Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Áfram Gulli Júl!

Það er öruggt að ég kem til með að fylgjast með þessu hlaupi ... svona með öðru auganu! Held með klikkaðasta hlaupara sem ég þekki Gunnlaugi Júlíussyni. Hann er örugglega einn af skipuleggjendum þessa hlaups og verður sjálfsagt líka meðal hlaupara.

Go Gulli!Happy


mbl.is 100 km hlaup í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegur dagur í ensku bikarkeppninni

Það má segja að dagurinn í dag hafi verið hreint ótrúlegur í ensku bikarkeppninni. Bæði Manchester United og Chelsea eru úr leik eftir að hafa lotið í gras gegn Portsmouth og Barnsley. Ég sá því miður ekki leik Manchester United og Portsmouth en ég sá hins vegar megnið af leik Barnsley og Chelsea. Það var alveg magnað. Það eru svona leikir, þar sem „litla“ liðið berst um hvern einasta bolta, fer í hverja einustu tæklingu og heldur 100% einbeitingu allan leikinn, sem fá mig til að halda áfram að fylgjast með þessari frábæru íþrótt.

Barnsley-liðið getur verið okkur Íslendingum fyrirmynd. „Hvernig stendur á því?“ gæti einhver spurt. Það er vegna þess að hugarfarið sem Barnsley hefur sýnt í leikjunum gegn Liverpool og Chelsea sannar að ÞAÐ ER ALLT HÆGT í fótboltanum.

Í nokkur ár hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fylgjast með unglingalandsliðum Íslands í knattspyrnu kvenna. Ég reyni að skipta mér sem minnst af í eldri liðunum en í því yngsta, 17-ára liðinu, þar hef ég reynt að telja stelpunum trú um það að hugarfarið geti komið þeim hálfa leið ... í það minnsta. Stundum hafa þessar ræður mínar virkað, stundum ekki. Ég trúi því þó enn að fái leikmenn liðsins nægilega jákvæða hvatningu og stuðning þá er okkar liði allir vegir færir, rétt eins og liði Barnsley sem er komið í undanúrslit á Wembley - leikvellinum. Draumavelli allra knattspyrnumanna.


Væri það nóg

Það er alveg greinilegt að heilsan er öll að koma, nú finn ég endalausar ástæður til að skrifa færslur á síðuna. Kannski er það heimsókn Harðar Torfa, kannski eru það skemmtileg viðbrögð bloggvina minna sem verða þess valdandi að ég er kaldari við að birta bullið mitt. „Ástina sína að finna“ fékk góð viðbrögð en ég á annað ljóð í handraðanum sem er samið við franska lagið S'il Suffisait D'aimer sem Celine Dion söng um árið. Ekki sérlega þekkt lag og ég hef í sjálfu sér ekki hugmynd um hvað það er.

Einhverra hluta vegna hef ég góð eyru og hið ólíklegasta fólk vill gjarnan trúa mér fyrir vanda sínum, gleði og sorgum. Það er í lagi, ég get hlustað og ég lít á það sem upphefð að vera treyst. Eitt sinn kom vinkona mín til mín og var í vanda stödd. Hún væri ákaflega hrifin af strák sem hún var með og sagði mér ... „ég elska hann, en ég er ekki viss um að ég sé ástfangin af honum.“ Það var eitthvað í þessum orðum sem kveikti hjá mér hugsun og til varð ljóðið „Væri það nóg að elska“.

Ljóðið má finna inná vefsíðunni minni www.ingibjorg.net undir Ljóðin og er þar síðasta ljóðið í pakkanum. Prufaðu að smella á lagið með Celine Dion hér til hliðar og syngja ljóðið með ... Mér finnst þetta ganga upp.


Öll að koma til - og óvænt heimsókn

Mikið óskaplega finnst mér leiðinlegt að vera veik. Hvað er varið í það að hanga heima hjá sér allan daginn, emjandi úr beinverkjum, vorkennandi sjálfum sér og hundleiðast? Ekkert, það er nákvæmlega ekkert spennandi. Ég skil ekki í fólki sem „notar“ sína tvo veikindadaga í mánuði. Því miður þekki ég of mikið af slíku fólki og verð að viðurkenna að ég hef ekki mikið álit á framferðinu.

Sem betur fer er ég þó að uppskera eftir að hafa haldið mig innandyra í tvo sólarhringa. Hitinn er horfinn og hálsbólgan minnkar hægt og rólega. Allt að gerast og kannski mæti ég bara í vinnuna á morgun. Hef reyndar fengið hótanir þaðan að ef ég læt sjá mig þá verði mér varpað á dyr. Við sjáum til með það. Hef reyndar náð að vinna fullt héðan af heiman, kom meira að segja öllum frá vinnu í dag með því að endurræsa netþjóninn héðan að heiman, já mikill er mátturinn gott fólk! Cool

Það birtist óvæntur gestur hjá mér í dag. Fyrir nokkru pantaði ég mér disk þar sem haldið var uppá afmæli Harðar Torfasonar. Nokkrir vinir hans í tónlistargeiranum boðuðu til tónleika, sungu lögin hans honum til heiðurs og gáfu út á geisladiski. Fyrir tilviljun villtist ég inná vefsíðu Harðar Torfa og sá að ég gat pantað þennan disk af vefsíðunni. Ég gerði það og spáði svo ekki meira í málið. Nema hvað, haldið þið að Hörður Torfason hafi ekki bara hringt í mig og boðað komu sína með diskinn. Ég varaði hann við að ég væri veik heima og því kannski ekki í standi til að taka á móti háttvirtum trúbadorum en hann blés á það og mætti galvaskur og töffaralegur heim til mín í dag. Ég var náttúrulega eins og einhver trúður þegar ég opnaði dyrnar, í köflóttum náttbuxum með klauf og þykkri peysu með rúllukraga. Ég veit ekki hvað blessaður trúbadorinn hefur hugsað þegar hann sá mig. En hann kom færandi hendi með diskinn og ég var fljót að setja hann í spilarann. Flottur diskur þar sem hin mestu ólíkindatól flytja lögin hans Harðar. Mér finnst lagið Stjörnuhrap sem Fabúla syngur vera besta lagið á diskinum en ég verð þó að viðurkenna að ég er alltaf dálítið svag fyrir Litlum fugli, Guðjóni og Ég leitaði blárra blóma. Allt frábær lög í dálítið óhefðbundnum flutningi.

Kannski var það bara Hörður Torfa sem kom mér á lappir og uppúr veikindunum. Hver veit, ég er a.m.k. mikið hressari en síðustu tvo daga og nýt þess að hlusta á Heiðurstónleika Harðar Torfasonar. Hafi hann þökk fyrir sendinguna.


Ástina sína að finna

Fyrir allmörgum mánuðum einsetti ég mér að setja hér inn tónlist við eitt af þeim ljóðum sem ég hef samið í gegnum tíðina. Ljóðaskrif mín undanfarin misseri hafa því miður verið af ákaflega skornum skammti en þó held ég í vonina að það lifni yfir mér einn góðan veðurdag.

Eitt ljóð minna heitir „Ástina sína að finna“ og fjallar um stúlku sem kastar sér í straumharða á þegar ástin hennar deyr. Heldur tregafullt ljóð en systkinabörn mín Ellert S. B. Sigurðarson og María Konráðsdóttir komu mér á óvart fyrir nokkrum árum á fertugsafmæli mínu. Elli hafði samið lag við ljóðið og hann, María og fleiri fluttu mér það í afmælisveislunni.

Þetta var náttúrulega hápunktur veislunnar og ég varð klökk við að heyra ljóðið mitt komið í viðhafnarbúning. Lagið má nálgst hér til hliðar á síðunni en ljóðið er svona. Það má syngja með!

Ástina sína að finna
Þar er straumurinn mestur
og áin svo stór
og hún stendur í vatninu
stúlkan sem fór
ástina sína að finna.

Þó þau hrópuðu á hana
og kölluðu í kór
þau fengu engu breytt
því stúlkan hún sór
ástina sína að finna.

Svo hreif hana straumurinn
sterkur og stór
hreif hana með sér
hana sem fór
ástina sína að finna.

Þeir fundu’ hana neðar
svo létta á brún
og brosandi í framan
því búin var hún
ástina sína að finna.

Og þú sérð þau á himnum
sem stjörnurnar tvær
þær lýsa upp nóttina
því nú eru þær
búnar ástina sína að finna.

 


Flensan búin að ná mér

Þá náði flensan í afturendann á mér, allt að því í bókstaflegri merkingu því beinverkir í neðanverðu baki og lærum eru með hreinum ólíkindum W00t. Þegar svona er ástatt þá er ekki annað að gera en reyna að lesa, hlusta á tónlist og horfa eitthvað á sjónvarpið en því miður var þessi dagur ekki besti sjónvarpsdagurinn. Ég hugði þó gott til glóðarinnar og stillti á Alþingi, þar eru oft umræður í upphafi þingfunda sem getur verið skemmtilegt að fylgjast með. Mér til mikillar ánægju sofnaði ég yfir umræðunum eftir um það bil hálftíma áhorf.

Í kvöld beið ég síðan spennt eftir leik AC Milan og Arsenal og var mjög hneyksluð á gestum í myndveri þegar þeir spáðu báðir að AC Milan myndi hafa sigur. Það gekk náttúrulega ekki upp í mín eyru enda fór það svo að mínir menn í Arsenal unnu sannfærandi og sanngjarnan 2-0 sigur á ítalska liðinu.


Fínn sigur Blika á ÍBV

Hann var erfiður gærdagurinn fyrir Eyjamenn. Allt á kafi í snjó og þeir sem voru á landi voru kaffærðir í leik Breiðabliks og ÍBV sem fram fór í Kórnum. Blikaliðið lék eins og þeir sem valdið hafa og unnu sérlega sannfærandi sigur, 7:0 í Lengjubikarnum.

Breiðabliksliðið er lítið breytt frá fyrra ári og virðist ætla að halda stöðugleika sem svo sárlega hefur vantað á undanförnum árum. Marel Baldvinsson er kominn til baka í Kópavoginn og hann á klárlega eftir að ná vel saman með Prince í fremstu víglínu. Það vakti þó sérstaka athygli hvað ungu strákarnir voru að standa sig vel en einn þeirra, Haukur Baldvinsson, skoraði með sinni fyrstu snertingu í sínum fyrsta leik með meistaraflokki. Frábært hjá honum og strákunum öllum.

Auk Hauks skoruðu Marel 2, Nenad Z 2, Nenan Petrovic 1 (eitt af dýrari gerðinni - þrumari utan teigs!!) og Olgeir 1.


« Fyrri síða

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband