sé bara á hreinu. 

Vilji Ármanns á bættu umferðaröryggi kom glögglega fram í orðum hans á fundinum þegar hann sagði fækkun slysa frá núverandi vegi yfir í 2+1 veg væri nægileg, slíkt væri „eðileg niðurstaða“. Og að auki væri það einfaldlega ódýrara. Ég get ekki lagt annan skilning í orð hans en þau að hann sé að verðleggja mannslíf. Það er ódýrara fyrir samfélagið að leggja 2+1 veg og fækkun slysa frá núverandi ástandi er ásættanleg. Ásættanleg. Er banaslys einhverntíman ásættanlegt?

Í lok marsmánaðar bárust fréttir af því að hægt væri að tvöfalda Suðurlandsveg fyrir 7,5-8 milljarða króna sem er lítið meira en þriðjungur þess sem umferðarslys kosta þjóðarbúið á ársgrundvelli.  Í framhaldi af yfirlýsingu nokkurra aðila um að unnt væri að setja tvöföldun vegarins í einkaframkvæmd lýsti samgönguráðherra, samflokksmaður Ármanns Kr., yfir miklum áhuga á að heimila framkvæmdina. Ármann, sem hefur lýst því yfir í bæjarstjórn Kópavogs að han sé ekki sammála samgönguráðherra um tvöföldun vegarins, getur e.t.v. fengið hann til að skipta um skoðun og bent honum á að 2+1 vegur sé eðlileg niðurstaða, ódýrari enda er fækkun slysa við slíka breytingu er að hans mati ásættanleg.

Það líður senn að kosningum til Alþingis og þá vill það henda suma stjórmálamenn að þeir skipta um skoðun og hefja upp ýmsan fagurgala sem síðan er gjarnan lagður í salt næstu fjögur árin. Nú eru allir flokkar jafnaðarmannaflokkar!

Samgönguráðherra hefur lýst yfir vilja til að ráðast í tvöföldun Suðurlandsvegar, fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, sagði í kosningaþætti í sjónvarpinu á dögunum að kosningarnar 2007 snerust um tvöföldun Suðurlandsvegar, hvorki meira né minna. 

En fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna í bæjarstjórn Kópavogs treystu sér ekki til að taka afstöðu til áskorunar um bætt umferðaröryggi. Ferðalangar um Suðurlandsveg ættu að hugsa það fram að kosningunum þann 12. maí hvort hægt sé að treysta fólki til starfa á þingi sem ekki getur einu sinni tekið afstöðu til einfaldrar áskorunnar um bætt umferðaröryggi á Suðurlandsvegi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband