Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Siðferðisþrek þingmannsins

Í tilefni af þessu er rétt að rifja upp grein sem ég skrifaði í júlí á síðasta ári. Læt hana fylgja hér með.

Siðferðisþrek þingmannsins

ALÞINGISMAÐURINN Jón Gunnarsson stakk niður penna í málgagni Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, Vogum, sem dreift var fyrir skömmu. Ber hann þar miklu lofsorði á bæjarstjórann í Kópavogi fyrir það að hafa „sýnt mikið siðferðisþrek" í lífeyrissjóðsmálinu svokallaða. Að vísu segir alþingismaðurinn að vissulega hafi bæjarstjórinn„farið á svig við lög" í störfum sínum sem formaður lífeyrissjóðsins, en það skín í gegnum grein hans að hinn siðferðislegi styrkur bæjarstjórans hafi hreinlega borið hann ofurliði og hann sagt af sér þess vegna.

Jón Gunnarsson, sá hinn sami og skrifar í Voga um siðferðisþrek bæjarstjórans í Kópavogi, situr á Alþingi Íslendinga en starfsmenn þeirrar stofnunar hafa m.a. þann starfa að setja þjóðinni lög sem ætlast er til að almenningur fylgi og fari eftir. Það að fara á svig við lög er ekki léttvægt atriði og það ber að mínu viti engan vott um siðferðisþrek að víkja sæti þegar grunur leikur á að formaður stjórnar opinberrar stofnunar hafi „gerst brotlegur við lög".

Þingmaðurinn nefnir í upphafi greinar sinnar málefni fyrirtækis dóttur bæjarstjórans, það sem mikill styr stóð um skömmu áður en FME vék stjórn LSK frá. Það var gott hjá honum að nefna, því þegar málefni LSK komst í hámæli lá þegar fyrir krafa frá samstarfsflokki Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Kópavogs að bæjarstjórinn viki sæti vegna þess máls. Og bæjarstjórinn var á förum að kröfu framsóknarmanna. Engu að síður lítur þingmaðurinn svo á að það hafi verið að kröfu Samfylkingarinnar sem bæjarstjórinn vék. Samfylkingin er ekki í meirihlutasamstarfi í bæjarstjórn Kópavogs og hefur því ekkert úrslitavald um það hvort bæjarstjórinn segir af sér eða ekki, slíkt er alfarið á forræði Framsóknarflokksins.

Jón Gunnarsson, tók sæti á Alþingi Íslendinga árið 2007 og hefur hefur stutt Sjálfstæðisflokkinn og forystusveit hans í gegnum súrt og sætt um árabil. Alþingismaðurinn Jón Gunnarsson hefur ekki minnst einu orði á siðferðisþrek sitt og félaga sinna, þeirra sem seldu íslensku bankana, sem lögðu af Þjóðhagsstofnun og stjórnuðu bæði forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti á þeim tímum sem kallaðir voru „mestu uppgangstímar Íslandssögunnar" - hvert er þeirra siðferðisþrek?

Er nema von að illa sé komið fyrir þjóðinni þegar siðferðisþrek sjálfstæðismanna er mælt í því hversu oft og mikið þeir fara á svig við lög.

Ingibjörg Hinriksdóttir
varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi

ps. meðfylgjandi grein birtist í Morgunblaðinu 22. júlí 2009.


mbl.is Þingið kveður upp siðferðisdóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áskorun Bjarna á rétt á sér

Í morgunútvarpinu setti Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins fram eftirfarandi áskorun á flokksfélaga sína: „Ég hef skorað á alla frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins á þessu tímabili að veita upplýsingar um styrktaraðila og bregðast við þessari kröfu sem eru sjálfsagðar og eðlilegar." Sjá http://ordid.eyjan.is/ 

Áskorunin hittir borgarstjórnarflokk sjálfstæðismanna heldur betur fyrir eins sést þegar hér að neðan þegar þátttakendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningar 2006 eru skoðaðir út frá gögnum á vef Ríkisendurskoðunnar (sjá viðhengi). 

Þessir tóku þátt í prófkjöri sjálfstæðismanna haustið 2006 - feitletruð eru þau sem eru á framboðslista fyrir komandi kosningar, svona til fróðleiks.

  • Benedikt Geirsson, skrifstofumaður - skilaði ekki inn upplýsingum til Ríkisendurskoðunar
  • Birgir Þór Bragason, dagskrárgerðamaður - skilaði ekki inn upplýsingum til Ríkisendurskoðunar
  • Björn Gíslason, slökkviliðsmaður - skilaði ekki inn upplýsingum til Ríkisendurskoðunar
  • Bolli Thoroddsen, form. Heimdallar og verkfræðinemi - skilaði ekki inn upplýsingum til Ríkisendurskoðunar
  • Davíð Ólafur Ingimarsson, hagfræðingur - skilaði ekki inn upplýsingum til Ríkisendurskoðunar
  • Eggert Páll Ólason, lögfræðingur - skilaði ekki inn upplýsingum til Ríkisendurskoðunar
  • Gísli Marteinn Baldursson, dagskrárgerðamaður og varaborgarfulltrúi - nafnlaus framlög frá fyrirtækjum 8.116.000 og nafnlaus framlaög frá einstaklingum 2.252.000. Samtals 10.376.000 kr nafnlaus framlög.
  • Guðni Þór Jónsson, sölustjóri - eyddi minna en 300.000 samkv yfirlýsingu
  • Gunnar Dofri Ólafsson, menntaskólanemi - skilaði ekki inn upplýsingum til Ríkisendurskoðunar
  • Gústaf Adolf Níelsson, útvarpsmaður - skilaði ekki inn upplýsingum til Ríkisendurskoðunar
  • Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi - 500.000 kr frá Landsbankanum, nafnlaus framlög frá fyrirtækjum 2.905.000 og nafnlaus framlög frá einstaklingum 520.000. Samtals 3.925.000 þar af 3.425.000 kr nafnlausar.
  • Jóhann Páll Símonarson, sjómaður - 500 þúsund frá Eimskipafélagi Íslands
  • Jónína Benediktsdóttir, nemi í meistaranámi -  skilaði ekki inn upplýsingum til Ríkisendurskoðunar
  • Jórunn Frímannsdóttir, hjúkrunarfræðingur og varaborgarfulltrúi - nafnlaus framlög frá fyrirtækjum 1.294.443 og nafnlaus framlög frá einstaklingum 735.000. Samtals 2.029.443 kr nafnlaus framlög.
  • Júlís Vífill Ingvarsson, lögfræðingur - skilaði ekki inn upplýsingum til Ríkisendurskoðunar
  • Kristján Guðmundsson, húsasmiður - skilaði ekki inn upplýsingum til Ríkisendurskoðunar
  • Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi - skilaði ekki inn upplýsingum til Ríkisendurskoðunar
  • Loftur Már Sigurðsson, sölustjóri - skilaði ekki inn upplýsingum til Ríkisendurskoðunar
  • Marta Guðjónsdóttir, kennari við Tjarnarskóla - skilaði ekki inn upplýsingum til Ríkisendurskoðunar
  • Ragnar Sær Ragnarsson, fyrrverandi sveitarstjóri - skilaði ekki inn upplýsingum til Ríkisendurskoðunar
  • Sif Sigfúsdóttir, M.A. í mannauðsstjórnun - skilaði ekki inn upplýsingum til Ríkisendurskoðunar
  • Steinn Kárason, háskólakennari og ráðgjafi - skilaði ekki inn upplýsingum til Ríkisendurskoðunar
  • Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarfulltrúi - skilaði ekki inn upplýsingum til Ríkisendurskoðunar
  • Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, ráðgjafi menntmálaráðherra - skilaði ekki inn upplýsingum til Ríkisendurskoðunar
  • Örn Sigurðsson, arkitekt. - skilaði ekki inn upplýsingum til Ríkisendurskoðunar

Nú er að bíða og sjá hvort félagar Bjarna Ben taki áskoruninni og birti upplýsingar um styrkveitendur sína í prófkjörunum.

 


Mótmæli við heimili fólks eiga aldrei rétt á sér

Það er ömurlegt hvernig íslenskt þjóðfélag virðist vera að þróast. Það er ekki nóg með að bankamenn og svokallaðir fjármálaspekingar hafi keyrt íslenskt efnahagslíf í þrot í þöglu samþykki og andvaraleysi stjórnmálamanna. Nú réttlæta nokkrir, sem betur fer örfáir, almennir borgarar aðför að heimili fólks með því að þeir hafi verið svona og svona í aðdraganda hrunsins.

Það er kristaltært í mínum huga að heimili fólks er og á að vera griðastaður fjölskyldunnar, hvort heldur sem er heimili Jóa Jóns, Banka Bankamanns eða Ölmu Alþingiskonu. Dóm á að kveða upp af þar til bærum aðilum og við verðum að forðast galdrabrennur að hætti miðalda.

Það er mikilvægt að þær reglur sem hingað til hafa gilt í íslensku samfélagi verði virtar hér eftir. Það á ekki síst við um þá reglu að heimilið sé griðastaður. Þar þarf að draga víglínuna, ef við gefum það eftir - hvert leiðir það okkur?


mbl.is Mótmælt við heimili þingmanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími pissukeppna er liðinn

Hin langþráða rannsóknarskýrsla Alþingis leit loksins dagsins ljós í gærmorgun. Miðað við þær upplýsingar sem þar hafa komið fram virðist skýrslan vera vel unnin og mikilvægt innlegg í þá umræðu og uppgjör sem verður að fara fram í íslensku samfélagi í kjölfar bankahrunsins í október 2008.

Í skýrslunni kemur glögglega fram að rót hrunsins má rekja allt aftur til einkavæðingar bankanna og þess hversu hroðvirknislega og illa var unnið að þeirri framkvæmd. Þeir stjórnmálaflokkar sem þá réðu ríkjum voru í gríðarlegri pissukeppni um hver byði betur og hvergi mátti halla á fylgismenn þeirra og bestu vini þegar kom að því að deila út í stað þess að selja í opnu og gegnsæu ferli þessa grundvallareiningu í íslensku samfélagi sem bankarnir eru og voru.

Það eina sem „vel" tókst til við einkavæðingu bankanna var að þeir voru einkavæddir. Þrátt fyrir yfirlýsingar og stjórnvalda þess efnis að tryggð yrði dreifð eignaraðild fórst það algjörlega fyrir og áður en varði voru bankarnir komnir í eigu örfárra einstaklinga sem síðar nýttu sér aðstöðu sína og stunduðu þann ljóta leik að ræna þá innanfrá. Fjármálaráðherra orðaði það ágætlega á Alþingi í gær þegar hann sagði „rán var það og rán skal það heita". Sjálf hefði ég ekki geta orðað það betur.

Til að bæta gráu ofaná svart þá hélt pissukeppni helmingaskiptaflokkanna áfram og þegar Framsóknarflokkurinn hellti olíu á þenslubálið með því að krefjast þess að íbúðalánasjóður byði 90% lán þá átti samstarfsflokkurinn að stíga á bremsuna. Þetta hefur fyrrverandi forsætisráðherra, sem áður var fjármálaráðherra, viðurkennt að hafi verið mistök af hálfu Sjálfstæðisflokksins. En valdaþorstinn réði för í þessu eins og svo mörgu öðru bæði þá og nú og hagfræðingurinn Geir H. Haarde lét sína betri vitund víkja og Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti þenslutillögu Framsóknarflokksins. Það voru örlagarík mistök en án samþykktar fyrir því taldi Geir víst að helmingaskiptaflokkarnir myndu ekki ná saman um endurnýjun ríkisstjórnarsamstarfsins og gaf  flokkurinn því eftir.

Það má sannarlega segja að ræningjarnir innan bankanna beri megin þungann af því hvernig fór en undan því verður ekki vikist að eftirlitsstofnanir, FME og Seðlabankinn, Alþingi og ríkisstjórn Íslands brugðust einnig. Það er því einkennilegt að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis dragi ekki til ábyrgðar bæði stjórn Fjarmálaeftirlitsins né stjórn Seðlabankans.  Á það við um alla þá sem að þessum málum komu og alla þá sem þjóðin hafði kjörið í góðri trú til þess að gæta sinna hagsmuna en situr nú uppi með þá staðreynd að einu hagsmunirnir sem var verið að gæta voru flokkanna og félaganna.

Ennþá hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki upplýst um hverjir voru stærstu styrktaraðilar flokksins síðustu fjögur ár. Sá kattarþvottur sem flokkurinn bauð uppá dögunum var þeim til skammar og sýnir svo ekki verður um villst að í Valhöll búa mörg leyndarmál sem flokksmenn þar skammast sín svo mikið fyrir að þeir treysta sér ekki til að gefa það upp. Í gær og í dag hafa síðan liðsmenn þessa flokks komið fram eins og hvítþvegnir englar og borið af sér allar sakir sem á þá eru bornar í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, þrátt fyrir að bæði formaður og varaformaður flokksins virðast hafa notið óvenjulegrar fyrirgreiðslu í bönkunum. Það er því nauðsynlegt að í kjölfarið verði farið rækilega ofan í saumana á fjármálum allra núverandi þingmanna og ráðherra til að tryggja að ekki séu óeðlileg hagsmunatengsl til staðar.  

Almenningur má ekki láta fagurgala þessa fólks villa sér sýn. Því þó ábyrgðin liggi sannarlega innan bankanna þá bera þeir einstaklingar sem kosnir voru til að gæta hagsmuna þjóðarinnar líka mikla sök og þeir verða að koma fram og játa sína ábyrgð og víkja sæti þar sem það á við. Á það við um alla þá stjórnmálamenn sem að þessu máli hafa komið og þó helst þá sem mesta ábyrgð höfðu og voru í hringiðunni þegar mest gekk á.

Tími pissukeppna er liðinn.


Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 129408

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband