Leita í fréttum mbl.is

Yfirlýsing vegna auglýsingar Sjálfstæðisflokksins um skattamál

Mér er það bæði ljúft og skylt að benda á eftirfarandi vegna ósvífinna auglýsinga SjálfstæðisFLokksins um skattamál

  1. Öll framsetning í auglýsingunni er vafasöm. Ekki er verið að bera tillögur ríkisstjórnarinnar saman við neinn raunveruleika eða raunverulega valkosti. Sjálfstæðisflokkurinn heldur að lesandanum þeirri tálsýn að óbreyttar skattareglur og áður fyrirhugaðar breytingar sé eitthvað sem raunhæft sé eftir að hann sigldi þjóðarbúinu í þrot og braut niður tekjuöflun ríkisins. Raunhæfur samanburður verður aðeins gerður á raunverulegum forsendum.
  2. Í kynningu á nýjum tillögum um skatta hefur ríkisstjórnin fyrst og fremst borið þær saman við skattareglur á yfirstandandi ári. Þær reglur og áhrif þeirra svo sem á skattbyrði og dreifingu skattbyrði á mismunandi tekjuhópa eru þekktar. Í þeim efnum hefur hún notað alþjóðlega viðurkenndar aðferðir svo sem skatthlutföll eftir tekjubilum og skattbyrði sem hlutfall af landsframleiðslu. Slíkar aðferðir eru notaðar af alþjóðastofnunum svo sem OECD. Útreikningar og samanburður með þeim hætti sýnir tvennt, sem ekki verður dregið í efa.

    Í fyrsta lagi að skattbyrði í heild og af tekjuskatti sérstaklega verður á árinu 2010 lægri en hún var á valdatíma Sjálfstæðisflokksins fyrir hrun. Í öðru lagi að dreifing hennar verður sanngjarnari, skattbyrði lágtekjufólks verður eitthvað lægri en áður en eitthvað hærri hjá þeim sem meira bera úr býtum. Ítarlegri upplýsingar því til staðfestingar verða birtar á næstu dögum. Þetta eru staðreyndir sem ekki verða hraktar með auglýsingabrellum.
  3. Í smáu letri neðst á auglýsingunni kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn reiknar það sem skattahækkun að persónuafsláttur hækki um 2.000 kr. í stað 5.800 kr.. Þarna er um minni skattalækkun en áður var áformað að gera, en það er hreinn útúrsnúningur að kalla þetta skattahækkun. Með sömu rökum ætti verslunareigandi sem kaupir inn vöru fyrir 5.000 þúsund krónur og verðleggur hana á 10.000 kr. en selur hana að lokum á útsölu fyrir 7.000 krónur að bókfæra söluna sem 3.000 kr. tap í stað 2.000 kr. ágóða! Allir sjá hversu fráleitar slíkar reikningskúnstir eru.
  4. Fyrirsögn auglýsingar Sjálfstæðisflokksins er: „Öll heimili munu greiða hærri skatta". Þar fyrir neðan segir: „Skattahækkanir ríkisstjórnarinnar munu kosta alla Íslendinga verulegar fjárhæðir á næsta ári." Þar fyrir neðan er svo tafla sem sýnir þennan aukna kostnað sem Íslendingar mega búast við á næsta ári vegna skatthækkana og verðlagsáhrifa þeirra. Í smáa letrinu kemur aftur á móti fram að þarna sé einnig teknar með þær breytingar sem gerðar voru á miðju þessu ári. Þarna er því um villandi framsetningu að ræða. Einhver þessara áhrifa hafa þegar komið fram og er þarna beitt blekkingum til að slá pólitískar keilur í þágu Sjálfstæðisflokksins á kostnað ríkisstjórnarflokkanna.
  5. Þau dæmi sem Sjálfstæðisflokkurinn tekur eru miðuð við mánaðartekjur einstaklinga eða fjölskyldna. Meint áhrif skattbreytinganna eru hins vegar sýnd á ársgrundvelli. Með þessu fær fólk ranga tilfinningu fyrir hinni raunverulegu breytingu. Heiðarlegast og gagnsæjast væri að sýna áhrifin á mánaðargrundvelli eða miða við árstekjur. Þá er í þessu samhengi sýnd hækkun höfuðstóls vegna vísitöluáhrifa, en auðvitað dreifist þessi hækkun á allan lánstíma og eru mánaðaráhrifin hverfandi.
  6. Í reiknivélinni sem er á heimsíðu Sjálfstæðisflokksins er smáa letrið hvergi sjáanlegt og geta notendur hennar því ekki áttað sig á því á hvað forsendum vélin byggir. Ljóst má þó vera að vélin byggir á svipuðum forsendum og koma fram í smáa letrinu í auglýsingunni.

    Þegar vélin er látin reikna áhrif breytinga á fjármagnstekjuskatti kemur tvennt í ljós.

    Hún gerir annarsvegar ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur sé að hækka úr 10% í 18% en ekki 15% í 18%. Þannig reiknar hún meiri aukningu en í raun mun verða. Skatturinn hækkaði úr 10% í 15% sl. sumar og hafa áhrif hans því þegar komið fram að nokkru leyti.

    Hins vegar kemur í ljós að vélin gerir ekki ráð fyrir 100 þús.kr. frítekjumarki á vaxtatekjur. Því reiknar hún út hækkun strax á fyrstu krónu (reyndar þúsund krónur því vélin sýnir ekki aukastafi). Þarna er því um hrein ósannindi að ræða því raunin er að fjármagnstekjuskattur mun lækka af fjármagnstekjum allt að 220 þús.kr.

Auglýsing Sjálfstæðisflokksins er dapurlegur vitnisburður um ómálefnalegan og ósannan málflutning sem flokkurinn telur bersýnilega best þjóna hagsmunum sínum.

Reykjavík, 11. desember 2009

Björgvin G. Sigurðsson                   Árni Þór Sigurðsson
form. þingflokks Samfylkingar         form. þingflokks Vinstri grænna

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Í sambandi við lið 3 vil ég benda á eftirfarandi.

Í fyrirliggjandi frumvarpi segir í b. lið 15. greinar að tiltekinn málsliður í 67. grein skattalaganna skuli falla brott. Sá málsliður er svona:

Persónuafsláttur skal í upphafi hvers árs taka breytingu í réttu hlutfalli við mismun á vísitölu neysluverðs við upphaf og lok næstliðins tólf mánaða tímabils.

Hér er ekki um "áform" að ræða heldur gilt lagaákvæði sem fella skal niður samkvæmt frumvarpinu. Þetta eru því ekki fráleitar reiknikúnstir heldur mat á hvaða áhrif breyting á gildandi lögum hefur. 

Menn geta deilt um hvernig setja á slíka niðurfellingu fram í auglýsingatexta. En að bera það saman við tap/hagnað á útsölu er enn fráleitara. Framsetning beggja er lituð af pólitík.

Að öðru leyti tek ég ekki afstöðu til málsins. Það getur hver skoðað lögin og breytingarnar fyrir sig og séð hið rétta í málinu.

Haraldur Hansson, 14.12.2009 kl. 12:59

2 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ingibjörg nú kemur fram í skoðanakönnunum að 70% þjóðarinnar vill ekki láta samþykkja Icesave. Telur þú þá rétt að ríkisstjónrinn samþykki Icesave, en boði ekki upp á þjóðaratkvæðagreiðslu um málið?

Sigurður Þorsteinsson, 14.12.2009 kl. 19:19

3 Smámynd: Kristinn Pétursson

Þarftu ekki að rifja upp lögmálið um  aðsjá bara flísina í auga náungans en ekki bjálkann í eigin auga

Kristinn Pétursson, 14.12.2009 kl. 22:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband