Leita í fréttum mbl.is

Landsleikurinn vonbrigði - Sýnarmenn samir við sig

Það voru óneitanlega vonbrigði að íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu skuli ekki hafa sýnt betri leik en það gerði á Parken í kvöld. Það sýndi sig líka að Ólafur Jóhannesson, nýr þjálfari liðsins, á langt í land með liðið og hans munu sjálfsagt bíða nokkrar andvökunætur vegna þess á næsta ári. Persónulega þá þótti mér verst hversu lítill bati var hjá varnarlínu Íslands í leiknum. Enn og aftur voru varnarmennirnir að missa sóknarmenn á milli sín og er alveg makalaust hversu svifaseinir þeir virðast vera þegar þeir mæta sæmilega fljótum leikmönnum.

En leikurinn er afstaðinn og ég ætla ekki að vera með eitthver vol og væl hér. Alls ekki. Framundan eru spennandi tímar. Það verður dregið í nýja keppni, undankeppni HM í Suður-Afríku 2010, á næstunni og það verður spennandi að sjá hvaða lið koma uppúr hattinum þar. Ég hef fulla trú á því að Ólafi Jóhannessyni takist að hnoða liðinu saman í þeirri keppni. Óli er, eftir því sem ég hef heyrt, nokkuð undarlegur fýr sem fer sínar eigin leiðir og það er einmitt það sem hann á að gera. Hann þarf að stjórna liðinu, liðið á ekki að stjórna sér sjálft. Því miður virtust leikmenn vera komnir á þá skoðun undir það síðasta hjá Eyjólfi Sverrissyni (eins og ég hef áður skýrt frá á þessari síðu) og því fór sem fór hjá honum. Um leið og leikmenn átta sig á því að þeir eiga að fylgja fyrirmælum þjálfarans og fara að hans ráðum út allan leiktímann í öllum leikjum þá held ég að Ísland eigi möguleika á betri árangri en hingað til.

Sýn sýndi beint frá leiknum í Parken í kvöld. Það var frábært framtak hjá þeim og lýsingar þeirra Arnars Björnssonar og Loga Ólafssonar voru á köflum kostulegar, þó þær snerust á stundum alls ekki um fótbolta. Það er bara hressandi sérstaklega í leik eins og þeim sem við sáum í kvöld þar sem í raun var fátt um fína drætti. Eftir leikinn átti sér síðan stað þáttur þar sem Hörður Magnússon spilaði bút og bút úr viðtölum við þá Geir Þorsteinsson, formann KSÍ, og Ólaf Jóhannesson nýráðinn landsliðsþjálfara.

Hörður var búin að búta viðtölin niður í einhverskonar málaflokka og hann fékk síðan til liðs við sig einstaklinga sem sögðu skoðanir sínar á svörum þeirra og því hvernig þeir myndu gera hlutina öðruvísi. Þetta var vissulega ágætt form af þætti þar sem fjallað er um knattspyrnu, en ég get tæplega talið að þarna hafi Hörður staðið faglega að verki. Það getur ekki talist fagleg umfjöllun þegar aðeins ein skoðun kemur fram á málunum, Hörður virðist hafa rætt við þá Geir og Ólaf algjörlega gagnrýnislaust, lagt fyrir þá spurningar, fengið svör ... sem hann svo lagði fyrir menn til að gagnrýna. Þá voru þeir Geir og Ólafur víðsfjarri og áttu enga möguleika á að svara fyrir sig þegar á þá var hallað. Átti þetta sannarlega meira við um Geir en Ólaf, þó hann hafi sjálfsagt haft sitt lítið af hvoru að athuga við sumt af því sem þarna kom fram.

Alls komu sjö „spekingar“ í settið til Harðar, fyrst mættu þeir Guðjón Þórðarson og Willum Þór Þórsson, síðan komu þeir Atli Eðvaldsson, Ólafur Þórðarson og Rúnar Kristinsson og í síðasta hluta þáttarins mættu þeir Henry Birgir og Snorri Sturluson. Allt eru þetta mætir menn, hver á sínu sviði, þó ég sé sannarlega ekki alltaf sammála öllu því sem þeir segja og/eða gera í knattspyrnu. Látum það liggja milli hluta.

Willum, minn gamli skólabróðir, fór að mínu viti einna best út úr þessum þætti. Hann var klókur og vísaði á Guðjón þegar hann var sammála sleggjudómum um stjórn KSÍ og það starf sem þar fer fram enda er Guðjón ekki maður sem liggur á skoðunum sínum. Guðjón virtist hins vegar nokkuð spældur yfir því að hann hafi ekki fengið tækifæri til að stýra landsliðinu í þessum leik. Ég hef engar áhyggjur af því að Gaui muni ekki taka aftur við liðinu, hans tími mun koma, það þarf hins vegar fyrst að fenna almennilega yfir sporin.

Í næsta holli voru þrír skynsamir menn. Atli Eðvalds, Óli Þórðar og Rúnar Kristins. Þetta var skemmtilegasti hlutinn af þættinum. Þarna sátu þrír fyrrverandi landsliðsmenn og tveir fyrrum starfsmenn KSÍ, og sögðu sína skoðun á KSÍ og stjórn þess. Það var í lagi, það þola allir réttmæta gagnrýni og þeirra hlutur var bara algjörlega þolanlegur. Þeir fóru dálítið út á sömu braut og ég hef áður gert hér, þ.e. að benda á þátt leikmannanna sjálfra í slöku gengi liðsins. Óli hefur lengi verið einn af mínum uppáhalds persónum enda gæti hann klárlega verið Gunnar á Hlíðarenda endurfæddur, maður sem lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna og lætur engan segja sér fyrir verkum. Hann talar hug sinn og er heiðarlegur. Óli átti setningu kvöldsins er hann sagði eitthvað á þá leið að „velmegun í íslensku samfélagi stæði fótboltanum fyrir þrifum því ungir leikmenn köfuðu bara dýpra í vasa foreldra sinna í stað þess að leggja eitthvað á sig til að ná því takmarki sem þeir ætluðu sér!“ Þarna sló ég mér á lær og hrópaði húrra!

Lokapartur þáttarins var síðan ein allsherjar kómedía. Snillingarnir Henry Birgir og Snorri Sturluson mættir í settið og byrjuðu á því að segja að KSÍ væri með sleggjudóma í garð fjölmiðlamanna. Ja, tali nú hver fyrir sig! Og enduðu síðan á að segja að menn mættu ekki taka allri gagnrýni persónulega sem að þeim væri beint. Bíddu við, hvernig á að taka gagnrýni sem að mönnum er beint? Telja þeir að öll sú gagnrýni sem Eyjólfur Sverrisson varð fyrir af þeirra hálfu hafi ekki verið persónuleg, eða gagnrýni á Eggert Magnússon, nú eða gagnrýni á Geir Þorsteinsson? Þegar þeir gagnrýna stjórn KSÍ fyrir öll hennar verk halda þeir þá ekki að stjórnarmenn, eins og ég, taki því ekki persónulega? Ég efast reyndar um það að þeim verði hugsað til mín þegar þeir tala um stjórn KSÍ en auðvitað er öll gagnrýni sem beinist að stjórninni einnig beint að þeim einstaklingum þar sitja og starfa og það er ekkert nema eðilegt að viðkomandi taki hana persónulega. Annað er einfaldlega ekki hægt. Ef menn tækju slíkri gagnrýni ekki persónulega þá fyrst er eitthvað að, nú nema menn séu bara úr steini ...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

það er óþolandi að landsleikir skuli vera í læstri dagskrá einkastöðvar.  sértaklega þar sem ríki og sveitarfélög styrkja þessa íþrótt meira en góðu hófi gegnir. með okkar skattpeningum. Ef ksí vill hafa þetta einka, þá er það ágætt, en þá á líka allt að vera einkarekið

Þorsteinn Ingimarsson (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 14:13

2 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæl aftur Ingibjörg las þessar hugleiðingar þínar eftir að hafa lesið Ég játa bloggið þitt.

Ætla að vera þér algjörlega ósammála hvað varðar gagnrýni. Gagnrýni á verk Eyjólfs Sverrissonar þarf hann alls ekki að taka persónulega. Það er gagrnýni á verk en ekki persónu. Ef móttakari gagnrýni tekur gagnrýnina alla inn á tilfinningasviðið hjá sér, hefur viðkomandi ekki þroska að standa í framlínunni. Ég get gagnrýnt vinnubrögð Geirs Þorsteinssonar þrátt fyrir að mér finnist hann hinn mætasti maður. Ég virði Eggert Magnússon fyrir marga þætti sem hann hefur gert fyrir knattpsyrnuhreyfinguna  á Íslandi, en ég tek fyllilega undir þau sjónarmið Henrys og Sturlu að skoðanaskipti um landslið undanfarinna ára, svo og frammistöðu KSÍ voru allt of lítil. Á stundum fannst manni undirlægjuhátturinn vera óbærilegur. Í núverandi sjórn KSÍ eru ágætir þungaviktarmenn. Ef þeir stjórnarmenn ætlast til að leikmennirnir leggi sig 100% fram, þurfa stjórnarmennirnir að gera það líka. Ég vonast til þess að fjölmiðlamenn munu  standa sig í því að veita leikmönnum, þjálfara og stjórn þétt aðhald, benda á það sem hægt væri að gera betur, en líka virða það sem vel er gert.

Sigurður Þorsteinsson, 23.11.2007 kl. 18:06

3 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sæll Siggi,

takk aftur. Ég er hjartanlega sammála þér að stjórnarmenn þurfi að leggja sig 100% fram í sínum störfum rétt eins og við gerum kröfu til leikmannanna. En ég ætla að vera 100% ósammála þér um það að menn eigi ekki að taka gagnrýni persónulega. Hvernig er hægt að taka grein í Fréttablaðinu ekki persónulega þegar þar stendur: "Eyjólfur segðu af þér!"  .... Hvernig getur það ekki verið persónulegt. Fyrirsögnin hefði allt eins getað verið "Rekið þjálfarann!" Það hefði ekki verið persónulegt, en þegar menn hefja gagnrýnina á nafni viðkomandi þá getur sá hinn sami ekki annað en tekið gagnrýnina persónulega!

Heyrumst síðar.

ps. Steini ... algjörlega sammála þér með sýningarnar á læstri stöð, auðvitað á þetta að vera á RÚV!

Ingibjörg Hinriksdóttir, 24.11.2007 kl. 18:08

4 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæl Ingibjörg

 Ég held að við séum að tala út og suður. Þegar Fréttablaðið skrifar Eyjólfur segðu af þér, þá túlka ég slík skrif að frammistaða landsliðsins sé óásættanleg. Það getur verið að þær áherslur sem Eyjólfur er að leggja séu ekki árangursríkar. Einhvern vegninn fanns manni landsliðið ekki einu sinni vera á réttri leið. Það getur verið með uppstillingin, það getur verið undirbúningur fyrir leik og það getur stafað af mörgum öðrum þáttum. Þegar þjálfari tekur slíkri gagnrýni sem persónulegri árás, er það röng viðbrögð. Ef gagnrýni er meiðandi getur þjálfari tekið hana persónulega. Það er allt annað en þegar verið er að gagnrýna verk.

Sigurður Þorsteinsson, 25.11.2007 kl. 13:43

5 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sæll Siggi,

Fyrirsögnin "Eyjólfur segðu af þér!" vísar til þess að landsliðsþjálfarinn, sem var Eyjólfur Sverrisson, eigi að segja af sér. Það er mat viðkomandi blaðamanns að persónan, maðurinn Eyjólfur Sverrisson sé ekki að standa sína pligt með landsliðið og eigi því að segja af sér. Slíkt er ekki hægt að taka öðruvísi en persónulega, rétt eins og ef ég skrifaði í fyrirsögn á bloggið mitt "Sigurður hættu nú" þá lofa ég þér því að ég meina það að þú eigir að hætta og ég lofa því líka að þú munir taka það persónulega því í slíkri fyrirsögn felst ekkert annað en bein ábending til þín persónulega um að þú eigir að hætta! 

Ég mun hins vegar ekki setja inn slíka fyrirsögn, mér finnst bara gaman að því að ræða þetta við þig en mér sýnist á öllu að við verðum ekki sammála um túlkunina. Mér er það lífsins ómögulegt að skilja hvernig fyrirsagnir eins og "Eyjólfur segðu af þér!" sé ekki hægt að taka persónulega.

Við heyrumst síðar ;-)

Ingibjörg Hinriksdóttir, 25.11.2007 kl. 20:04

6 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

ps.  þegar þú skrifar "Það getur verið að þær áherslur sem Eyjólfur er að leggja séu ekki árangursríkar" þá hefði fyrirsögnin á greininni hæglega getað verið "Algjört árangursleysi!" eða "Röng taktík í tapleik!" nú eða "Eintómt skipulagsleysi, liðið komið í þrot". Þarna er ekki vísað á þjálfarann beint eða persónulega heldur þær aðferðir sem hann leggur upp með gagnrýndar. Þegar það er gert þá er engin ástæða til að taka henni persónulega.

;-) Ingó

Ingibjörg Hinriksdóttir, 25.11.2007 kl. 20:08

7 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæl Ingibjörg

Ég minnist þess að hafa séð hlutfall unnina leikja eða stiga hjá landsliðsþjálfurum og ef ég man rétt var útkoman undir stjórn Eyjólfs skelfileg. Fyrirsagnir Fréttablaðsins eru mun meira í dúr þess sem við myndum sjá á blöðum nágrannaþjóða okkar þegar illa gengur. Ef þjóðin yrði spurð, myndi hún eflaust segja að árangurinn væri algjörlega óásættanlegur. Að mínu mati liggur ábyrðin hjá KSÍ. Þegar Atli Eðvaldsson var ráðinn landsliðsþjálfari var hann allt of reynslulítill og hrökklaðist úr starfi. Tel að Atla hafi ekki verið greiði gerður því hann var á mjög góðri leið sem þjálfari félagsliðs. Tel enn að mikið búi í Atla og tækifæri sem hann hafi fengið séu of fá. Vonandi verður þetta ekki raunin með Eyjólf, því að hafi það verið vond tímasetning á ráðningu hjá Atla, var Eyjólfur nánast byrjandi í faginu og útkoman rétt í samræmi við það. Aftur vona að Eyjólfur hætti ekki því ég er sannfærður um að hann á eftir að gera góða hluti í framtíðinni.

Fréttablaðið hefur valið beittari skrif en t.d. Morgunblaðið sem er nú ef til vill ekki samanburðarhæft. Þar á bæ minnir mig að þeir hafi skrifað eftir 6-0 tapið fyrir Danmörku að það þyrfti að lagfæra einhver smáatriði. Þá bið ég frekar um skrif Fréttablaðsins þó að beitt séu.

Sigurður Þorsteinsson, 26.11.2007 kl. 21:30

8 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sæll Siggi,

þetta er rétt hjá þér. Árangur Eyjólfs var slakur, um það deili ég ekki. En að horfa til nágrannaþjóða okkar og benda þar á gulu pressuna svokölluðu ... það er ekki minn tebolli! Við megum ekki gleyma því að í þessu landi hér búa rúmlega 300 þúsund sálir. Við getum ekki og eigum ekki að haga okkur eins og við séum milljónaþjóð og ég frábið mér fréttamennsku eins og þá sem t.a.m. tíðkast í bresku blöðunum.

Mér dettur ekki í hug að segja að ráðning Eyjólfs hafi verið mistök. Það er eins og að hlusta á lýsingu af fótboltaleik og heyra Gauja Þórðar segja eftir að einhver hefur klúðrað dauðafæri, hann hefði átt að gefa út á kantinn þar sem Billi hefði komið hlaupandi og þá hefði Kalli getað verið kominn í overlapp og síðan hefði Siggi skallað boltann í netið eftir að Billi sendi á Kalla sem hefði sent frábæra fyrirgjöf, enda með ótrúlegan vinstri fót! ... Þá kýs ég frekar íþróttafréttir Bændablaðsins.

Þegar Eyjólfur var ráðinn hafði hann náð ágætum árangri með U21 árs liðið. Þeir leikmenn sem þar voru og þeir stjórnarmenn sem unnu með honum þar töldu að hann hafi verið á réttri leið með það lið og að hann gæti skilað miklu til A-landsliðsins. Og nú ætla ég að minna þig á að það eru til fleiri mælikvarðar á árangur heldur en sigrar og töp!! Eyjólfur var einn af okkar allra bestu leikmönnum á sinni tíð, hann hafði það hugarfar og baráttuvilja sem menn töldu að vantaði í A-liðið og það var trú stjórnarinnar að hann gæti komið því hugarfari inní liðið. Því miður gekk það ekki eftir og þó ég ætli ekki að fría Eyjólf algjörlega þá á hann ekki nema eitt púsl í því spili.

kv. Ingó

Ingibjörg Hinriksdóttir, 27.11.2007 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 129405

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband