Leita í fréttum mbl.is

Þakkir til Eggerts Magnússonar

Lastaranum líkar ei neitt.
Lætur hann ganga róginn.
Finni hann fölnað laufblað eitt
þá fordæmir hann skóginn.

Fjölmargir Íslendingar láta sig almenningsmálefni varða og taka þátt í þeim með ýmsum hætti, s.s. með setu í stjórnum og nefndum hjá félögum og félagasamtökum. Á þetta ekki síst við meðal þeirra sem sinna störfum innan íþróttahreyfingarinnar. Oft eru þessi störf vanþakklát þar sem mun fleiri eru tilbúnir til að gagnrýna það sem þar er gert en láta hins vegar vera að þakka og lofa það framlag sem þessir einstaklingar hafa innt af hendi.

Í lok síðasta árs tilkynnti þáverandi formaður Knattspyrnusambands Íslands, Eggert Magnússon, að hann hygðist draga sig í hlé frá formannsstörfum innan sambandsins en hann hafði sinnt því starfi undanfarin 17 ár. Það varð strax ljóst að mikill sjónarsviptir yrði af Eggerti enda er maðurinn ákaflega fylginn sér og ákveðinn í verkum sínum, sumir myndu jafnvel kalla hann frekan. Hann, og starf hans sem formaður KSÍ, hefur oft legið undir ámæli þeirra sem láta ekki sitt eftir liggja við að fordæma og gagnrýna, stundum á réttmætan hátt og stundum ekki. Eggert hefur eftir sem áður staðið keikur og látið gagnrýnisraddir sem vind um eyru þjóta enda var allt hans starf innan KSÍ unnið af ástríðu og sannfæringu fyrir því að hann væri að vinna í þágu heildarinnar og að starf hans myndi verða knattspyrnuhreyfingunni sem heild til góða. Á vegferð sinni þurfti hann vafalaust einnig að taka óvinsælar ákvarðanir og líta framhjá því sem öðrum fannst vera besti kostur í stöðunni.

Ég var svo heppin að eiga þess kost að starfa með Eggerti í stjórn KSÍ um nokkurra ára skeið. Á þeim tíma sannfærðist ég endanlega um að hann hafði gríðarlegan metnað fyrir hönd íslensku þjóðarinnar og fyrir hönd íslenskrar knattspyrnu. Metnaður hans var miklu meiri en annarra í stjórninni og hann lét einskis ófreistað til að vegur hennar yrði sem mestur og bestur. Á þetta ekki síst við um knattspyrnu kvenna þar sem á hans tíð hafa verið stigin ótal mörg og farsæl framfaraspor á vettvangi landsliða sem og í keppni innanlands.

Í upphafi þessarar greinar hef ég ritað vísu Steingríms Thorsteinssonar sem er um þá sem sjá aðeins fölnuð laufblöð í skóginum og sjá sérstaka ástæðu til að benda á þau fremur en að horfa á skóginn sem heild. Þannig var það hjá mörgum í upphafi ársins þar sem ítrekað var bent á nokkur fölnuð laufblöð og þau höfð til marks um það að íslenskri kvennaknattspyrnu hafi ekki verið sinnt nægilega vel. Vissulega er enn margt ógert í íslenskri knattspyrnu bæði hjá konum og körlum, við eigum mörg verðug verkefni framundan sem við hefðum sjálfsagt getað verið búin að bæta og breyta. En mér finnst ósanngjarnt að eftirmæli Eggerts Magnússonar, er hann stígur úr stóli formanns KSÍ, séu þau að hann hafi haft ekki unnið nægilega vel í þágu íslenskrar kvennaknattspyrnu þegar staðreyndir tala allt öðru máli og sýna fram á að hann skilji eftir gróðursælan akur sem hefur verið sáð í og sannarlega hugsað vel um á síðustu 17 árum. Þessi 17 ár eru réttur helmingur þess tíma sem kvennaknattspyrna hefur verið stunduð á Íslandi og hver sem vill getur séð að seinni 17 árin eru miklum mun betri og farsælli en þau fyrri. Fyrir það vil ég færa Eggerti Magnússyni þakkir.

Þegar verið er að ræða og meta verk forystumanna eins og Eggerts Magnússonar, nú þegar hann hefur horfið til annarra starfa, er oft skynsamlegt að stíga eitt eða tvö skref til baka og virða fyrir sér heildarmyndina, því aðeins þannig verður hægt að sjá allan skóginn.

Ingibjörg Hinriksdóttir, stjórnarmaður í KSÍ


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband