Leita í fréttum mbl.is

Lýðræðislegur og opinn flokkur?

Í færslunni hér að neðan velti ég því fyrir mér hvort flokkarnir, sem nú eru í stjórnarandstöðu, hafi tekið á sínum innanhússmálum í kjölfar efnahagshrunsins. Í raun er mín niðurstaða sú að það hafi flokkarnir gert að hluta til, hver með sínum hætti. En hvað með hina flokkana tvo, þá sem nú mynda ríkisstjórn? Ég ætla að geyma flokkinn minn, Samfylkinguna, þar til síðast og byrja á Vinstri hreyfingunni grænu framboði.

Það er ekki að sjá að VG telji að þau þurfi að taka neitt til í sínum ranni vegna efnahagshrunsins. Er það miður því það verður ekki framhjá því litið að innan flokksins er að finna alþingismenn sem hafa verið lengi á þingi og með beinum eða óbeinum hætti tekið þátt í að móta það samfélag sem fór á hliðina. Á síðustu vikum hef ég margoft farið á Austurvöll og tekið þátt í mótmælum sem þar fór fram. Einu stjórnmálamennirnir sem ég sá þar og þekkti áttu það sameiginlegt að vera í flokki VG. Á Austurvelli var krafan um breytingar og endurnýjun fremst allra krafna. Þar var lagt upp með að skipta um ríkisstjórn, stjórn Fjármálaeftirlitsins og stjórn Seðlabankans. Það var líka gerð krafa um það að menn öxluðu pólitíska ábyrgð og að menn könnuðust við það að hafa verið meðal áhafnar á þjóðarskútunni þegar henni var siglt í strand. Á næstu dögum mun VG kynna hvernig skipað verður á lista hjá þeim fyrir næstu þingkosningar. Mér býður svo í grun að þar verði ekki mikið um ný andlit og að þar verði ekki mikil endurnýjun. Enn sem komið er hefur enginn þingmaður VG lýst því yfir að hann muni draga sig í hlé og það lítur allt út fyrir að VG muni bjóða upp á gamalt vín á gömlum belgjum í kosningunum.

Þá sný ég mér að mínum flokki, Samfylkingunni. Ég hef kannski ekki verið nægilega dugleg við að tjá mína skoðun á framferði minna flokkssystkina, en ég get sagt það hér að síður en svo hef ég verið í einhverjum húrrahrópum og halelúja gír á síðustu vikum eða mánuðum yfir framgöngu Samfylkingarinnar. Að hluta til má segja að það sé vegna þess að formaður flokksins hefur átt við alvarleg veikindi að stríða og það er mér ekki eðlislægt að ráðast á garðinn þar sem hann er veikastur fyrir. Hitt er annað, svo ég grípi til fótboltalíkingar, að mín skoðun hefur verið og er enn sú að ef maður er að tefla fram liði sem maður ætlast til að nái árangri þá þýðir ekki að tefla fram fótbrotnum leikmanni í jafn þýðingarmiklum leikjum og leiknir hefur verið hér á Íslandi undanfarnar vikur. Það þýðir heldur ekki að tefla fram leikmönnum sem enginn treystir, hvorki þjálfarinn, fyrirliðinn eða aðrir í liðinu. Það er ekki heldur hægt að tefla fram leikmönnum sem rjúka í blöðin og segjast ekki vilja klára keppnistímabilið og vilja að það sé stytt. Slíkir leikmenn dæma sjálfa sig úr leik með það sama og þeir verða að axla ábyrgð á þessum orðum sínum með því að stíga til hliðar og biðja um skiptingu.

Ég held að það þurfi enga sérfræðinga til að sjá að hér er ég að tala um formann Samfylkingarinnar, varaformann og þá tvo ráðherra sem lýstu því yfir fyrir áramót að réttast væri að boða til kosninga.

En þetta er liðin tíð, lítum til framtíðar, hvernig ætlar Samfylkingin að takast á við kröfur um endurnýjun? Eftir því sem ég fæ best séð þá ætlar Samfylkingin ekki að takast á við þær kröfur, tveir þingmenn hafa tilkynnt um brotthvarf sitt og þar með er það upptalið. Um helgina komu fréttir af því að nafna mín vildi halda áfram að vera formaður, hún vill að Jóhanna verði forsætisráðherra og það er ljóst að um langa tíð hefur hún lagt drög að því að Dagur taki við þegar hennar tíð lýkur. Í mín eyru hljómar þetta ekki vel, svo vægt sé til orða tekið. Það má vel vera að þetta verði niðurstaðan. En ég, sem óbreyttur flokksmaður, kæri mig ekki um að formaður flokksins stýri flokkadráttum með þessum hætti það er ekki lýðræðislegt. Það er í höndum almennra flokksmanna að taka afstöðu til þessa og formaðurinn á að treysta okkur til þess að taka sjálfsæða afstöðu til þess hverjir eiga að leiða flokkinn til forystu í næstu ríkisstjórn, komi til þess.  

Það er ekki til í huga mér að segja mig úr Samfylkingunni vegna þess að mér mislíkar við gjörðir forystunnar. Ef það væri möguleiki þá væri ég löngu farin úr flokknum. Ég vil hins vegar ekki sitja á þeirri skoðun minni og margra annarra flokksmanna að þessi aðferðarfræði er ekki vænleg til árangurs og sannast sagna minnir hún helst á stjórnunarhætti fyrrverandi seðlabankastjóra. Það er alveg klárt í mínum huga, að það er ekki í anda lýðræðislegs og opins jafnaðarmannaflokks.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Gæti ekki verið meira sammála þér.

Ingibjörg viðurkenndi í gær að IMF hafi varað við hruninu í apríl en stjórnvöld ekkert gert.

Ingibjörg viðurkenndi í gær að hún hefði átt að fara í veikindaleyfi en ekki að reyna að stýra flokknum af sjúkrabeði.

Ingibjörg viðurkenndi í gær að hún hefði átt að slíta stjórnarsambandinu fyrr en hún gerði.

Menn hafa stigið til hliðar fyrir minni sakir.

Sigurður Haukur Gíslason, 2.3.2009 kl. 21:32

2 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Ingibjörg ef við höldum áfram með fótboltalíkingu, þá er ég að velta fyrir mér ef Ingibjörg er þjálfarainn er ekki alveg út í hött að sparka þjálfara á loka sprettinum ef að ekki er ljóst hvern þú ætlar að láta taka við? Er það ekki einmitt það sem er að? Sé engan sem akkúrat núna er heppilegri til að taka við. Það er talað um Dag en ég held að hann þurfi að koma að flokknum í betra formi. Og eins þarf í svona tilfelli að endurskipuleggja hlutverk eins og t.d. varaformanns sem hefur verið algjörlega máttlaust hjá Samfylkingunni. Þar þarf að koma á betra og skýrara samstarfi milli formanns og varaformanns. Eins held ég að það sé ljóst að Jóhanna mun varla sitja allt næsta kjörtímabilið og þá þarf að vera ljóst hver sé tilbúin(n) til að taka við.

Sigurður ef að Ingibjörg hélt að stofnanir okkar væru að vinna að því að bregðast við aðvörunum hvað var þá að því sem hún gerði? Minni á að hún var utanríkisráðherra. Það var annarra að fylgjast betur með þar.

Það var varla Ingibjargar einnar að taka ákvarðanir varðandi stjórnaslit. Hún er nú óvart ekki einræðisherra heldur á að endurspegla vilja flokksins, þingmanna og ráðherra flokksins. Það er nokkuðu ljóst að hún hékk í þessu sambandi til að koma ESB málum á hreyfingu eða í höfn. En Sjálfstæðismenn voru svo lengi að koma sér að verki varðandi það að flokkurinn eins og þjóðin sprakk á biðinni.

Finnst það nú furðuleg árátta að hún verði ein formanna að taka ábyrgð. Enginn annar formaður fer frá af þeirri ástæðu. Geir fer vegna veikinda. Guðni varð reiður vegna ESB umræðu í framsókn. Og Sigmundur gekk í flokkinn korter fyrir Landsfund og hafði ekki verið í framsókn nema í korter þegar hann var orðinn formaður. Menn vissu varla fyrir hvað hann stóð. 

Steingrímur verður áfram. Og Guðjón verður formaður flokks sem verður fyrrverandi þingflokkur.

Magnús Helgi Björgvinsson, 2.3.2009 kl. 22:18

3 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Maggi, í mínum liði er Ingibjörg Sólrún aðeins einn af leikmönnunum, jú hún er fyrirliði sem heilsar fyrirliða hins liðsins í upphafi leiks, mætir á blaðamannafundina og stendur vörð um sitt lið, þjappar því saman og blæs því anda í brjóst. Þjálfarinn, eða öllu heldur þjálfararnir, erum við ... liðsmenn Samfylkingarinnar! Í raun er þó ábending þín ágæt, því þú virðist líta á okkur liðsmennina sem einhverskonar klappstýrur eða stuðningsmenn liðsins. Þannig líður mér alls ekki en það getur einmitt verið meinið sem ég var að reyna að benda á í færslunni. Það má ekki líta á okkur sem stuðningsmenn sem standa við sitt lið fram í rauðan dauðann. Við eigum líka að standa vaktina, gagnrýna og klappa þegar það á við. Það getur verið að sumum finnist tilþrifin í vörninni betri en í sókninni og sumir horfa aðeins á miðvallarleikmennina eða markmanninn.

Ég hef oft sagt það að eitt það hættulegasta sem nokkur stjórnmálamaður gerir það er að sópa að sér "stuðningsmönnum/klappliði" þá fyrst mun sá hinn sami missa tengsl við raunveruleikann. Það er hverjum manni hollt að hafa sér við hlið sinn helsta andstæðing, gagnrýnanda því þannig er maður á tánum og það virðist hafa vantað í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Menn voru ekki nægilega gagnrýnir og inni í innsta hring virðist sem menn hafi haldið dauðahaldi í valdið, valdsins vegna. Það var, er og verður alltaf slæmur kostur!

Ég nefndi það hvergi í minni færslu að Ingibjörg ætti ein að axla ábyrgð, mér fannst og finnst að hún hefði átt að stíga til hliðar þegar henni var kippt úr hinu daglega amstri vegna veikindanna. Það að hún gerði það ekki verður ekki breytt héðan af. Hina endanlegu ábyrgð mun hún eins og aðrir þingmenn og flokkurinn gera í komandi kosningum.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 2.3.2009 kl. 22:43

4 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Það sem Magnús og aðrir dyggir stuðningsmenn Samfylkingarinnar verða að átta sig á er að nú er u.þ.b. helmingur kjósenda óákveðinn. Ég er ekki viss um að þessir kjósendur séu tilbúnir að fyrirgefa Ingibjörgu svo glatt.

En það kemur í ljós 25. apríl. 

Sigurður Haukur Gíslason, 3.3.2009 kl. 00:59

5 identicon

Mikið er ég hjartanlega sammála þessari greiningu. Ég hef verið að benda á þá staðreynd að innan míns flokks hafi gjörsamlega ekkert verið hlustað á eitt né neitt...engra breytinga er þörf. Forysta flokksins hefur verið samfeld frá 1999 án breytinga, að vísu hefur sökum fylgisaukningar bæst í, en endurnýjunin hefur engin verið. Ef ekki er réttur tími til smá endurnýjunnar þá hvenær. Eftir 4 ár...eftir átta ár.

Ég vona svo sannarlega að flokkurinn velji einhverja endurnýjun, ef ekki þá hræðist ég mikið fylgistap frá skoðanakönnunum. Yet again

Gunnar Sigurðsson (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 11:16

6 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Ingibjörg

Ingibjörg Sólrún er dugleg að aðlagast og með því sem hún hefur sagt í fjölmiðlun undanfarið hefur hún lagt grunninn að því að endurheimta það traust sem henni var sýnt í síðustu kosningum og vonandi gott betur.  Jón Baldvin er meistari pólitískra kenninga og greininga, en spurningin er hvort að hann sé góður leiðtogi.  Ég get tekið undir gagnrýni hans, en samt hefði maður kosið að hann færi ekki í formannsslag við Ingibjörgu Sólrúnu, heldur þjappaði sér við hlið hennar og stefndi á gott sæti í prófkjöri.  Sérstaklega væri það slæmt ef að sá sem tapar í þessum formannsslag dytti svo út úr flokknum eða einhver klofningur myndaðist.  Kraftana þarf að nýta í annað en slíkt.  Vonandi eru það óþarfa áhyggjur. 

Sjáumst annars vonandi á einhverjum framboðsfundanna.

Bestu kveðjur - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 3.3.2009 kl. 16:37

7 Smámynd: Þórarinn M Friðgeirsson

Ég er á því að tími Ingibjargar Sólrúnar sé liðinn en hvað veit ég svo sem sjallinn sjálfur sem hefur stórar áhyggjur af því að minn flokkur sé ekki tilbúinn í þá endurnýjun sem þarf í dag ?? Ég er á því að það sem er í gangi í dag sé ekki þjóðinni til framdráttar, það á að loka þá sem kjörnir voru til starfa á alþingi inni og ekki hleypa þeim út hvar í flokki sem þeir standa fyrr en einhverjar raunhæfar tillögur koma um lausnir á vanda heimilanna og fyrirtækja þessa lands. Kosningar í því árferði sem hér er eru hreint glapræði og flótti frá raunveruleikanum. En það er mitt mat og þarf ekki að endurspegla mat þjóðarinnar en maður spyr sig til hvers að kjósa einhvern á þing ef hann getur hvenær sem honum leiðist þófið stokkið af vagninum ????

Þórarinn M Friðgeirsson, 3.3.2009 kl. 18:08

8 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Svanur, hjartanlega er ég sammála þér. En varðandi Jón Baldvin þá hef ég persónulega engar áhyggjur af því að hann verði kjörinn formaður. Ábendingar hans eru hins vegar allra góðra gjalda verðar og við verðum að vera gagnrýnin í allri okkar hugsun, ekki aðeins út á við heldur líka, og ekki síst, inná við. Ef við þolum ekki gagnrýni frá okkar félögum þá býð ég ekki í gagnrýni frá öðrum.

Við megum ekki verða flokkur þar sem foringjanum skal fylgt út yfir gröf og dauða. Ég var ansi oft hundfúl út í flokkinn minn í vetur þegar við vorum enn að lufsast með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn. Það sést ágætlega á þeim færslum sem ég setti hér á vefinn. En um leið og við gagnrýnum okkur sjálf og aðra þá verðum við líka að vera menn til að viðurkenna ef við höfum haft rangt fyrir okkur. Það ferli er algjörlega eftir hjá okkar þingmönnum og það er alveg klárt að traust kjósenda verður ekki unnið aftur ef flokkurinn gengur ekki auðmjúkur og iðrandi til þessara kosninga. Hroki og sjálfsupphafning er næg í öðrum flokkum, við höfum ekkert við slíkt að gera.

Tóti, mikið óskaplega var gaman að sjá athugasemdina frá þér við fyrri færslunni. Það var eiginlega þín vegna sem ég setti þessa inn strax! Það má vera að tími nöfnu minnar sé liðinn, mitt mat sést ágætlega hér að ofan, hún átti að stíga til hliðar fyrir áramót, hugsa um sína heilsu og ganga síðan fílefld til þessara kosninga. Ég get ekki tekið undir þér varðandi kosningarnar. Það þarf að endurbyggja traust og það verður ekki gert öðruvísi en með því að þjóðin veiti endurnýjað umboð til stjórnar hér heima. Þeir sem stökkva af vagninum eiga að mínu mati sér ekki viðreisnar von, en það eru margir ósammála mér þar!

Ingibjörg Hinriksdóttir, 3.3.2009 kl. 21:26

9 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ég er alveg sammála þessu mati þínu Ingibjörg varðandi flokksforyngja og þessi sjálfsgagnrýni er mjög holl.  Vinur segir til vamms og því þarf að fylgja.

Það væri alger blindni að sjá ekki að umboð Sjálfstæðisflokksins var fallið.  Forsendur kosninganna 2007 eru gjörbreyttar og brostnar.  Sá stjórnmálamaður sem sér það ekki á ekki skilið að sitja á þingi.

Svanur Sigurbjörnsson, 3.3.2009 kl. 22:38

10 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hæ!Það er nú líka gott að hafa reynda menn í pólitíkinni eins og boltanum. Leit hér inn,sá að þú hefur sama mann að geyma eins og ég hef ætíð þekkt þig,taka tillit til þeirra sem liggja á vellinu,sýna þeim ekki rauða spjaldið. Annars til gamans man ég ekki eftir neinum flokksformanni sem hefur þetta viðkunnanlega glettna bros eins og nafna þín hefur.  Varð áþreyfanlega var við Ömma (ráðherra)í dag,greiddi kr.230- fyrir blóðtökuna í dag,en kr.470- öll hin skiptin.    Að lokum hvað geri ég pólitískt viðrini ef ég lifi kosningar í vor???? Hef alltaf haft mætur á Degi síðan hann tengdist fjölskyldunni.   Ekki búið að breyta kosningareglum þannig að maður geti kosið menn,þá veldi ég þá ættingja mína sem ég trysti til góðra verka, það tengist ekki  "hvað geturðu gert fyrir mig og mína"þekki þannig fyrirgreiðslur frá fyrri tíð,og menn stærðu sig af, tengdist þá oftast lánum sem erfitt var að fá. Bíð góða nótt. P.S.

Helga Kristjánsdóttir, 3.3.2009 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 129526

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband