Leita í fréttum mbl.is

Það er ekki til sérstakt herbergi í helvíti fyrir konur ...

Ég hef áhyggjur. Áhyggjur mínar felast fyrst og fremst í því að flokkurinn minn, Samfylkingin, er að mælast með minna og minna fylgi í hverri könnuninni á fætur annarri. Ég gæti auðveldlega barið mér á brjóst, og þau ekki smá, og sagt „sussussu, þetta eru BARA skoðanakannanir, við skulum sjá hvað kemur uppúr kjörkössunum“. Mér dettur ekki í hug að gera það. Niðurstöður skoðanakannana gefa vísbendingar og maður á að taka mark á vísbendingum.

Ég held að félagar mínir í forystu flokksins séu ekki að beita réttum aðferðum í baráttunni. Við eigum að nota okkar sterkasta vopn miklu, miklu mun betur en við gerum. Það vopn er stefnuskrá flokksins, stefna jöfnuðar, frjálslyndis, framfara og lýðræðis. Það er enginn annar stjórnmálaflokkur á Íslandi sem getur teflt fram jafn öflugri stefnu og Samfylkingin og við verðum að beita öllum meðulum mögulegum til að koma henni á framfæri, henni fyrst og fremst.

Oftsinnis áður hef ég sagt frá því að ég sé ekki femínisti. Ég er hins vegar mikill og öflugur talsmaður jafnra tækifæra allra; karla, kvenna, ungra, aldinna, fatlaðra sem ófatlaðra. Allir gildir þjóðfélagsþegnar eiga að eiga þess kost að fá jöfn tækifæri í lífinu hvort sem þeir eru fæddir með silfurskeið í munni eða ekki. Það er grundvallarregla sem ég hef haft í forgrunni allt frá því ég komst til vits og ára (og jafnvel fyrr). Fyrir þessu vil ég berjast og stefna Samfylkingarinnar er sú sem ég tel best til þess fallna að koma þessu í framkvæmd.

Síst af öllu vil ég þá forræðishyggju sem vinstri grænir boða í stefnuyfirlýsingum sínum. Forræðishyggja hefur verið reynd með illum árangri í mörgum ríkjum heims. Vissulega var hún góð til síns brúks á sínum tíma þegar ánauð og fátækt hrjáði þessar þjóðir en að reyna að troða þessu uppá Ísland dagsins í dag er slík tímaskekkja að það er tæplega hægt að færa það í orð.

Frjálshyggja íhaldsins er mér heldur ekki að skapi því það er einfaldlega þannig að þó í orði séu allir menn bornir frjálsir þá eru þeir engu að síður misfrjálsir. Ýmsar utanaðkomandi aðstæður geta valdið því að menn fá ekki jöfn tækifæri, þar skiptir fjárhagur mestu máli en frjálshyggja íhaldsins elur á því að þeir ríku verði ríkari og að hinir fátæku haldi áfram að vera fastir í fátæktrargildru. Þetta sést ekki síst í skattastefnu ríkisstjórnarinnar þar sem hinir ríku þurfa að borga minna og minna til samfélagsins, og jafnvel ekki neitt, en þeir sem minna hafa þurfa að greiða sífellt stærri hlut af tekjum sínum í skatta og skyldur.

Ég get ekki fellt mig við tækifærismennsku framsóknar þar sem menn taka þær ákvarðanir sem þeir telja að henti sér best á hverjum tíma. Stefna þeirra felst að því er virðist helst í því að vera við völd sem lengst og fórna málstað sínum, ef hann er þá nokkur, fyrir valdið. Það tel ég slæmt og þá ekki síst það að í skjóli valdsins hefur þessi flokkur helst opinberast sem atvinnumiðlun þar sem gæðingum flokksins eru skammtaðar opinberar stöður í ómældu magni.

Frjálslynda flokkinn nenni ég ekki einu sinni að tala um, svo ósmekklegur sem hann er.

En ég vil veg Samfylkingar meiri, miklu meiri. Ég tel ekki að endalaust tal um konu í stól forsætisráðherra sé vænlegt til árangurs. Satt best að segja tel ég að slíkt tal verði frekar til þess að fæla fólk frá flokknum en að honum. Konur kjósa ekki endilega konur, það er löngu sannað. Öllu tali um að það sé til sérstakt herbergi í Helvíti fyrir konur sem ekki standa með öðrum konum vísa ég til föðurhúsanna. Konur eiga að standa með sannfæringu sinni, þær eiga að standa á rétti sínum, þær eiga að standa að sanngjarnara og réttlátara samfélagi þar sem hver einstaklingur fær að njóta sín og sinna hæfileika. Þetta geta konur staðið vörð um og þetta eiga konur að standa vörð um. Þessi varðstaða mun á endanum leiða til þess að Samfylkingin mun komast í ríkisstjórn og fær vonandi forsætisráðuneytið. Nafna mín, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er formaður Samfylkingarinnar og mun þess vegna verða forsætisráðherra, fyrst íslenskra kvenna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband