Leita í fréttum mbl.is

Meira af '68 kynslóðinni

Í tilefni mótmælanna á pöllum ráðhússins í síðustu viku og þess að '68 kynslóðin fagnar um þessar mundir 40 ára afmæli þá leitaði ég eftir orðunum „’68 kynslóðin“ á www.google.is. Mér til mikillar ánægju kom upp bloggsíða Bimbu frænku minnar, og nöfnu, sem er því miður hætt að blogga. Hún er ótrúlega skemmtileg kona en í fögnuði '68 kynslóðarinnar á Hótel Sögu 2006 var hún beðin um að halda hátíðarræðuna. Ég varð að deila þessu með ykkur!

„Það má segja að við höfum upplifað miklar breytingar. Þeir sem eru af hinni raunverulegu 68 kynslóð muna tímana tvenna.Við munum eftir því þegar hápunktur vikunnar var barnatíminn á sunnudögum, flesta daga vikunnar var fiskur í matinn og lambalæri um helgar. Það sem var hvað mest framandi var saxbauti úr dós (hvað sem það var nú).

Það var ein útvarpsstöð. Við hlustuðum á lög unga fólksins einu sinni í viku þátturinn stóð yfir í rúman hálftíma á þriðjudagskvöldum ef ég man rétt og styttist ef það var mikið af tilkynningum eða auglýsingum eins og fyrir jólin. Á laugardagskvöldum var dagskrárliður sem var kynntur einhvern veginn svona. „Útvarp Reykjavík - nú verða leikin danslög af plötum ýmsir listamenn spila“. Þá hlustuðum við í von um að það slæddist eitt og eitt bítlalag inn á milli þess að Karl Jullarbo sveiflaði nikkunni af mikilli snilld og þýskir listamenn spiluðu lög frá ýmsum löndum.

Það var því fjör í kringum fóninn þegar þulurinn tilkynnti þurrlega að nú myndu bresku bítlarnir leika og syngja syrpu af lögum – það var alveg toppurinn!

Einstaka stóreignamenn áttu plötuspilara og plötur en algengast var að fólk ætti ferðaútvarpstæki af gerðinni Nordmende sem í þá daga var algeng fermingargjöf.

Sjónvarp var ekki til nema Kanasjónvarpið sem var inni á einstaka heimilum og það þótti mikið sport að komast einhvers staðar í að horfa á Bonansa eða Ed Sullivan sjóið.

Þá voru mjólkurbúðir og við fórum með brúsa út í mjólkurbúð og afgreiðslustúlkan veiddi mjólkina upp úr stórum mjólkurbrúsum og pakkaði skyrinu inn í smjörpappír.

Krakkar fóru út í búð með net og miða í buddu sem þau réttu kaupmanninum sem afgreiddi vörurnar OMO þvottaduft, Camel sígarettur og 1313 sápu. Hann var oftast svona þjónustulipur týpa vatnsgreiddur í hvítum slopp. Þá hétu búðirnar í Vesturbænum Brekka, Straumnes, Sunnubúð eða Pétursbúð.

Við munum þegar það voru hvít jól og þegar íslendir námsmenn erlendis sendu jólakveðjur heim blindfullir og klipu börnin sín og þvinguðu þau til að muldra e-r kveðjuorð til afa og ömmu.

Sumir fóru í siglingar eins og það var kallað nokkrum sinnum yfir ævina, og þá var ætlast til að fólk yrði sólbrennt ef það fór til útlanda. „HVA varstu í Danmörku og ert ekkert brún. Hvað keyptirðu?“ Þá gat sá hinn sami fengið uppreisn æru ef hann hafði keypt e-ð spennandi. Og þeir sem fóru í siglingar voru iðulega beðnir að kaupa hitt og þetta fyrir vini og ættingja.

Ég man eftir að hafa séð bréf sem mamma mín skrifaði pabba þegar hann var í útlöndum. Þá var hún greinilega búin að senda honum innkaupalista en þetta var bara smá viðbót: Svo ætla ég að biðja þig að kaupa gúmmístígvélin á krakkana, ljósbláar buxur nr. 16 með uppábroti og spæl að aftan fyrir hana Önnu á 10, og dekk undir Fíatinn hans pabba svo biður Jón bróðir þig að kaupa fyrir sig einn bjórkassa.

Skólaböll voru haldin tvisvar á vetri og þau voru kölluð dansæfingarnar. Þá voru litlar hnellnar stelpur með túperað hár og stór brjóst í tísku og við þessar löngu mjóu flatbrjósta stúlkur stóðum í röðum í felldu pilsunum okkar og peysusettum og biðum þess að einhver strákurinn mundi slysast til að bjóða okkur upp.

Þvílíkur léttir þegar við frelsuðumst, hentum uppstoppuðum brjóstahöldurunum og fórum að dansa berfættar þegar okkur sýndist með slegið hár og í hippamussum. Það var sko frelsun.

En nú sjáum við nýja útgáfu af 68 kynslóðinni. Það er fólk sem er vel efnað, annars hefði það ekki efni á að koma á þetta ball, mjög fastheldið. T.d. verða allir að sitja við sömu borð ár eftir ár- og stór hluti þeirra kýs Sjálfsstæðisflokkinn eða Framsókn, þessi grein '68 kynslóðarinnar er jákvæð og hefur gaman af að skemmta sér – er það ekki??? Og rannsókn sem greint var frá í fréttum nýlega kemur fram að það trúir á jólasveininn og uppáhalds jólasveinninn er Stúfur en vinstri grænir fíla best Kertasníki, enda er hann umhverfisvænn með kertin sín. Og örugglega á móti virkjunum.

Mörg okkar muna ótrúlega langt aftur í tímann m.ö.o. við erum komin á efri ár. Það er því orðið tímabært að hugsa um hvernig við viljum hafa það í ellinni. En á seinni árum hefur samfélagsmyndin breyst gífurlega frá því sem áður var komið inn á og er sýnt að við munum verða kröfuharðari en sú kynslóð sem nú er elsta kynslóðin.

Við erum eftirstríðsára börnin sprengjukynslóðin sem hefur sprengt allt utan af sér, skólana, háskólana, vinnumarkaðinn þegar konur fóru að þyrpast út á vinnumarkaðinn og nú bráðum elliheimilin. Í ár verða fyrstu eintökin af sprengju kynslóðinni sextug - eftir 5 ár förum við að nálgast óðfluga eftirlaunaaldurinn.

Ég er að vona að '68 kynslóðin sem nú hefur lagst í dvala og jarðað gamla baráttuviljann og uppreisnarhugann fari að róta í kistunni sinni og rifji upp gamlar baráttuaðferðir og beita þeim í þágu aldraðra flower power og pís, engin læti eða ofbeldi."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband