Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Mótmælamet

Í gær lauk fresti sem Kópavogsbær veitti til að gera athugasemdir við athafnasvæði vestast á Kársnesi. Skemmst er frá því að segja að aldrei fyrr hafa jafnmargar athugasemdir verið gerðar við eina skipulagstillögu í sögu Kópavogs. Í fréttatilkynningu frá Samtökum um betri byggð á Kársnesi segir að athugasemdir hafi verið hátt á annað þúsund.

Til samanburðar má nefna, að 82 athugasemdir bárust  í janúar sl. þegar Kópavogsbær kynnti rammaskipulag fyrir Kársnes og vegna einnar umdeildustu skipulagstillögu í Kópavogi síðustu ár, Lundar í Fossvogsdal, bárust um 200 athugasemdir.

Ekki er mögulegt að túlka þennan mikla fjölda athugasemda á annan veg en sem víðtæka andstöðu við gerð stærri hafnar og enn stærra atvinnu- og athafnasvæðis vestast á Kársnesi.


Hagsmunir heildarinnar bornir fyrir róða

Deilur um skipulagsmál virðast vera að ná hámarki um þessar mundir. Nægir þar að nefna sífelldar þrætur skipulagsyfirvalda Kópavogs við íbúa í einstökum hverfum bæjarins, s.s. við íbúa Lundar, Nónhæðar, Smárahverfis, Lindahverfis, Kársness og Vatnsenda. Einnig má nefna til sögunnar þrætur í Mosfellsbæ vegna lagningu vegar í Álafosskvos, Reykjavíkur vegna byggingar á Höfðareit og breytinga á Laugavegi, Árborgar vegna breytinga á miðbænum og nú síðast eru fyrirsjáanlegar deilur í Skorradal vegna frestunar á öllum breytingum á deiliskipulagi í sveitarfélaginu í rúmt ár, en þess má geta að íbúar Skorradalshrepps voru þann 1. desember 2006 56 talsins.  

Í athyglisverðri grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær, 3. september, segir m.a. í upphafi greinarinnar: „Sá sem á óbyggða eða lítið byggða lóð á góðum stað á höfuðborgarsvæðinu situr á miklum verðmætum og eftir því sem sveitarfélagið veitir leyfi fyrir stærra húsi á lóðinni, því meiri eru verðmætin. “

Skýr dæmi um þetta má m.a. finna í nýlegum breytingum á deiliskipulagi í landi Glaðheima, Kársnesi og fyrirhuguðum breytingum á Nónhæð. Þar hafa fjársterkir aðilar keypt upp lóðir sem vænlegar eru til byggingar íbúða- og/eða fyrirtækjahúsnæðis og þeir aðilar hafa sett mikinn þrýsting á yfirvöld í bænum að heimila byggingarmagn sem er langt umfram það sem umhverfið ræður við. Hefur þetta orðið til þess að háværar deilur og mótmæli hafa blossað upp, íbúar ná varla andanum af reiði og ímynd bæjarfélagsins hefur borið hnekki, um sinn a.m.k.

Viðbrögð bæjarstjórans í Kópavogi hafa flest verið á einn veg. Hann segir íbúa ekki hafa vit á skipulagsmálum, þeir beri á borð rangar og villandi upplýsingar (sem þó eru fengnar úr skýrslum sem bæjarstjórinn hefur sjálfur kvittað undir) og svo er þetta örugglega einhverjir ofstopamenn úr Samfylkingunni sem vilja koma á hann pólitísku höggi.

Bæjarstjórinn hefur hvað eftir annað hótað lögsókn á hendur þeim sem voga sér að gagnrýna skipulagshugmyndir bæjarins. Hann hótaði nágrannasveitarfélögum lögsókn samþykktu þau ekki tillögu að breyttu svæðisskipulagi á Glaðheimasvæðisins, hann hótaði Reykjavíkurborg og Skógræktinni lögsókn þegar jarðýtur á hans vegum ruddu burtu áratuga gömlum trjám í Heiðmörk og svona mætti lengi telja. Vitaskuld hættir hann að sjálfsögðu við málsókn þegar málið hefur legið í dvala í nokkurn tíma. En að biðjast afsökunar eða viðurkenna að hann hafi gert mistök eða haft rangt við, það mun hann aldrei gera.

Þó bæjarstjórinn haldi öðru fram þá er það öllum ljóst að flestar breytingar á deiliskipulagsáætlunum eru framkvæmdar vegna sérstakra þarfa lóðareigenda, lóðarhafa og/eða framkvæmdaraðila. Þessar breytingar þjóna sjaldnast hagsmunum heildarinnar heldur er oftast um að ræða útfærslu tiltekinna lóða eða bygginga með það að markmiði að hámarka arð lóðareigandans og/eða framkvæmdaaðilans.

Á dögunum var haldinn aukabæjarstjórnarfundur til þess að afgreiða deiliskipulag fyrir reit 4 (af 10) á Kársnesi. Rúmri viku síðar segir bæjarstjórinn á fjölmennum fundi í Salnum að íbúar Kársness þurfi ekki að óttast neitt þar sem ekki liggi neitt á að tillögur að breyttu deiliskipulagi á Kársnesi verði afgreiddar, slíkt muni ekki gerast á næstu árum svo ekki verður ráðist í byggingar þar á næstunni. Merkilegt ... merkilegt. Af hverju var þá svona mikilvægt að úthluta reit 4? Það skyldi þó ekki vera vegna þess að eigendur þeirrar lóðar hafa lagt mikla fjármuni í lóðina og vilja fara að sjá ávöxtun á sínu fé. Hversu lengi heldur Gunnar að aðrir fjárfestar sem hafa keypt upp lóðir á svæðinu séu tilbúnir að bíða?

Og fyrst það liggur ekkert á af hverju auglýsti bæjarstjórinn deiliskipulag hafnarsvæðisins, þar sem gert er ráð fyrir gríðarlegri uppfyllingu og þrefaldri stækkun athafnasvæðisins? Er nema von að maður spyrji!

 


« Fyrri síða

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 129404

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband