Leita í fréttum mbl.is

Tími pissukeppna er liðinn

Hin langþráða rannsóknarskýrsla Alþingis leit loksins dagsins ljós í gærmorgun. Miðað við þær upplýsingar sem þar hafa komið fram virðist skýrslan vera vel unnin og mikilvægt innlegg í þá umræðu og uppgjör sem verður að fara fram í íslensku samfélagi í kjölfar bankahrunsins í október 2008.

Í skýrslunni kemur glögglega fram að rót hrunsins má rekja allt aftur til einkavæðingar bankanna og þess hversu hroðvirknislega og illa var unnið að þeirri framkvæmd. Þeir stjórnmálaflokkar sem þá réðu ríkjum voru í gríðarlegri pissukeppni um hver byði betur og hvergi mátti halla á fylgismenn þeirra og bestu vini þegar kom að því að deila út í stað þess að selja í opnu og gegnsæu ferli þessa grundvallareiningu í íslensku samfélagi sem bankarnir eru og voru.

Það eina sem „vel" tókst til við einkavæðingu bankanna var að þeir voru einkavæddir. Þrátt fyrir yfirlýsingar og stjórnvalda þess efnis að tryggð yrði dreifð eignaraðild fórst það algjörlega fyrir og áður en varði voru bankarnir komnir í eigu örfárra einstaklinga sem síðar nýttu sér aðstöðu sína og stunduðu þann ljóta leik að ræna þá innanfrá. Fjármálaráðherra orðaði það ágætlega á Alþingi í gær þegar hann sagði „rán var það og rán skal það heita". Sjálf hefði ég ekki geta orðað það betur.

Til að bæta gráu ofaná svart þá hélt pissukeppni helmingaskiptaflokkanna áfram og þegar Framsóknarflokkurinn hellti olíu á þenslubálið með því að krefjast þess að íbúðalánasjóður byði 90% lán þá átti samstarfsflokkurinn að stíga á bremsuna. Þetta hefur fyrrverandi forsætisráðherra, sem áður var fjármálaráðherra, viðurkennt að hafi verið mistök af hálfu Sjálfstæðisflokksins. En valdaþorstinn réði för í þessu eins og svo mörgu öðru bæði þá og nú og hagfræðingurinn Geir H. Haarde lét sína betri vitund víkja og Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti þenslutillögu Framsóknarflokksins. Það voru örlagarík mistök en án samþykktar fyrir því taldi Geir víst að helmingaskiptaflokkarnir myndu ekki ná saman um endurnýjun ríkisstjórnarsamstarfsins og gaf  flokkurinn því eftir.

Það má sannarlega segja að ræningjarnir innan bankanna beri megin þungann af því hvernig fór en undan því verður ekki vikist að eftirlitsstofnanir, FME og Seðlabankinn, Alþingi og ríkisstjórn Íslands brugðust einnig. Það er því einkennilegt að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis dragi ekki til ábyrgðar bæði stjórn Fjarmálaeftirlitsins né stjórn Seðlabankans.  Á það við um alla þá sem að þessum málum komu og alla þá sem þjóðin hafði kjörið í góðri trú til þess að gæta sinna hagsmuna en situr nú uppi með þá staðreynd að einu hagsmunirnir sem var verið að gæta voru flokkanna og félaganna.

Ennþá hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki upplýst um hverjir voru stærstu styrktaraðilar flokksins síðustu fjögur ár. Sá kattarþvottur sem flokkurinn bauð uppá dögunum var þeim til skammar og sýnir svo ekki verður um villst að í Valhöll búa mörg leyndarmál sem flokksmenn þar skammast sín svo mikið fyrir að þeir treysta sér ekki til að gefa það upp. Í gær og í dag hafa síðan liðsmenn þessa flokks komið fram eins og hvítþvegnir englar og borið af sér allar sakir sem á þá eru bornar í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, þrátt fyrir að bæði formaður og varaformaður flokksins virðast hafa notið óvenjulegrar fyrirgreiðslu í bönkunum. Það er því nauðsynlegt að í kjölfarið verði farið rækilega ofan í saumana á fjármálum allra núverandi þingmanna og ráðherra til að tryggja að ekki séu óeðlileg hagsmunatengsl til staðar.  

Almenningur má ekki láta fagurgala þessa fólks villa sér sýn. Því þó ábyrgðin liggi sannarlega innan bankanna þá bera þeir einstaklingar sem kosnir voru til að gæta hagsmuna þjóðarinnar líka mikla sök og þeir verða að koma fram og játa sína ábyrgð og víkja sæti þar sem það á við. Á það við um alla þá stjórnmálamenn sem að þessu máli hafa komið og þó helst þá sem mesta ábyrgð höfðu og voru í hringiðunni þegar mest gekk á.

Tími pissukeppna er liðinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband