Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Í tilefni af umræðunni um bleikt eða blátt - af hverju ekki að spá í rautt eða svart?

Í tilefni af umræðu Kolbrúnar Halldórsdóttur á Alþingi um bleikt eða blátt þá verð ég að minnast á færslu bloggvinar míns, Seth, um rauðar eða svartar hjólabuxur. Mér finnst hann færia góð rök fyrir því að ekki eigi að vera mikið að því að klæða drengi í bleika eða rauða samfestinga, snemma eða síðar á ævinni.

Seth talar eins og út úr mínu hjarta og ég ætla ekkert að flækja málin. Hér er bloggfærslan hans: http://seth.blog.is/blog/seth/entry/368674/#comment843867


Að fljóta sofandi að feigðarósi...

varð að því að sofa fljótandi að feigðarósi hjá orðheppnasta bæjarfulltrúa Kópavogs, Ómari Stefánssyni, nema í mannauðsstjórnun, búfræðingi, íþróttakennara, fjölmiðlamenntaður (sem er reyndar dálítið erfitt að trúa) og sjálfsagt eitthvað í viðbót, á bæjarstjórnarfundi í gærkvöldi.  Að öðru leyti tjáði hann sig lítið sem ekkert um málefni bæjarins á fundinum, ekki frekar en oft áður. Svo er líka bara fínt að sitja í bæjarstjórn, vera formaður bæjarráðs eiga sæti í vel launuðum nefndum og starfa sem vallarstjóri íþróttavalla Kópavogs og hafa ekki skoðun á neinu inni í bæjarstjórn. Hann hefur enda örugglega lítinn tíma til að mynda sér skoðanir, verandi í öllum þessum störfum. Gunnar sér bara um þetta fyrir hann. Þetta er örugglega bara fínt og þá er líka allt í lagi að mismæla sig öðru hvoru.

Flottur riðill hjá strákunum

Þá er búið að draga í riðil fyrir HM 2010. Karlalandsliðið leikur með Hollandi, Skotlandi, Noregi og Makedóníu í eina 5 liða riðlinum sem var í boði. Að lenda í 5 liða riðli er óneitanlega ókostur, þar sem við fáum einum heimaleik færra, ekkert lið er fyrir neðan okkur í styrkleikaflokki og það þarf alltaf eitt lið að sitja yfir í hverri umferð.

Því verður hins vegar ekki á móti mælt að riðillinn sem slíkur er flottur. Þarna eru mjög öflugar knattspyrnuþjóðir. Hollendingar sýnu bestir, Skotar eru alltaf skemmtilegir og svo er alltaf mikill rígur milli Norðurlandaþjóðanna og það er nokkuð síðan við lékum gegn Norðmönnum. Þetta er glæsilegt! Kunnátta mín gagnvart Makedóníu er ekki mikil en þjóðin er ein af fyrrum lýðveldum Júgóslavíu og þar var knattspyrna mjög hátt skrifuð svo það er alveg klárt að menn skulu ekki á nokkrum tíma vanmeta Makedóna.

Guðmundur Torfason var í íþróttaþættinum á RÚV í kvöld. Ég er sammála honum um að það er kominn tími til að við hættum að líta á okkur sem stórþjóð í knattspyrnu karla, við erum 300.000 manna þjóð og þó við teljum okkur eiga mannskap sem getur á góðum degi staðið uppi í hárinu á hvaða stórveldi sem er þá verðum við að halda væntingum niðri að þessu sinni. Það þýðir ekki að spenna bogann jafn hátt og áður hefur verið gert. Auðvitað ætlast ég til að leikmenn landsliðsins fari í hvern leik til að vinna hann og ég sætti mig ekki við hvaða úrslit sem er, en ég verð sátt svo fremi að mér finnist leikmennirnir hafi lagt sig 100% fram.

ÁFRAM ÍSLAND!

 


Ég játa ...

Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld var vitnað í fótboltaþátt á Sýn í gærkvöldi, sem ég skrifa um hér í næstu færslu á undan. Eins og ég hef bent á þá var þetta um margt merkilegur þáttur. Vissulega var knattspyrnuforystan [lesist stjórn KSÍ] gagnrýnd þar að einhverju marki, en einnig voru leikmenn liðsins gagnrýndir og blaðamenn voru gagnrýndir, menn gagnrýndu í þættinum og tóku gagnrýni.  Á íslensku hefur svona gagnrýni milli manna stundum verið kölluð skoðanaskipti.

Skoðanaskipti um hin ýmsu mál eru af hinu góða, Eggert Magnússon, fyrrverandi formaður KSÍ, sagði eitt sinn á stjórnarfundi að knattspyrnan þrifist á gagnrýni. „Ef það er engin gagnrýni þá er eitthvað að, ég meina kommon, gagnrýni er drifkraftur okkar.“ Eitthvað á þessa leið komst Eggert að orði. Mér þótti þetta merkilegt, og ég var þessu fullkomlega sammála. Ef ekki kemur fram gagnrýni þá hreyfast menn ekki úr stað!

Gagnrýni er allra góðra gjalda verð en hún þarf líka að lúta þeim lögmálum að vera sett fram á faglegan hátt og vera studd góðum rökum. Ef þeim skilyrðum er ekki fylgt þá er gagnrýnin tæplega meira en nöldur og tuð. Gagnrýnin sem kom fram í þættinum í gær var sem betur fer flest ágætlega rökstudd. En önnur gagnrýni á ekki við nein rök að styðjast, heldur er byggð á einhverjum kjaftasögum og sjálfsagt einhverri öfund líka. Dæmi um þetta er fullyrðing Guðjóns Þórðarsonar, fyrrverandi landsliðsþjálfara, sem sagði í þættinum að „undirbúningur landsliðsins mætti ekki ráðast af skáli í kampavíni og kokteilboðum út og suður.“ Ég hef persónulega ekki ferðast með neinu af karlalandsliðum Íslands, en ég hef mætt á leiki þeirra hér heima og vissulega hefur mér stundum verið boðið í kokteilboð bæði út og suður. Ég bara vissi það ekki að þau kokteilboð hefðu svona mikil áhrif á undirbúning leikmanna.

Einu sinni hef ég séð íslenska karlalandsliðið leika erlendis, á vináttumóti í Manchester þar sem þeir mættu m.a. Englendingum. Þá var knattspyrnuforystunni vissulega boðið í móttöku fyrir leikinn á nýjum og glæsilegum heimavelli Manchester City (sem heitir því frumlega nafni City of Manchester Stadium og Siggi Helga á þar drjúgan hlut og plötu á vegg).  Íslenska liðið tapaði þeim leik, en við skoruðum þó mark og stóðum okkur ágætlega.  Ég bara vissi ekki að hvítvínið sem ég fékk mér fyrir leikinn hefði svona mikil og neikvæð áhrif á undirbúning leikmanna og þjálfara fyrir leikinn!

Í fréttum stöðvar 2 í kvöld var einnig bent á að breyting á hugarfari leikmanna hafi verið mikið á undanförnum árum og sjálfsagt er það líka stjórn KSÍ að kenna að mati íþróttafréttamanna Stöðvar 2 og Sýnar, rétt eins og allt annað. En ég verð ég þó að biðjast undan því, fyrir mína hönd og annarra stjórnarmanna, að það sé okkur að kenna að iPodinn var fundinn upp og lokaði þar með á stemminguna inní búningsklefa! Þá játa ég frekar á mig kokteilboðin!

 


Landsleikurinn vonbrigði - Sýnarmenn samir við sig

Það voru óneitanlega vonbrigði að íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu skuli ekki hafa sýnt betri leik en það gerði á Parken í kvöld. Það sýndi sig líka að Ólafur Jóhannesson, nýr þjálfari liðsins, á langt í land með liðið og hans munu sjálfsagt bíða nokkrar andvökunætur vegna þess á næsta ári. Persónulega þá þótti mér verst hversu lítill bati var hjá varnarlínu Íslands í leiknum. Enn og aftur voru varnarmennirnir að missa sóknarmenn á milli sín og er alveg makalaust hversu svifaseinir þeir virðast vera þegar þeir mæta sæmilega fljótum leikmönnum.

En leikurinn er afstaðinn og ég ætla ekki að vera með eitthver vol og væl hér. Alls ekki. Framundan eru spennandi tímar. Það verður dregið í nýja keppni, undankeppni HM í Suður-Afríku 2010, á næstunni og það verður spennandi að sjá hvaða lið koma uppúr hattinum þar. Ég hef fulla trú á því að Ólafi Jóhannessyni takist að hnoða liðinu saman í þeirri keppni. Óli er, eftir því sem ég hef heyrt, nokkuð undarlegur fýr sem fer sínar eigin leiðir og það er einmitt það sem hann á að gera. Hann þarf að stjórna liðinu, liðið á ekki að stjórna sér sjálft. Því miður virtust leikmenn vera komnir á þá skoðun undir það síðasta hjá Eyjólfi Sverrissyni (eins og ég hef áður skýrt frá á þessari síðu) og því fór sem fór hjá honum. Um leið og leikmenn átta sig á því að þeir eiga að fylgja fyrirmælum þjálfarans og fara að hans ráðum út allan leiktímann í öllum leikjum þá held ég að Ísland eigi möguleika á betri árangri en hingað til.

Sýn sýndi beint frá leiknum í Parken í kvöld. Það var frábært framtak hjá þeim og lýsingar þeirra Arnars Björnssonar og Loga Ólafssonar voru á köflum kostulegar, þó þær snerust á stundum alls ekki um fótbolta. Það er bara hressandi sérstaklega í leik eins og þeim sem við sáum í kvöld þar sem í raun var fátt um fína drætti. Eftir leikinn átti sér síðan stað þáttur þar sem Hörður Magnússon spilaði bút og bút úr viðtölum við þá Geir Þorsteinsson, formann KSÍ, og Ólaf Jóhannesson nýráðinn landsliðsþjálfara.

Hörður var búin að búta viðtölin niður í einhverskonar málaflokka og hann fékk síðan til liðs við sig einstaklinga sem sögðu skoðanir sínar á svörum þeirra og því hvernig þeir myndu gera hlutina öðruvísi. Þetta var vissulega ágætt form af þætti þar sem fjallað er um knattspyrnu, en ég get tæplega talið að þarna hafi Hörður staðið faglega að verki. Það getur ekki talist fagleg umfjöllun þegar aðeins ein skoðun kemur fram á málunum, Hörður virðist hafa rætt við þá Geir og Ólaf algjörlega gagnrýnislaust, lagt fyrir þá spurningar, fengið svör ... sem hann svo lagði fyrir menn til að gagnrýna. Þá voru þeir Geir og Ólafur víðsfjarri og áttu enga möguleika á að svara fyrir sig þegar á þá var hallað. Átti þetta sannarlega meira við um Geir en Ólaf, þó hann hafi sjálfsagt haft sitt lítið af hvoru að athuga við sumt af því sem þarna kom fram.

Alls komu sjö „spekingar“ í settið til Harðar, fyrst mættu þeir Guðjón Þórðarson og Willum Þór Þórsson, síðan komu þeir Atli Eðvaldsson, Ólafur Þórðarson og Rúnar Kristinsson og í síðasta hluta þáttarins mættu þeir Henry Birgir og Snorri Sturluson. Allt eru þetta mætir menn, hver á sínu sviði, þó ég sé sannarlega ekki alltaf sammála öllu því sem þeir segja og/eða gera í knattspyrnu. Látum það liggja milli hluta.

Willum, minn gamli skólabróðir, fór að mínu viti einna best út úr þessum þætti. Hann var klókur og vísaði á Guðjón þegar hann var sammála sleggjudómum um stjórn KSÍ og það starf sem þar fer fram enda er Guðjón ekki maður sem liggur á skoðunum sínum. Guðjón virtist hins vegar nokkuð spældur yfir því að hann hafi ekki fengið tækifæri til að stýra landsliðinu í þessum leik. Ég hef engar áhyggjur af því að Gaui muni ekki taka aftur við liðinu, hans tími mun koma, það þarf hins vegar fyrst að fenna almennilega yfir sporin.

Í næsta holli voru þrír skynsamir menn. Atli Eðvalds, Óli Þórðar og Rúnar Kristins. Þetta var skemmtilegasti hlutinn af þættinum. Þarna sátu þrír fyrrverandi landsliðsmenn og tveir fyrrum starfsmenn KSÍ, og sögðu sína skoðun á KSÍ og stjórn þess. Það var í lagi, það þola allir réttmæta gagnrýni og þeirra hlutur var bara algjörlega þolanlegur. Þeir fóru dálítið út á sömu braut og ég hef áður gert hér, þ.e. að benda á þátt leikmannanna sjálfra í slöku gengi liðsins. Óli hefur lengi verið einn af mínum uppáhalds persónum enda gæti hann klárlega verið Gunnar á Hlíðarenda endurfæddur, maður sem lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna og lætur engan segja sér fyrir verkum. Hann talar hug sinn og er heiðarlegur. Óli átti setningu kvöldsins er hann sagði eitthvað á þá leið að „velmegun í íslensku samfélagi stæði fótboltanum fyrir þrifum því ungir leikmenn köfuðu bara dýpra í vasa foreldra sinna í stað þess að leggja eitthvað á sig til að ná því takmarki sem þeir ætluðu sér!“ Þarna sló ég mér á lær og hrópaði húrra!

Lokapartur þáttarins var síðan ein allsherjar kómedía. Snillingarnir Henry Birgir og Snorri Sturluson mættir í settið og byrjuðu á því að segja að KSÍ væri með sleggjudóma í garð fjölmiðlamanna. Ja, tali nú hver fyrir sig! Og enduðu síðan á að segja að menn mættu ekki taka allri gagnrýni persónulega sem að þeim væri beint. Bíddu við, hvernig á að taka gagnrýni sem að mönnum er beint? Telja þeir að öll sú gagnrýni sem Eyjólfur Sverrisson varð fyrir af þeirra hálfu hafi ekki verið persónuleg, eða gagnrýni á Eggert Magnússon, nú eða gagnrýni á Geir Þorsteinsson? Þegar þeir gagnrýna stjórn KSÍ fyrir öll hennar verk halda þeir þá ekki að stjórnarmenn, eins og ég, taki því ekki persónulega? Ég efast reyndar um það að þeim verði hugsað til mín þegar þeir tala um stjórn KSÍ en auðvitað er öll gagnrýni sem beinist að stjórninni einnig beint að þeim einstaklingum þar sitja og starfa og það er ekkert nema eðilegt að viðkomandi taki hana persónulega. Annað er einfaldlega ekki hægt. Ef menn tækju slíkri gagnrýni ekki persónulega þá fyrst er eitthvað að, nú nema menn séu bara úr steini ...

 


Bæjarstjórinn samur við sig

Enn hamast Gunnar Birgisson bæjarstjóri í Kópavogi á þeirri firru að Þór Ásgeirsson, fulltrúi Samfylkingar í skólanefnd bæjarins hafi verið vanhæfur er frændi hans var ráðinn til starfa sem aðstoðarskólastjóri í Smáraskóla.

Að þessu sinni hamast bæjarstjórinn í málgagni sínu í bænum, Vogum. Þar er því slegið upp á baksíðu að Þór Ásgeirsson hafi verið vanhæfur í umræddu máli. Þessu halda bæjarstjórinn og hans fylgissveinar fram gegn betri vitund og gegn úrskurði lögmanns bæjarins sem einmitt taldi að Þór hafi ekki verið vanhæfur í umræddu máli. Um það má lesa í úrskurði lögmannsins, en þar kemur einmitt fram að Þór hafi gert grein fyrir tengslum sínum við umsækjanda um stöðu skólastjóra og síðar aðstoðarskólastjóra Smáraskóla.

Skólanefnd var fullkomlega kunnugt um tengsl Þórs við umsækjandann enda hafði Þór vikið sæti þegar fjallað var um umsókn frænda hans og þegar ráðið var í stöðu skólastjóra. En þegar það var tilkynnt á fundi skólanefndar, fjórum vikum eftir að frændinn hafði tekið við stöðu aðstoðarskólastjóra, og frétt um það hafði birst á heimasíðu bæjarins, þá vék Þór ekki sæti enda ekki um formlega atkvæðagreiðslu að ræða, eingöngu tilkynningu sem ekki var gerð athugasemd við á fundi skólanefndarinnar. Þór Ásgeirsson var ekki vanhæfur í þessum máli. 

Það er ekkert nema ótrúleg hefnigirni bæjarstjórans sem leiðir hann áfram í blindni en forsaga þess er að honum var gert að víkja þegar Kópavogsbær keypti Glaðheimalandið af kaupahéðnum og hestamannafélaginu Gusti. Þar var bæjarstjórinn klárlega vanhæfur enda eiginkona hans eigandi eins húss á svæðinu og honum því gert að víkja sæti. Hann fór þó ekki langt frá málinu, vasaðist í því daglega, þvert gegn stjórnsýslu- og sveitarstjórnarlögum, staðráðinn í að láta ekkert stoppa sig frá því að bjarga kaupahéðnum á svæðinu úr skuldasúpu.

Ávirðingar bæjarstjórans og fylgisveina hans í málgagni Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi dæma sig því sjálf. Þau eru aumkunarvert yfirklór manns með slæma samvisku og ekkert annað!

ps. þar fyrir utan þurfti Þór alls ekki að víkja sæti, skv. Stjórnsýslulögum, enda er skyldleiki hans við umsækjandann ekki það mikill að þess sé krafist í þeim lögum. 


Til hamingju

Mikið er ég ánægð með að Guðný Halldórsdóttir hafi fengið bjartsýnisverðlaun Alcan eftir þá sniðgöngu sem hún mátti þola á Eddu-verðlaunaafhendingunni í gærkvöldi. Eins og ég hef skrifað um áður hér á blogginu þá þótti mér Veðramót ein besta íslenska kvikmynd sem ég hef séð og hún átti sannarlega skilið meiri vegsemd en henni var sýnd á Eddunni.

Ég fæ t.d. ekki séð hvernig nokkur leikkona hafi getað farið betur með hlutverk sitt en Hera Hilmarsdóttir gerði í Veðramótum. Leikur hennar var algjörlega óaðfinnanlegur og það læðist að manni sá grunur að þeir sem stjórna í íslensku kvikmyndaakademíunni hafi helst ekki viljað verðlauna ólærðan, ungan leikara fyrir svo veigamikið hlutverk. Það sama má e.t.v. einnig segja um Pétur Jóhann, sem hefur farið á kostum í Næturvaktinni!

Guðný Halldórsdóttir verið aðalsprautan í nokkrum frábærum kvikmyndum, þar á meðal bestu mynd allra tíma "Stellu í orlofi" og svo hafa áramótaskaupin þegar hún hefur verið við stjórnvölinn verið ákaflega hressandi þó þau hafi sannarlega ekki verið allra.

Ég óska henni til hamingju með bjartsýnisverðlaunin, hún er vel að þeim komin.


mbl.is Guðný Halldórsdóttir fékk bjartsýnisverðlaunin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband