Leita í fréttum mbl.is

Sameinumst gegn fordómum

Dagana 3. og 4. mars sl. átti ég þess kost að sækja 3. ráðstefnu Evrópska knattspyrnusambandsins og fleiri aðila um kynþáttafordóma, Unite Against Racism, sem haldin var í Varsjá í Póllandi. Var ráðstefnan ákaflega fróðleg en þó við hér á Íslandi teljum okkur ágætlega sett varðandi fordóma af ýmsu tagi þá megum við ekki sofna á verðinum og því er ráðstefna sem þessi þörf og gagnleg fyrir knattspyrnuforystuna.

Á undanförnum árum hefur stjórn KSÍ sett sér markmið sem ætlað er að draga úr og koma í veg fyrir fordóma af ýmsu tagi. Má þar m.a. nefna að:

  • KSÍ hefur nýlega orðið þátttakandi í grasrótarverkefni UEFA og í gegnum það er m.a. unnið að því að fjölga möguleikum minnihlutahópa til þátttöku í knattspyrnu.
  • KSÍ hefur komið á fót jafnréttisnefnd sem hefur það markmið að vinna gegn öllu misrétti, hvort sem það er misrétti kynja, kynþátta, milli trúarbragða, kynhneigðar o.s.frv. Á síðasta ársþingi veitti stjórn KSÍ tvenn verðlaun að tillögu nefndarinnar, annars vegar til ÍR sem vinnur eftir metnaðarfullri stefnu og hins vegar til Víðis Sigurðssonar sem í næstum 30 ár hefur skrifað sögu knattspyrnunnar í árbækur sínar og gætt þar jafnan að því að halda í heiðri öllum þeim sem iðka knattspyrnu.
  • KSÍ vinnur að aukinni þátttöku innflytjenda í samvinnu við Alþjóðahús og hefur gefið út bækling þar sem hvatt er til aukinnar þátttöku á nokkrum tungumálum. Þessi bæklingur liggur frammi bæði hjá KSÍ og í Alþjóðahúsi en það er vinsæll áfangastaður innflytjenda.
  • KSÍ styður við og hvetur félög til að bjóða uppá verkefni fyrir minnihlutahópa, s.s. innflytjendur og fatlaða. Einnig vinnur KSÍ náið með Íþróttafélagi fatlaðra og heldur á ári hverju sérstakar æfingar þar sem fötluðum einstaklingum er boðið að mæta og æfa með landsliðsmönnum Íslands, bæði konum og körlum.
  • Um páskana mun fara fram alþjóðlegt knattspyrnumót samkynhneigðra og hefur KSÍ stutt framkvæmdaaðila mótsins með ýmsu móti.

Eins og fyrr segir þá eru ofbeldi og kynþáttafordómar sem betur fer sjaldgæfir í knattspyrnu á Íslandi. Þegar slík tilfelli hafa komið upp hefur KSÍ mætt þeim af mikilli hörku enda er það stefna sambandsins í samræmi við stefnu UEFA um „Zero Tolerance" - „Algjört óþol". Þar skiptir miklu að allir standi saman KSÍ, leikmenn, þjálfarar, stjórnarmenn, dómarar og samtök stuðningsmanna.

Hér fyrir neðan má sjá tengla á nokkrar vefsíður þar sem finna má upplýsingar um starfsemi samtaka sem beita sér gegn fordómum í knattspyrnu.

http://www.farenet.org/ - http://www.theredcard.org/ - http://www.kickitout.org/ - http://www.furd.org/  - http://www.fifpro.org/

Ingibjörg Hinriksdóttir, er eigandi þessarar bloggsíðu og formaður fræðslunefndar og útbreiðslunefndar KSÍ. Grein þessi birtist á vef KSÍ, föstudaginn 6. mars.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Lofsvert framtak en rasismi er nokkuð sem á ekki heima í knattspyrnu né annars staðar. Ég vil þó benda á að hér hafa komið upp tilvik kynþáttafordóma í knattspyrnu t.d. varð blökkumaður sem lék með liði ÍBV fyrir kynþáttafordómum stuðningsmanna FH nú í fyrra. Viðbrögð stjórnar FH voru ekki viðunandi enda tókst ekki að upplýsa hverjir stóðu á bak við rasismann og enginn var settur í bann.

Jafnrétti kynjana hefur þó aukist hér töluvert í boltanum undanfarin ár og er nú meira fjallað um kvennaknattspyrnuna en áður. Einkum tel ég að það megi rekja til frábærrar frammistöðu Margrétar Láru Viðarsdóttur á knattspyrnuvellinum en það hefur verið frammistaða sem hreinlega hefur ekki verið hægt að líta framhjá af hálfu fjölmiðla.

Hilmar Gunnlaugsson, 7.3.2009 kl. 16:07

2 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sæll Hilmar, ég tek hjartanlega undir með þér að fordómar eiga ekki heima í knattspyrnu né annarsstaðar. Og já, það hafa komið upp dæmi um kynþáttafordóma í knattspyrnuleikjum hér heima. Ég ætla ekki að fara út í einstök dæmi en ég veit það með fullri vissu að það hefur verið tekið mjög ákveðið á slíkum tilfellum, bæði á vettvangi KSÍ, innan félaganna og fjölmiðlar hafa fylgt slíkum málum vel eftir. Hvort það er nóg er síðan annað mál en kynþáttafordómar eru sem betur fer ekki viðvarandi vandamál hér á landi. Það er góður árangur.

Ég geri ráð fyrir að þú vitir það vel að árangur okkar í jafnréttisumræðunni hefur tekið langan tíma og krafist mikillar vinnu og eftirfylgni af fjölda fólks. Auðvitað hefur árangur Margrétar Láru hjálpað til á síðustu árum og hennar árangur er vitaskuld svo stórkostlegur að ekki aðeins fjölmiðlamenn hafa hrifist með, það hefur öll þjóðin gert. Margrét Lára var að fæðast þegar fyrstu samtök knattspyrnukvenna voru stofnuð, hún er því ein fjölmargra knattspyrnukvenna sem hafa notið þeirrar baráttu sem fyrirrennarar þeirra hafa staðið fyrir síðustu 30 árin. Af þeirri baráttu erum við öll stolt og það held ég að Margrét Lára og aðrar landsliðskonur okkar séu líka.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 7.3.2009 kl. 16:16

3 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Þakka þér fyrir svarið Ingibjörg mín.

Ég hef þá trú að íslenska kvennaknattspyrnan muni á tíma Evrópumótsins ná fullri athygli fólks og að þá verði stigið annað skref til aukins jafnréttis.

Hilmar Gunnlaugsson, 7.3.2009 kl. 16:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband