Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Stóll eða ekki stóll ... þar er efinn!

Það er vandlifað í henni veröld. Umsókn íbúa Kópavogsbæjar um að reka einn hárgreiðslustól í bílskúrnum heima hjá sér var felld eftir að meirihluti bæjarstjórnar ákvað að gera málið að pólitísku bitbeini. Allt í einu ákveður meirihlutinn að örfárra nokkurra íbúa í næsta nágrenni dugi til að meina íbúanum að nýta eignarrétt sinn.

Málið er allt hið undarlegasta og í raun ein sorgarsaga, en umsókn hárgreiðslumeistarans hefur verið að velkjast í stjórnkerfi Kópavogsbæjar allt frá árinu 2003. Það er erfitt að ímynda sér að einn hárgreiðslustóll muni valda meira ónæði en t.d. daggæsla 4-5 barna, en það er starfsemi sem ekki þarfnast breytingar á deiliskipulagi.

Mörg góð fyrirtæki eru og hafa verið rekin í bílskúrum í Kópavogi. Ber þar fyrst að nefna hina víðfrægu búð föður míns, Hinnabúð, sem var rekin í bílskúrnum að Álfhólsvegi 80 á uppvaxtarárum mínum. Ég man líka eftir Siggubúð, þar sem maður keypti allar afmælisgjafir í den. Í næsta nágrenni var líka rekin lítið bílaverkstæði í bílskúr og reyndar var rekið bílaverkstæði í bílskúr í næsta húsi við Álfhólsveg 80 allt fram til ársins 2006. Það gat verið andsk. hvimleitt þegar verið var að berja með sleggju á einhverja óþæga bílvél eða öxul seint á miðvikudagskvöldi og þá hefði maður alveg getað ímyndað sér að betra væri að þarna væri rekin snyrtilegri starfsemi s.s. hárgreiðslustofa með einum stól.

Á sama tíma og á þessu gengur ákveður meirihlutinn að hundsa mótmæli fjölda íbúa í Vesturbæ vegna breytinga á skipulagi Kársness þar sem gert er ráð fyrir stórskipahöfn og umtalsverðri þéttingu byggðar. Þar hefur ekki verið hlustað á nema lítinn hluta íbúanna, þ.e. þá sem ekki gera athugasemdir. Meirihlutinn í Kópavogi er klókur, fyrstu tillögur gerðu ráð fyrir gríðarlega mikilli byggð, byggð sem var algjörlega ljóst þegar tillögur að henni voru kynntar að ekki yrðu að veruleika. Nú slær meirihlutinn sig til riddara með því að segjast hafa fækkað íbúðum um rúmlega 200 íbúðir en neita á sama tíma að skýra frá endanlegum hugmyndum fyrir svæðið í heild. Núna er meirihlutinn lagstur í bútasaum þar sem enginn veit hvað gerist næst.

Hvernig væri að meirihlutinn, í skjóli Ómars Stefánssonar framsóknarmanns, hlustaði jafnmikið og vel á íbúa Kársness og þeir hlusta á þá sem mótmæltu einum hárgreiðslustól við Lyngheiði?


Það er gaman að vera Bliki!!

Það var sko sannarlega gaman að vera Bliki þegar Kópavogsliðin Breiðablik og HK mættust í blíðskaparveðri á Kópavogsvelli. Mikil spenna hafði byggst upp í bænum fyrir leikinn og ýmis orð látin falla fyrir leikinn. Á leikinn mættu tæplega 2.300 manns (tæplega helmingur af þeim sem mættu á kvennalandsleikinn um daginn) og held ég að menn hafi fengið fullt fyrir peninginn.

Leikurinn var að mínu mati góður, leikmenn gengu hart fram án þess þó að vera grófir, og það var alveg ljóst að menn voru að gefa sig 150% í verkefnið - hver einn og einasti leikmaður.  Svoleiðis eiga leikir að vera. Stóri munurinn á liðunum var að mínu mati miðjumennirnir. Þeir Arnar Grétarsson og Nenad Petrovic fóru hreinlega á kostum og áttu gestirnir úr Fossvogsdalum í stökustu vandræðum með að koma boltanum í gegnum miðjuna. Þrjú frábær mörk litu dagsins ljós, fyrst frá Kristjáni Óla, þá frá Prince (sem loksins skilaði boltanum rétta leið í markið) og síðasta markið var stórglæsilegt skot frá Olgeiri Sigurgeirssyni.  Að auki sýndi markvörður Breiðabliks, Casper Jakobsen frábæra takta er hann varði vítaspyrnu um miðjan síðari hálfleikinn.

Já sigur strákanna var sanngjarn og nú hljóta þeir að vera komnir á beinu brautina, jafntefli sumarsins að baki og ekkert annað en sigur gegn Fram í næsta leik kemur til greina.

Stuðningsmenn Breiðabliks í litlu stúkunni á Kópavogsvelli fóru algjörlega á kostum, spiluðu og sungu sig hása. En þó stuðningur þeirra við liðið hafi verið frábær þá tel ég að helsta afrek þeirra hafi verið að fá brekkuna til að standa upp undir lok leiksins. Ótrúlega flott og Blikar geta sannarlega verið stoltir af sínum mönnum.


Fótbolti, fótbolti, fótbolti, fótbolti

Undanfarnar vikur hefur tilveran snúist um fótbolta að miklu leyti. Svíþjóð með U19, A-landsleikur, Laugarvatn með U17 og svo Breiðablik í kvöld. Mér finnst alltaf gaman að fótbolta, sérstaklega þegar liðið mitt vinnur eins og hjá U19 og A-liðinu. Annað sem mér finnst ótrúlega skemmtilegt er að taka þátt í þeirri spennu sem verður til hjá tilvonandi landsliðskonum, ég upplifði slíka stund á Laugarvatni um helgina. Það var frábært enda 17 ára liðið í ár uppfullt af hæfileikaríkum ungum stelpum sem munu geta lagt heiminn að fótum sér, engin tár, bara bros og takkaskór.

En eins og mér finnst gaman þegar liðið mitt vinnur þá þykir mér það ótrúlega leiðinlegt þegar liðið mitt tapar. Ég upplifði slíka stund í kvöld á Kópavogsvelli. Stelpurnar mínar í Breiðabliki að leika gegn Val. Fyrirfram átti ég von á hörkuleik en óneitanlega eru þær rauðklæddu sterkari á pappírunum, en ég hef margoft upplifað það að pappírinn skiptir engu máli þegar á völlinn er komið. Það fór þó svo að stelpurnar mínar töpuðu leiknum en þær sýndu fádæma mikinn kjark og hugdirfsku þegar þær tókust á við "rauðu djöflana" og ekki síst eftir að þær voru orðnar tveimur leikmönnum færri um miðjan síðari hálfleikinn.

Reyndar á ég erfitt með að skilja dómgæsluna í kvöld. Ég efast ekki um að dómarinn hafi viljað gera vel en ég þoli það ekki þegar dómarar taka upp sérstaka takta þegar stelpur spila. Mörg þeirra spjalda sem hann veifaði í kvöld hefðu aldrei komið til ef þetta hefði verið karlaleikur sem hann var að dæma. Það má snerta mótherjann í fótbolta, það má berjast um boltann, það á að sýna tilfinningar þegar mönnum finnst á þeim brotið. En nei ... dómaranum í kvöld fannst það ekki tilhlýðilegt þegar stelpur eiga í hlut.

Ég er ekki vön því að setja út á dómara, enda er starf þeirra vanþakklátt og ég veit það fullvel hvernig það er að standa inni á fótboltavelli og þurfa að hafa stjórn á 22 misskynsömum leikmönnum.  En í kvöld átti dómarinn ekki góðan leik, því miður, tap minna stelpna var þó engan vegin honum að kenna, það þurfa stelpurnar sjálfar að taka á sig.

Svo leiðist mér líka annað. Af hverju þarf að vera með einhver bjánaleg fögn þegar lið er að vinna og er orðið tveimur leikmönnum fleiri. Er það til að niðurlægja mótherjann? Hver er tilgangurinn? Vinkonur mínar í Val setti niður í kvöld, ég er ennþá dálítið sár út í þær fyrir fagnaðarlætin en ég verð sjálfsagt búin að fyrirgefa þeim á morgun. Þær eru langflestar frábærir einstaklingar sem hafa unnið mikið til að ná langt í fótboltanum og reyndar er bara einn leikmaður sem ég er ekki alveg sátt við í liðinu, en hún hefur yfir að búa persónueinkennum sem mér þykja ekki sæma góðum leikmanni. En einn leikmaður af 18 manna hópi er ekki mikið svo ég kann bara ágætlega við Valsliðið sem heild, en mikið óskaplega hefði ég viljað að mínar ynnu þær í kvöld ... við tökum þær bara næst (í bikarnum!!!).

 


Ekki er sopið kálið...

"Ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið" segir einhversstaðar. Sigur stelpnanna í gær var frábær, leikur þeirra góður og sigurinn sannarlega verðskuldaður. Það var mikið rætt um það eftir leikinn góða gegn Frökkum að nú þyrftu stelpurnar okkar að halda sig niðri á jörðinni og vera tilbúnar í leikinn gegn Serbum. Það gerðu þær með stæl og hafa uppskorið eins og til var sáð, fullt hús eftir þrjá leiki.

Möguleikarnir Íslands á að komast í lokakeppni Evrópumóts eru að sönnu betri nú en þeir hafa verið oft áður. Sást það hvað best á NM U21 í fyrra þegar íslenska liðið var nærri komið í úrslitaleikinn á mótinu. En ekki síður var hægt að greina það árið 2002 þegar íslenska U17 ára landsliðið hafnaði í 3. sæti á Norðurlandamóti sem haldið var hér heima að efniviðurinn væri fyrir hendi. Úr 17 ára liðinu frá 2002 hafa 10 leikmenn af 16 leikið A-landsleik fyrir Íslands hönd. Þær eru:

  • Björg Ásta Þórðardóttir (8) 
  • Dóra María Lárusdóttir (27)
  • Dóra Stefánsdóttir (26)
  • Greta Mjöll Samúelsdóttir (15)
  • Guðbjörg Gunnarsdóttir (5)
  • Harpa Þorsteinsdóttir (6)
  • Katrín Ómarsdóttir (8)
  • Margrét Lára Viðarsdóttir (34)
  • Nína Ósk Kristinsdóttir (6)
  • Sandra Sigurðardóttir (2)

Eins og sjá má á listanum hér að ofan hafa margar af stelpunum tekið þátt í fjölda landsleikja þrátt fyrir ungan aldur. Þær eiga því framtíðina fyrir sér og má alveg hugsa sér að margar þeirra verði enn í takkaskónum árið 2017 og jafnvel lengur.

Undanfarin ár hefur KSÍ og stelpurnar sjálfar stuðlað að því leynt og ljóst að fjölga áhorfendum að landsleikjum. Glæsilegt áhorfendamet var slegið í gær er 5.976 lögðu leið sína í Laugardalinn. Áður höfðu tæplega 3.000 manns séð kvennalandsleik, en það var gegn Englendingum í umspilsleik í september 2002.

Í dag er málum þannig fyrir komið að allir sem að liðinu koma eiga sér það sameiginlega markmið, að stelpurnar komist í lokakeppni EM í Finnlandi 2009. Það markmið hefur verið á borði stjórnar KSÍ um nokkurt skeið og hefur verið unnið markvisst að því að markmiðið náist að þessu sinni. Öll umgjörð um leiki stelpnanna eru eins og best verður á kosið, þær fá alla þá þjónustu sem þær þurfa á að halda á hverjum tíma og þjálfarar A-liðsins undanfarin ár hafa verið óragir við að leita stuðnings hjá þjálfurum í Landsbankadeildinni og þjálfarar liðanna þar eiga ekki lítinn þátt í sigrinum í gær. Án þeirra stuðnings, eljusemi og dugnaðar væri liðið ekki statt þar sem það er í dag.

En það eru þó fyrst og síðast stelpurnar sem hafa unnið fyrir sigrunum í vor. Þær hafa lagt á sig ómælda vinnu til að ná árangrinum og einbeiting þeirra og vilji til að ná markmiðunum sem að er stefnt er aðdáunarverður. Þegar þessar stelpur stilla saman strengi sína eru þeim allir vegir færir.

Möguleikar þeirra á að komast í úrslitakeppnina eru nokkrir. Sigri þær í riðlinum þá fara þær beint í úrslitakeppnina. Lendi þær í 2. sæti eða verða eitt fjögurra liða í 3. sæti með bestan árangur þá leika þær umspilsleiki um sæti í úrslitakeppninni. Þar munu 12 lið etja kappi, gestgjafarnir Finnar, liðin 6 í efsta sæti síns riðils og liðin 5 sem vinna umspilsleikina.

Ísland er sem stendur í 21. sæti heimslistans (14. sæti Evrópulistans) svo samkvæmt því eigum við nokkuð í land að ná í 12. sætið sem gefur rétt á að leika í úrslitakeppninni. En stelpurnar hafa sýnt það og sannað að allt er hægt, Serbar eru t.a.m. í 30. sæti heimslistans en því 17. í Evrópu svo aðeins þrjú sæti skilja þær frá íslenska liðinu. Það var þó miklu meiri munur á liðunum í gær og með leik eins og þeim sem þær sýndu þá eru okkar stelpum allir vegir færir en þær, og við öll, verðum þó að muna að "ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið".

 


mbl.is Úrslitin framar björtustu vonum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýn, Breiðablik, FH og beinar útsendingar

Ég hef áður fjallað um uppáhaldslið Sýnarmanna þegar kemur að beinum útsendingum frá Landsbankadeild karla í knattspyrnu. Þar hefur berlega komið í ljós að FH er þeirra uppáhaldslið og hefur liðið mitt, Breiðablik, hlotið heldur litla náð fyrir augum þeirra hjá Sýn í sumar.

Það varð þó breyting á í gærkvöld, þegar Breiðablik fór í Hafnarfjörð og lék gegn FH. Þá voru Sýnarmenn á staðnum með útsendingarbílinn og loksins, loksins sá ég fram á að það væri toppleikur í sjónvarpinu ... þar sem aðallið dagsins, Breiðablik, færi á kostum. Vitaskuld varð það þannig að mínir menn fóru á kostum, léku Íslandsmeistarana sundur og saman í fyrri hálfleik og skoruðu síðan stórglæsilegt mark skömmu fyrir miðjan seinni hálfleik. En urðu áskrifendur Sýnar vitni að því?

Nei, svo varð ekki. Sýnarbíllinn bilaði þegar Blikarnir skoruðu markið og reyndar var bíllinn enn bilaður þegar FH-ingar jöfnuðu leikinn. Ég var náttúrulega í Krikanum í gærkvöldi og þegar ég kom heim þá hugði ég mér gott til glóðarinnar að sjá magnaðasta mark Íslandsmótsins sem Nenad Petrovic skoraði fyrir Breiðablik.  En nei ... ekki aldeilis. RÚV ohf. treysti á útsendingu Sýnar og þegar bíllinn og útsendingin bilaði þá virðist ekkert hafa komið á teipið, diskinn eða hvað það nú er sem þeir taka uppá þessir herramenn á Sýn. Ég fékk því bara að sjá markið sem Arnar skoraði og tryggði FH öll stigin í leiknum. Niðurstaða sem var ósanngjörn svo ekki sé meira sagt.

En það er víst ekki spurt um sanngirni í fótbolta og að því er virðist ekki heldur þegar kemur að útsendingum á sjónvarpsstöðinni Sýn.


Af hverju eru íþróttir ekki bleikar?

Vefurinn www.mbl.is er bleikur í dag. Það er gott og ákveðin viðleitni sem felst í því. Ég velti því hins vegar fyrir mér af hverju dálkarnir "Fólk", "Viðskipti" og þá aðallega "Íþróttir" eru ekki líka bleikir?

Fyrir mér eru íþróttir bleikar. Konur og íþróttir fara einfaldlega betur saman. Konur (a.m.k. íslenskar konur) ná betri árangri á heimsmælikvarða í íþróttum en íslenskir karlar (nema kannski í handbolta). Vinsælasta íþróttagrein í heimi og á Íslandi er fótbolti. Þar höfum við órækan vitnisburð um að konur eru körlum mikið fremri, á Íslandi a.mk.

Þess vegna finnst mér að dálkurinn "Íþróttir" hefði átt að vera bleikur á mbl.is í dag.


mbl.is Hagnaður af HM kvenna í knattspyrnu í fyrsta sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stelpur - stelpur - stelpur

Komin heim frá Svíþjóð með sigur í farteskinu. Já stelpurnar í U19 unnu verðskuldaðan sigur á Svíum og hefndu þar með fyrir tap karlalandsliðsins gegn þeim á dögunum. Í móttöku sem ég fór í fyrir leikinn voru Svíarnir óragir við að rifja þann leik upp og töldu jafnvel að sænska liðið ætti léttan leik fyrir höndum. Sú varð ekki raunin og þeim hefndist hressilega fyrir að vera stöðugt að rifja upp leik karlalandsliðsins.

Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari U19, minntist á það í spjalli sem hann átti við stelpurnar eftir leikinn í gær að með sigrinum hefðu þær blásið á þær hugmyndir sumra að senda hina svokölluðu "nörda" til að hefna fyrir tapið gegn Svíum í karlaboltanum. Þeir sem hefðu fundið uppá þeim ósköpum hefðu betur horft til stelpnanna því nú lítum við svo á að tapsins sé fullhefnt enda hefur íslenskt kvennalandslið ekki lagt sænskt landslið að velli í heil 10 ár eða frá árinu 1997.

Mér fannst sigur U19 vera eðlilegt framhald af sigri A-landslið kvenna á Frökkum og handknattleikslandsliðs karla á Serbum. Að sama skapi finnst mér það vera eðlilegt framhald af þessum sigrum að stelpurnar í A-landsliðinu sigri Serba á Laugardalsvelli á fimmtudag. Sá leikur er ákaflega mikilvægur og það er algjörlega nauðsynlegt að íslenska þjóðin skilji það og skynji að stelpurnar þurfi á stuðningi þeirra að halda. Því vil ég hvetja alla, unga sem aldna, að mæta á völlinn á fimmtudagskvöld og styðja stelpurnar til sigurs og taka þar með þátt í að tryggja þeim farmiðann til Finnlands 2009.

Áfram Ísland!


Stórkostlegur sigur Íslands

Stelpurnar okkar sönnuðu sig aldeilis í gærkvöldi er þær lögðu franska landsliðið að velli. Ég átti ekki heimangengt á leikinn þar sem ég er stödd í Svíþjóð ásamt U19 ára landsliði Íslands. Við misstum hins vegar ekki af leiknum því við sáum hann í beinni útsendingu á netinu og fögnuðum ógurlega á 81. mínútu þegar Margrét Lára skoraði markið. Eins og margir aðrir þá töldum við jafnvel að boltinn hefði ekki farið inn, enda var hann lengi á leiðinni en inn fór hann og stigin þrjú voru kærkomin á heimavelli. Á morgun leikur U19 ára liðið vináttuleik við Svía. Er það lokaleikur liðsins áður en þær mæta í úrslitakeppni EM sem fram fer á Íslandi í sumar. Vona ég að stelpunum muni ganga allt í haginn á morgun og að leikur A-landsliðins frá í gær muni verða þeim hvatning til stórra verka.

Áfram Ísland

Stelpur,

nú er að standa saman allar sem ein, horfa staðfastar fram á veginn, hungra í sigur og standa stoltar að leikslokum. Íslenska landsliðið á möguleika á að tryggja sér farseðil til Finnlands, liðið er einfaldlega nógu sterkt til þess. En það gerist ekki af sjálfu sér ... liðsheildin skapar möguleikann. Baráttan, fórnfýsin, hjartalagið, hugurinn og viljinn er það sem þarf í verkið!

U19 ára landsliðið sendir ykkur baráttukveðjur ... þið takið Frakkana, þær snúa á Svíana á mánudag. Við sem að liðunum stöndum, sem og allir aðrir unnendur íslenskrar knattspyrnu, erum stolt af ykkur "stelpunum okkar".

ÁFRAM ÍSLAND!


mbl.is Byrjunarlið Íslendinga gegn Frökkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sammála SOS

Mikið óskaplega er ég sammála Sigmundi. Í fréttum af hátíðarfundinum þá var ég afar undrandi að Jón Hjaltalín Magnússon var hvergi sjáanlegur, né heldur á hann minnst. Í mínum huga er Jón einmitt maðurinn sem gerði handknattleikinn og íslenska handknattleikslandsiðið að því sem það er í dag.

Frásögn Sigmundar af því þegar Jón Hjaltalín barði í borð eftirlitsdómarans í B-keppninni í Frakklandi 1989 sýnir að mínu viti hverskonar eldhugi Jón Hjaltalín var þegar kom að handknattleiknum. Sú hugmynd að fá úrslitakeppni HM til Íslands þótti mörgum geggjuð á sínum tíma, en krafturinn og viljinn sem Jón setti í verkið varð til þess að íslenska þjóðin hreifst með og veit ég ekki betur en að keppnin hafi farið fram með miklum sóma, þökk sé Jóni Hjaltalín Magnússyni.

Sigmundur segir líka frá því að það var Jón Hjaltalín sem stóð fyrir því að íslenska karlalandsliðið söng lög sem enn lifa með landanum eins og "Það er allt að verða vitlaust" og ekki síður "Við gerum okkar besta". Þessi lög eru enn og munu um ókomna tíð vera leikin fyrir alla stórleiki hjá "strákunum okkar", sem er máltæki sem varð til hjá Jóni Hjaltalín Magnússyni.

Í lok greinar sinnar biður Sigmundur Jón Hjaltalín fyrirgefningar fyrir hönd handknattleiksunnenda á Íslandi. Þetta þykir mér göfugmannalega gert af Sigmundi þó svo að í raun ætti núverandi handknattleiksforysta að biðjast afsökunar og fyrirgefningar á framkomu sinni.

Þess vegna ætla ég ekki að biðja Jón Hjaltalín fyrirgefningar en ég get heilshugar tekið undir kveðju Sigmundar er hann segir að ódrepandi dugnaður Jóns Hjaltalíns Magnússonar sé sannarlega ekki gleymdur og mun ekki gleymast hjá unnendum handknattleiks á Íslandi. Fyrir það vil ég þakka Jóni Hjaltalín Magnússyni, hann á heiður skilinn.


mbl.is Fyrirgefðu – Jón Hjaltalín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband