Leita í fréttum mbl.is

Kópavogur - bærinn minn (framhald)

Um miðjan febrúar skrifaði ég nokkrar færslur hér á bloggið mitt um upplifun mína af því að vera kjörinn varabæjarfulltrúi í Kópavogi. Ástæðan fyrir þessum skrifum var sú að mér þykir undurvænt um bæinn minn og fann hjá mér þörf til að segja frá því hvernig stjórnunarstíllinn er meðal meirihlutaflokkanna í Kópavogi.

Frá því í febrúar hefur margt gerst og hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að bæjarstjórinn í Kópavogi hefur átt í vök að verjast undanfarið vegna viðskipta við fyrirtæki dóttur hans, Frjálsa miðlun, undanfarin ár. Fjölmiðlar hafa verið uppfullir af fréttum af málinu og ég held að fjölmiðlafulltrúi Kópavogsbæjar hafi skrifað grein í Morgunblaðið í morgun í nafni bæjarstjórans þar sem reynt er að verja þær ávirðingar sem fram koma í hans garð í endurskoðunarskýrslu Deloitte vegna viðskiptanna við Frjálsa miðlun. Svo virðist sem varnarræðan falli að þessu sinni í grýttan jarðveg, enda er þolinmæði þjóðarinnar gagnvart spillingu, einkavinavæðingu og öðru slíku löngu brostin.

Í vörn sinni hefur bæjarstjóranum orðið tíðrætt um að Kópavogsbær hafi samþykkt siðareglur fyrst allra sveitarfélaga á Íslandi. Ef einhversstaðar var þörf á siðareglum í sveitarfélögum á Íslandi þá var það í Kópavogi, siðareglurnar voru því settar hér af brýnni nauðsyn. En í tilefni af umræðum bæjarstjórans um siðareglurnar er vert að rifja upp það sem ég skrifaði í febrúar um tilurð þessara siðareglna.

Nýjasta dæmið um þvingunarstarfsemi bæjarstjórans eru siðareglur sem samkomulag var um að taka upp innan stjórnkerfis Kópavogsbæjar. Var það skoðun bæjarfulltrúa minnihlutaflokkanna að samkomulag væri um að siðareglurnar væru unnar í samvinnu allra flokka. En á síðasta bæjarstjórnarfundi ber svo við að bæjarstjóri leggur siðareglurnar fram til fyrri umræðu, án þess að bera frumdrög þeirra undir minnihlutann. Og ekki nóg með það, hann ætlaðist til þess að reglurnar yrðu samþykktar til síðari umræðu án mikilla athugasemda af hálfu minnihlutans. Við slíkt var að sjálfsögðu ekki unað af okkar hálfu en í þessu máli eins og svo mörgum öðrum var meirihlutavaldi beitt í þeim tilgangi einum að aðeins ein skoðun sé markæk, þannig var lýðræðið borið ofurliði og raddir okkar hafa mátt sín lítils.

Það er því hjákátlegt að heyra bæjarstjórann hreykja sér af siðareglunum nú þegar hann sjálfur er uppvís að afar misjöfnum viðskiptaháttum um langt árabil.

Fyrst ég er byrjuð þá get ég ekki hætt án þess að minnast ögn á manninn sem ber ábyrgð á meirihlutanum í Kópavogi, fulltrúa Framsóknarflokks, formann bæjarráðs. Drengurinn sá háði á sínum tíma hatramma baráttu við þá nýjan frambjóðanda í flokknum, Samúel Örn Erlingsson. Samúel virtist eiga góða möguleika á að ná langt í framboðinu, jafnvel markmiði sínu sem var 1. sætið á lista flokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 2006. Ég var stödd á heimili Samúels þegar talning í prófkjörinu fór fram. Lengi vel munaði afar mjóu á milli þeirra félaga en Ómar hafði nauman sigur þegar upp var staðið.

Fljótlega eftir prófkjörið kvisuðust út fréttir um að ekki hafi allt verið sem sýndist í prófkjöri þeirra framsóknarmanna. Orðrómur um fjölda sjálfstæðismanna sem mættu á kjörstað var sterkur, sem og um „óeðlilega“ framkomu háttsettra starfsmanna bæjarins sem eiga að hafa smalað bæjarstarfsmönnum í prófkjörið. Þótti víst að þar hafi verðandi formaður bæjarráðs beitt áhrifum sínum sem bæjarfulltrúi og starfsmaður bæjarins til hins ýtrasta auk þess sem orðrómur var uppi um að bæjarstjórinn hvetti sitt fólk til þess að styðja við Ómar í prófkjörinu. Það er ekkert ólöglegt við þessi meintu afskipti bæjarstjórans og starfsmanna bæjarins að prófkjöri framsóknarmanna. Prófkjörið var opið og öllum frjálst að taka þátt en það er ljóst að aðstöðumunur milli frambjóðenda í 1. sætið var afar mikill.  Það má einnig spyrja sig af hverju efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins hafi beitt sér með þeim hætti sem orðrómur er uppi um að hann hafi gert í prófkjöri Framsóknarflokksins.

Miðað við framansagt er ljóst að formaður bæjarráðs á bæjarstjóranum skuld að gjalda og nú er spurningin þessi, mun Ómar gjalda Gunnari greiðann eða mun hann standa vörð um heiður, æru og sóma Kópavogsbæjar.

(ögn leiðrétt/lagfært í dag 12. júní)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Já, það er sko stóra spurningin! 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 12.6.2009 kl. 00:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband