Leita í fréttum mbl.is

Kveðjuræða á ársþingi KSÍ

Ég fullyrði það að siðareglur þær sem samþykktar voru í stjórn KSÍ fyrir áramót eru eitt það besta sem komið hefur frá stjórninni um langt árabil. Þar kristallast sá hugur sem stjórnarmenn starfa eftir, þar kristallast sú virðing sem KSÍ ber fyrir knattspyrnunni og þó þar sé ekki að finna sérstakar greinar um kreditkort eða klámbúllur þá ætti enginn sá sem les þessar reglur að velkjast í nokkrum vafa um hver sé afstaða KSÍ til slíkra mála.

Hér að ofan er hluti úr ræðu sem ég flutti á ársþingi KSÍ í dag, laugardaginn 13. febrúar 2010, í tilefni af því að ég hætti í stjórn KSÍ eftir 8 ára setu þar.  Ræðan öll fer hér á eftir.

Þingfulltrúi ágætu þinggestir,

Það er bæði með eftirvæntingu og eftirsjá sem ég kveð stjórn KSÍ þar sem ég hef starfað frá árinu 2002. Um leið og ég þakka ykkur, félagar mínir og vinir í knattspyrnuhreyfingunni, fyrir góða viðkynningu og skemmtilegt samstarf sl. 8 ár langar mig að lýsa þessum tíma, eins og hann horfði við mér í fáum orðum.

Afskipti mín af knattspyrnu hófust þegar ég var ung stúlka sem þvældist á alla fótboltaleiki með föður mínum, knattspyrnudómaranum, Þórsaranum og Framaranum Hinriki Lárussyni. Hjá pabba lærði ég að meta öfluga leikmenn eins og Elmar Geirsson, Guðgeir Leifsson, Árna Sveinsson og Sigga Dags. Þetta voru hetjurnar mínar í æsku en ég kunni líka skil á nokkrum helstu hetjum ensku knattspyrnunnar s.s. John Toschak, Andy Gray að ógleymdum Kevin Keegan.  Sem betur fer eiga ungar knattspyrnukonur í dag þess kost að horfa til leikmanna eins og Söru Bjarkar, Margrétar Láru, Þóru Helga og Fríðu Magg og er það vel.

Árið 1976 varð ég einn stofnenda ÍK í Kópavogi og barðist við stjórnendur þess félags, pabba m.a., um það í nokkur ár að þar yrði stofnaður flokkur sem væri skipaður stelpum. Því miður tókst það ekki og því lét ég mig hafa það að fara á æfingu hjá Breiðabliki í Kársnesskóla. Þar tók landsliðskonan Bryndís Einarsdóttir vel á móti mér og sparkaði mig niður þannig að ég steig ekki í hægri fótinn næstu vikurnar. Lauk þar með æfingaferli mínum með Breiðabliki.

En ég hef verið þekkt fyrir margt annað í gegnum tíðina en að gefast upp og þar sem gríðarlega mikill getumunur var á mér og Binnu Einars, Ástu B. og Rósu Vald þá tók ég dómarapróf árið 1981 eins og margir lélegir knattspyrnumenn og dæmdi allmarga leiki og var línuvörður í enn fleiri leikjum, bæði hjá körlum og konum. Það var þá fyrst sem mér blöskraði aðstöðumunurinn milli karla og kvenna því oftar en ekki var ég sjanghæuð á línuna vegna þess að dómararnir sem skipaðir höfðu verið mættu ekki til leiks, og létu ekki einu sinni vita af fjarveru sinni.

Einhvern dug hefur Ellert B. Schram, þáverandi formaður KSÍ, séð í mér því árið 1986 tók ég í fyrsta sinn þátt í starfi á vegum KSÍ. Ég tók þá sæti í kvennanefnd þar sem Svanfríður Guðjónsdóttir var formaður. Það ár lék íslenska kvennalandsliðið 6 æfingaleiki, alla hér heima við Sviss, Færeyjar og Þýskaland. Þrátt fyrir mikinn dugnað 22 ára stúlku árið 1986 var nærveru minnar ekki óskað frekar, en eftir að ég hafði skrifað mótmælabréf í Velvakanda árið 1988 var reynt að þagga niður í mér og ég send með U16 ára landsliði Íslands til Danmerkur. Ferðalagið var framandi  því við fórum siglandi með Norrænu til Danmerkur, þar sem liðið tók þátt í DanaCup. En, eins og þið sjálfsagt vitið þá hef ég aldrei kunnað það almennilega að þegja þannig að ég náði ekki að ljúka ferðinni með landsliðinu, sem náði góðum árangri í mótinu, og var send heim með næstu fraktvél ásamt Ragnari Marinóssyni, stjórnarmanni KSÍ. Hann var sjálfsagt mun sáttari við snemmbúna heimferð en ég!

Með ferðinni til Danaveldis lauk samstarfi mínu og KSÍ um stundarsakir. Ég tók þátt í stofnun Hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna, HKK, þar börðumst við gegn vindmyllum eins og Geir Þorsteinssyni, þáverandi framkvæmdastjóra KR og Eggerti Magnússyni formanni Vals, en einnig háðum við okkar baráttu við stjórn KSÍ, þar sem eitt meginmarkmiðið okkar var að kvennaliðin fengju að njóta þeirra sjálfsögðu réttinda að leika á grastakkaskóm þá sjaldan sem leikir þeirra fóru fram á grasi. Við börðumst fyrir því að stofnað yrði kvennalandslið, bikarleikur kvenna færi fram á Laugardalsvelli og að dómarar tækju starf sitt alvarlega þegar þeir dæmdu kvennaleiki.

Ég gerði ítrekaðar tilraunir til að komast í stjórn KSÍ og taldi mig hafa allt það sem þurfti til að ná árangri. Óbilandi áhuga á knattspyrnu, mikla réttlætiskennd og umtalsverðan tíma aflögu. Þrátt fyrir þessa hæfileika hafði ég ekki árangur sem erfiði fyrr en árið 2002, þegar konu var skipt út fyrir konu!

Þótti mér strax mikið til þess koma að vera meðal þessara háu herra í stjórninni, þarna voru samankomnir helstu og dýpstu viskubrunnar knattspyrnunnar, eins og Halldór B. Jónsson, Lúðvík Georgsson og Jón Gunnlaugsson, og eru þær ófáar sögurnar sem ég hef heyrt um þá sjálfa, sagðar af þeim sjálfum, á síðustu 8 árum. En mér varð það líka fljótlega ljóst að ég var ekki kosin þarna inn til að rífa kjaft.

Eggert Magnússon var held ég bara nokkuð klókur þegar hann setti mig í mótanefndina með Halldóri B. Jónssyni, þar lærði ég heilmikið, t.d. það að Halldór hefur oftar en ekki rétt fyrir sér og að mótamálin hafa ekki aðeins tvær hliðar. Þegar fram leið voru mér falin meiri og stærri verkefni. Unglinganefnd kvenna var stofnuð og ég varð fyrsti formaður hennar. Þar hef ég átt þess kost að starfa með öllum okkar efnilegustu og bestu knattspyrnukonum, leikmönnum sem gefa sig alla í verkefnið og koma fram fyrir land og þjóð af þeim sóma og stolti sem við sækjumst öll eftir. Þær eru óteljandi stundirnar þar sem ég hef staðið og fylgst með mínu liði og verið svo óendanlega stolt. Stærsta stundin er líkast til þegarU19 ára liðið tryggði sér farseðilinn í úrslitakeppni EM sl. vor.

En í landsliðsmálunum eru hliðarnar á peningnum ekki bara tvær frekar en í mótamálunum. Þar er að mörgu að hyggja og því miður hefur mér mistekist að koma því í gegn að KSÍ marki sér fastmótaða stefnu í málefnum yngri landsliðanna. Á ég þó til mörg plögg og mörg drög að slíkri stefnumótun. Bæði eru þetta gögn sem ég hef sjálf sett niður sem og það sem ég hef fengið frá öðrum. Þessi plögg hafa verið rædd á fundum unglinganefndar og þau hafa verið lögð inn til formanns og/eða framkvæmdastjóra þar sem þau hafa dagað uppi. Auðvitað átti ég að fylgja þessu máli eftir en einhverra hluta vegna tók alltaf næsta verkefni við og ekkert varð úr framkvæmd þessara göfugu markmiða.

Þegar Eggert Magnússon fór þess á leit við mig að taka að mér formennsku í fræðslunefnd af Lúðvík Georgssyni varð ég bæði stolt og hróðug með þá upphefð. Það hafa verið forréttindi að starfa með þeim fjölkunnugu mönnum sem þar hafa átt sæti og ég er ákaflega ánægð með að á undanförnum árum hefur fræðslunefnd KSÍ verið öðrum íþróttasamböndum fyrirmynd hvað varðar skipulag og starfsemi. En sá árangur sem náðst hefur í fræðslunefndinni er ekki síst að þakka þeim miklu viskubrunnum sem þar hafa setið, sem og starfsmanni nefndarinnar sem fyllti upp í allan vinnukvóta sinn og vel það aðeins örfáum dögum eftir að hann tók við starfi sínu.

Að frumkvæði UEFA hefur KSÍ tekist á hendur að auka hróður knattspyrnunnar á Íslandi með stofnun grasrótarnefndar, sem reyndar hlaut nafnið útbreiðslunefnd hjá okkur. Landshlutafulltrúar eru fulltrúar KSÍ á landsbyggðinni og þeir hafa verið vakandi og sofandi yfir velferð knattspyrnunnar á sínu landsvæði. Þeir hafa komið með óteljandi hugmyndir sem allar miða að því marki að efla veg knattspyrnunnar og hefur samstarf mitt við þessa ágætu herramenn verið þannig að hvergi hefur borið skugga á.

Það er ekki ætlun mín að telja hér upp allt það sem ég hef komið að sem fulltrúi í stjórn KSÍ. Samstarf mitt við þorra starfs- og stjórnarmanna hefur verið óaðfinnanlegt og kann ég þeim öllum miklar þakkir fyrir samstarfið. En þessi átta ár hafa ekki aðeins verið dans á rósum. Oft hef ég tekið slaginn við stjórnarmenn um hin ýmsu málefni. Í tíð Eggerts Magnússonar var það kannski ekki daglegt brauð en ég kann að meta það að Eggerti þótti það bara hið besta mál þegar menn voru ekki sammála. Hann hafði líka ágætt lag á að orða hlutina eins og þeir eru: „Ég meina, kommon!, það væri ekkert gaman að þessu ef allir eru sammála. Ef það eru deilur innan hreyfingarinnar þá veit maður a.m.k. að eitthvað er að gerast!" sagði hann stundum og bætti við að deilur væru hreyfiafl góðra hluta. Þó svona fullyrðingar gætu farið alvarlega í taugarnar á mann þá sé ég það alltaf betur og betur hversu rétt þetta er.

Sjáum t.d. þetta þing hér í dag. Reyndar liggja fyrir þinginu óvenju margar tillögur en á undangengnum átta árum hefur maður stundum haft á tilfinningunni að hægt væri að ljúka ársþinginu á einni til tveimur klukkustundum. Engar umræður hafa verið um skýrslu stjórnar og reikningar hafa ekki vakið mikla athygli. Kannski hefur hreyfingin sofið á verðinum, verið værukær og treyst stjórnendum KSÍ í blindni. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra.

Við vöknuðum enda öll upp við vondan draum sl. haust þegar við fréttum af því að kreditkorti í eigu KSÍ hafi verið stolið og misfarið með það í Sviss fyrir fimm eða sex árum. Ég frétti af þessu eins og aðrir í gegnum fjölmiðla og fylltist réttlátri reiði þegar mér varð það ljóst að samstarfsmenn mínir í stjórn og á skrifstofu sambandsins höfðu reynt að sópa máli þessu undir teppið og þegja það í hel. Það vaknaði hjá mér gamall baráttuhundur sem tók ekki máli þessu þegjandi. Ég heyrði í stjórnarmönnum, sem sóru af sér að þekkja til þessa máls. Því miður hafði formaður sambandsins mörgum persónulegum hnöppum að hneppa á þessum sama tíma og ræddi því aðeins við útvalda stjórnarmenn en lét þá „óæðri" velkjast í vafa um það sem kalla má hinar raunverulegar staðreyndir þessa máls.

Þetta voru harkaleg mistök af hans hálfu, en þegar við náðum saman um þetta mál og ég fékk að vita um staðreyndir þess, þá tók ég fullan þátt í því að verja heiður KSÍ. Persónulega hefði ég viljað ganga lengra en varð að lúta meirihlutavilja stjórnar og því fór sem fór.

Síðar þegar siðareglur, sem stjórnarmenn höfðu lagt talsverða vinnu í að semja, voru samþykktar og kynnar gerði yfirstjórn KSÍ sig seka um sömu mistökin aftur. Þ.e. að láta frá sér plagg með samþykktum án þess að kynna það almennilega og verja.

Ég fullyrði það að siðareglur þær sem samþykktar voru í stjórn KSÍ fyrir áramót eru eitt það besta sem komið hefur frá stjórninni um langt árabil. Þar kristallast sá hugur sem stjórnarmenn starfa eftir, þar kristallast sú virðing sem KSÍ ber fyrir knattspyrnunni og þó þar sé ekki að finna sérstakar greinar um kreditkort eða klámbúllur þá ætti enginn sá sem les þessar reglur að velkjast í nokkrum vafa um hver sé afstaða KSÍ til slíkra mála.

Knattspyrnan er fjölmennasta íþróttahreyfing landsins. Við öll sem hér erum inni höfum notið þess að leika, lifa og starfa innan hreyfingarinnar frá því við vorum börn. Við megum ekki láta einstaka atburði draga úr þeirri ánægju okkar. Knattspyrnan er fyrir alla og við gerum allt fyrir knattspyrnuna. Þannig hefur það verið, þannig er það og þannig á það að vera áfram. Stöndum saman vörð um þessa stórkostlegu íþrótt, berjumst saman fyrir sameiginlegum réttindamálum innan vallar og utan og sýnum svo ekki verður um villst að knattspyrnan er eitthvað sem allir geta samsvarað sig við.

Stjórnarmönnum öllum sem ég hef starfað með í gegnum tíðina færi ég bestu þakkir fyrir sérlega ánægjulegt samstarf. Það er lán KSÍ að á skrifstofunni starfa einstaklingar sem eru hver öðrum hæfari. Ég vil taka sérstaklega út tvo starfsmenn skrifstofunnar, starfsmenn sem eru KSÍ mjög mikilvægir en fá ekki alltaf það þakklæti sem þeim ber. Vil ég biðja ykkur um að klappa duglega fyrir systrunum Röggu og Möggu. Þeim sem og öðrum starfsmönnum færi ég mínar allra bestu þakkir fyrir samstarfið. Landsliðskonur okkar og þeir sem starfa að kvennalandsliðunum fá sömuleiðis kærar kveðjur og þakklæti frá mér fyrir frábæra viðkynningu. Árþinsfulltrúar fá kærar þakkir fyrir stuðninginn í gegnum tíðina.

Persónulega á ég knattspyrnunni mikið að þakka og ég mun halda áfram að starfa innan hreyfingarinnar í mörg ár enn.

Megi ykkur öllum farnast vel, innan vallar sem utan. Áfram Ísland! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er góð ræða Ingibjörg.Takk fyrir óbilandi baráttu þína fyrir hag kvennaknattspyrnurnar hér á landi.Vonandi halda menn áfram starfi þínu af heilhug ekki síst gegn einelti í knattspyrnunni hjá þjálfurum ganvart leikmönnum .Þar er víða pottur brotinn og skömm að.Það hef ég sannreynt.Bestu kveðjur og gangi þér allt í haginn.

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 13.2.2010 kl. 17:24

2 Smámynd: Kjartan Björgvinsson

Flott flott flott, þetta er ein besta ræða sem ég hef heyrt / lesið lengi. Hárbeitt en naldið innan marka þannig að hún hefur áhrif og verður ekki kastað til hliðar. Til hamingju.

Kjartan Björgvinsson, 13.2.2010 kl. 21:31

3 Smámynd: Sveinn Elías Hansson

Hvers vegna var ekki tekið neitt á klámbúlluferðinni innan KSÍ.

Hefur Geir eitthvað að fela.

Hjá flestum fyrirtækjum hefði þessi fjármálastjóri verið rekinn, en ekki hjá Ksí. Hvað er verið að fela?

Sveinn Elías Hansson, 14.2.2010 kl. 14:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband