Leita í fréttum mbl.is

Ástandið

Ætli setningin „að vera komin í ástandið“ fái ekki nýja merkingu í fyllingu tímans. Eins og þeir sem komnir eru fram yfir miðjan aldur og þeir sem lesið hafa sér til um tíma síðari heimsstyrjaldar á Íslandi þá voru þeir sem unnu fyrir erlenda heri á Íslandi, breska eða bandaríska, komnir í ástandið en ef orðatiltækið var haft um konur þá var það í nokkuð annarri merkingu. Ég tel víst að í fyllingu tímans muni þeir sem lenda hvað verst út úr þeim tímum sem nú eru uppi taldir hafa lent í ástandinu.

Persónulega þá tel ég íslenska stjórnmálamenn, sér í lagi ráðherrana okkar, ekki vera í öfundsverðum sporum nú um stundir. Mest hefur greinilega mætt á forsætisráðherra og viðskiptaráðherra sem nú róa að því öllum árum að minnka þann skaða sem íslenska þjóðarbúið mun klárlega verða fyrir. Daglega í þessari viku hefur maður sest niður fyrir framan sjónvarpið og fylgst með blaðamannafundum þeirra félaga Geirs og Björgvins og ég hef dáðst að því hversu vel þeir standa sig báðir við aðstæður sem borið margan manninn ofurliði. Yfirleitt hafa fjölmiðlamenn hagað sér skikkanlega á fundum og spurt vitrænna spurninga en í dag var það ekki alltaf uppi á teningnum.

Einn blaðamaður spurði um jafnréttissjónarmið í kreppunni!! Veistu ég gef ekki rassgat fyrir jafnréttissjónarmið í þeirri stöðu sem nú er uppi og er þetta sagt í fullri virðingu fyrir konum og körlum. Þeir sem gefa sig í starfið, veljast í það eða eru til þess beðnir eru vel þegnir að mínu mati, skiptir þá engu hvort þeir séu kvenkyns, karlkyns eða hvorukyns. Spurningin var fáránleg og vakti hjá mér vott af reiði. Einnig verð ég að segja að þó uppi séu hvatningar um að bankastjórar Seðlabankans eigi að segja af sér, og ég get sannarlega tekið undir þá skoðun, þá finnst mér fáránlegt að spyrja um það á blaðamannafundi eins og þeim sem haldinn var í dag. Tími Davíðs Oddssonar og félaga hans, blýantsnagaranna á Kalkofnsveginum, er liðinn og það er hverjum ljóst að þeir munu yfirgefa svarta húsið fyrr en þá óraði fyrir.

Því fyrr sem Davíð og co yfirgefa Seðlabankann er þeim mun betra fyrir íslenska þjóðarbúið en menn skulu ekki halda að Geir og Björgvin gefi út þær yfirlýsingar á blaðamannafundi, ég gæti hins vegar trúað því að FME taki yfir stjórn Seðlabankans í nótt, það væri þá í takti við fyrri nætur þessarar viku.


Átta milljarðar eða meira!

Mörg af stærri sveitarfélögum landsins hafa boðað aðgerðaráætlanir sem miða að því að tryggja grunnþjónustu og að komið verði í veg fyrir framkvæmdastopp. Meðal sveitarfélaganna eru Reykjanesbær og Reykjavík, bæir sem eru undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, líkt og Kópavogur (maður nennir varla að telja Ómar með sem annars flokks mann lengur).

Borgarstjórn virðist hafa brugðist við af mestu festu, þar er búið að samþykkja aðgerðaráætlun og lagt út með að ná fram sparnaði í innkaupum auk þess að tryggja grunnþjónustu og að ekki komi til framkvæmdastopps.

Það er helst að frétta úr Kópavogi að bærinn hefur tekið risastór erlent lán í júní að fjárhæð 35.000.000 evrur á genginu 35 punktar yfir EURIBOR. Einnig hefur bæjarráð samþykkt að taka 5.000.000 evru lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga og 10.000.000 evru erlent lán en tvö síðastnefndu lánin var samþykkt að veita bæjarstjóra heimild til að taka á fundi bæjarráðs þann 16. september sl. Ekki koma fram frekari skýringar á ástæðu lántakanna í fundargerðum bæjarráðs.

Ef einföld reikniregla er notuð á gengi þessara lána sem samtals eru 50 milljónir evra þá eru þau samsvarandi 4 milljörðum íslenskum krónum ef gengi evru væri 80 krónur en miðað við gengi dagsins í dag (sem þó er óráðið) þá eru þau nær 8 milljörðum miðað við að gengi evru sé 160 krónur.

Mín spurning er, hvað hefur Gunnar að gera við alla þessa peninga ... maðurinn sem hefur stært sig af ríflega milljarðs króna hagnaði af rekstri bæjarins á hverju ári undanfarin ár?


Frostið oss herði

Ísland

Þú nafnkunna landið sem lífið oss veittir,
landið, sem aldregi skemmdir þín börn,
hvert þinnar fjarstöðu hingað til neyttir,
hún sé þér ódugnaðs framvegis vörn.

Undarlegt sambland af frosti og funa,
fjöllum og sléttum og hraunum og sjá,
fagurt og ógurlegt ertu þá brunar
eldur að fótum þín jöklunum frá.

Fjör kenni oss eldurinn, frostið oss herði,
fjöll sýni torsóttum gæðum að ná.
Bægi sem kerúb með sveipanda sverði
silfurblár ægir oss kveifarskap frá.

       Bjarni Thorarensen


Hvar hef ég verið?

Það er ekki nema von að spurt sé. Ekkert bloggað í tvær vikur og sumir bloggvinir farnir að óttast þó ekki hafi þeir haft fyrir því að senda manni fyrirspurn um fjarveruna. Hvað um það. Ætli mín hafi ekki bara verið í landinu helga, Ísrael, þar sem hún fetaði í fótspor Jesú Krists og lærisveinanna.

Tilgangur ferðarinnar var þó alls ekki sá að boða fagnaðarerindið en það tókst þó engu að síður þar sem það kom í minn hlut að fræða ungar knattspyrnustúlkur um kristinsögu og rifja upp fyrir þær helstu kraftaverk sem um er getið í Biblíunni. Tían sem ég fékk reglulega í kristinfræðum í Digranesskóla í gamla daga skilaði sér sem sagt fyrir rest!

Annars var það skemmtilegt að fræða stelpurnar um þá staði sem við heimsóttum, m.a. sáum við heimabyggð Símons Péturs Jónassonar, sem Jesús gerði að leiðtoga kirkjunnar.

Hann spyr: En þér, hvern segið þér mig vera?

Símon Pétur svarar: Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.

Þá segir Jesús við hann: Sæll ert þú, Símon Jónasson! Hold og blóð hefur ekki opinberað þér þetta, heldur faðir minn á himnum. Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum.

Eftir að ég hafði rifjað upp þessa sögu með knattspyrnustúlkunum ungu spurði ég þær hvort þeim þætti þetta ekki merkilegt, að vera á þessum stað? Og það stóð ekki á svari: „Nei, þetta er hundleiðinlegt!“ - Það olli mér þó engum áhyggjum, þær munu meta þetta síðar!

Ekki má gleyma því að Jesús gekk á Galileu vatni og hann lægði storm sem gerði fiskimönnum þar lífið leitt. María magðalena átti heima við Galileu vatn og við vatnið eru líka Gólanhæðir sem eiga sér örlítið yngri sögu í huga okkar, en Ísraelar hernámu þær af Sýrlendingum árið 1967, í sex daga stríðinu.

Meðal þeirra staða sem við heimsóttum var kirkja hinna fátæku en á leið okkar að henni rákumst við á ritninguna: "Sælir eru fátækir í anda því þeirra er himnaríki." Myndin hér að neðan er einmitt tekin við þá kirkju, þarna sér yfir Galileu vatn en niðri við vatnið hægra megin við mig er talinn vera bústaður Maríu magðalenu.

U19 Israel 123

U19 Israel 124
Kirkja hinna fátæku við Galileu-vatn.


Fló á skinni

ImageSíðastliðið föstudagskvöld fór ég á leikritið Fló á skinni í uppfærslu Leikfélags Akureyrar ásamt systrum mínum, mágum og foreldrum. Núverandi leihússtjóri Borgarleikhússins og fyrrverandi leikhússtjóri LA flutti sýninguna suður og gengur hún nú í höfuðstaðnum fyrir fullu húsi um hverja helgi. Miðað við upplifun mína af leikritinu þá er það engin furða.

Árið 1972 setti Leikfélag Reykjavíkur verkið upp og þá fóru foreldrar mínir ásamt okkur systrum á verkið. Ég man enn eftir því hvað okkur þótti verkið skemmtilegt, Þorsteinn Erlingsson lék holgóma manninn (að mig minnir) og fór hann alveg á kostum. Við systur hermdum eftir honum í margar vikur á eftir. Í minningunni var hraðinn í verkinu árið 1972 ekki alveg eins mikill og er í því í dag en að þessu sinni er það í nýrri þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar en þýðingin frá 1972 var í höndum Vigdísar Finnbogadóttur.

Á laugardagskvöld fóru síðan systkinabörn mín og tengdabörn í leikhúsið 8 saman og skemmtu sér konunglega. Það er því engu logið þegar sagt er að verkið brúi kynslóðabil margra kynslóða.

Ég hvet alla sem hafa vott af húmor til þess að fara á þessa sýningu. Hún er stórfengleg. Guðjón Davíð Karlsson fer á kostum í hlutverkum sínum og það sama má segja um alla aðra leikara sem voru hver öðrum betri. Þýðing Gísla Rúnars er mögnuð eins og við var að búast, staðfærð og skemmtileg, þó örlaði á því hjá mér í leikhúsinu að það hefði verið hægt að staðfæra verkið uppá nýtt miðað við nýtt leikhús. Flytja verkið allt suður yfir heiðar!

Leikfélagi Akureyrar, Maríu Sigurðardóttur leikstjóra og öllum þeim sem að verkinu koma óska ég til hamingju með stórkostlega fyndið og skemmtilegt verk.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband