Leita í fréttum mbl.is

„Heldur þú að stjórnin sé að falla?“

„Heldur þú að stjórnin sé að falla?“ var ég spurð í dag.

„Ég veit það ekki, en ef ríkisstjórnin fer ekki að verða verklegri þá held ég að dagar hennar verði færri en fleiri.“

Af hverju er ég þessarar skoðunar, ég sem er gildur limur í Samfylkingunni og jafnaðarmaður í gegn? Jú, það er vegna þess að ég sætti mig ekki við allan þann óróa og óvissu sem virðist fylgja Icesave samningnum, ég sætti mig ekki við það að ekki skuli enn vera búið að ná lögum yfir þá sem mesta ábyrgð bera á efnahagshruninu og ég sætti mig ekki við það að ríkisstjórnin (lesist forsætisráðherrann) talar ekki við fólkið í landinu.

Icesave
„Af hverju eigum við að skipta okkur af Icesave?“ gæti einhver spurt. Jú, Icesave samningarnir eru af slíkri stærðargráðu að þeir virðast eiga létt með að setja íslenskt þjóðarbú á hausinn ... aftur. Ég hef skipt um skoðun í þessu máli frá því sem áður var. Þá var ég á þeirri skoðun að við ættum að greiða reikninginn, annað væri fjarstæða, menn eiga að greiða skuldir sínar! En ég er ekki tilbúin að skrifa uppá hvað sem er.

Ef Bretar og Hollendingar hafa ákveðið að greiða hærri fjárhæðir en okkur bar þá á það að vera á þeirra ábyrgð. Okkar hlutur er rúmar 20 þúsund evrur, Bretar borguðu 50 þúsund evrur og Hollendingar 100 þúsund evrur, allt án þess að eiga um það samráð við Íslendinga - og ætla svo að rukka okkur um mismuninn.

Það er ég ekki tilbúin að samþykkja!

„Já, en ástæða þess að Bretar og Hollendingar greiddu meira var af því að íslenska ríkisstjórnin ábyrgðist allar innistæður innanlands með neyðarlögunum.“ Það má vera að neyðarlögin hafi verið mistök, þau geta slengst í andlitið á okkur aftur en við skulum ekki gleyma því hverjir voru í stjórn þegar þau voru samþykkt. Geir H. Haarde var forsætisráðherra og eftir að hann var búinn að tilkynna þjóðinni að innistæður væru tryggðar bað hann Guð að blessa Ísland! Núna, eftir þetta marga mánuði, skilur maður betur af hverju Guði var blandað í málið.

Ef Bretar og Hollendingar vilja tryggja innistæður á reikningum í þeirra heimalöndum þá er þeim það frjálst. Þeir geta ekki rukkað mig fyrir greiðslunum. Ég stend því við fyrri ákvörðun og er ekki tilbúin að samþykkja Icesave samninginn eins og hann liggur fyrir.

Ábyrgðarmennirnir
Íslendingar eru allir gerðir ábyrgir fyrir hruni bankanna. Vissulega voru alþjóðlegar aðstæður okkur fjandsamlegar og Íslendingar lifðu hátt og hratt, það er í okkar eðli. En það voru ekki allir sem tóku þátt í „ruglinu“. Hvað með þá, af hverju eiga þeir að greiða fyrir sukkið og svínaríið. Af hverju á íslenska þjóðin að greiða fyrir afmælisveislu Ólafs Ólafssonar þegar þjóðinni var ekki einu sinni boðið í partýið?

Fréttaskýrendur hafa oft sagt að það séu um það bið 40 einstaklingar sem mesta og stærsta ábyrgð bera á hruni bankanna. Má ég sjá þann lista? Hverjir eru á listanum? Er þar nafn Illuga Gunnarssonar sem stýrði sjóði 9. Er þar nafn Kristjáns Arasonar sem setti allt sitt í Sjö hægri rétt fyrir hrun. Er þar nafn Björgvins G. Sigurðssonar sem svaf værum svefni á skrifstofu viðskiptaráðherra? Er þar nafn Valgerðar Sverrisdóttur sem gaf íslensku bankana til sérvalinna vina sinna? Hvaða 40 nöfn erum við að tala um?

Ég vil líka fá að vita hvort ekki eigi að opna lánabækur Landsbankans og Glitnis frá því fyrir hrun. Af hverju eru þær bækur ekki komnar fram í dagsljósið, er það vegna þess að þar má finna nöfn Bjarna Benediktssonar, Lúðvíks Bergvinssonar, Geirs H. Haarde, Illuga Gunnarssonar, Péturs H. Blöndals og fleiri alþingismanna fyrrverandi og núverandi sem handhafa kúlulána eða hvað sem þetta nú heitir?

Af hverju er ekki búið að frysta eigur auðmananna og af hverju er þessi 40 manna hópur ekki komin í einangrun á Litla Hrauni? Er það vegna þess að það er í lagi að setja heila þjóð á hausinn eða er það vegna þess að ekki er pláss fyrir stórbokkana meðal smákrimmanna á Litla Hrauni og Kvíabryggju?

Fólkið í landinu
Mér finnst leiðinlegt að segja þetta, en „hvar ertu Jóhanna mín, nú þegar þinn tími er kominn?“ Vissulega var þér hampað í Gay Pride göngunni um daginn en það nægir mér ekki. Ég vil að þú komir fram fyrir íslenska þjóð og segir henni staðreyndir málsins. Hver klikkaði, hver svaf á verðinum, hverjir munu sæta ábyrgð, hvenær ætlar þú að opna lánabækur, hvenær fáum við að vita sannleikann? Það er ekki nóg að halda vikulega blaðamannafundi ef þar á ekki að segja frá neinu.

Þögnin elur aðeins á tortryggni, vantrú og ótta þjóðarinnar. Það sem íslensk þjóð þarfnast nú er heiðarlegur og trúverðugur foringi sem kemur til dyranna eins og hann er klæddur. Enginn er til þess betur falinn en þú Jóhanna. Ekki loka þig af og dyljast á meðan Skallagrímur ríður röftum í eigin flokki. Jóhanna, íslenska þjóðin þarf á þér að halda. Við þolum sannleikann, en þorir þú að segja hann?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sjálfri þér samkvæm,eins og alltaf,en guð ef þú lendir einhverntíma á þingi,?? Ekki fleiri orð um það,væri bara að endurtaka það sem áður,var sagt,nóg af síbylju. Í bili.    Var þarna niður frá í gær, hitti nokkra þingmenn. Margir töluðu við helstu mótmælendur,allt á góðum nótum. Kveðja

Helga Kristjánsdóttir, 11.8.2009 kl. 16:39

2 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

nei

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 11.8.2009 kl. 20:33

3 Smámynd: Tóti Sigfriðs

Sæl Ingibjörg

Mikið er hressandi að sjá að það eru ekki allir í Samfylkingunni sem fylgja flokksforustinni í blindni.

  Get ekki verið annað en sammála grein þinni og að mínu áliti var löngu kominn tími á að heyra frá skoðunum hins almenna jafnaðarmanns.

Kærar þakkir

Kveðja 

Þórður G. Sigfriðsson

Tóti Sigfriðs, 12.8.2009 kl. 10:16

4 Smámynd: Páll A. Þorgeirsson

Hvaða stjórn er að falla, er einhver "stjórn" í landinu, ég bara spyr ?  ;-)

Páll A. Þorgeirsson, 12.8.2009 kl. 10:57

5 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Sæl Ingibjörg.

Ekki gleyma hver var viðskipta og bankamálaráðherra þegar ákveðið var að tryggja öll bankainnlán í topp.  Ábyrgðin á þeim gjörningi hlýtur að liggja þar til jafns á við forsætisráðherra í það minnsta.

Axel Þór Kolbeinsson, 12.8.2009 kl. 12:54

6 identicon

Ég sé ekki betur en að mistökin sem þessi stjórn gerði við val á samninganefnd Icesave og gjörninginn kringum þennan samning sé mál sem á eftir að vera skrifað í sögubækurnar sem mestu mistök Íslandssögunnar jafnvel verri en sofandaháttur Sjálfstfl/Samfylkingar eða bréfið sem Björgvin sendi stjórnvöldum á Bretlandi í Ágúst 2008. Það sem nú þarf er að rífa sig upp úr skotgröfunum og frá því að benda á "hinn" flokkinn og standa saman gegn Icesave í núverandi mynd og að vinna okkur saman upp úr þessum vanda.

Adda Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 13:54

7 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Ingibjörg get ekki alveg skilið það sem þú átt við með:"Bretar borguðu 50 þúsund evrur og Hollendingar 100 þúsund evrur, allt án þess að eiga um það samráð við Íslendinga - og ætla svo að rukka okkur um mismuninn"

Skv. upplýsingum þá greiðum við bara innistæðutryggngu upp á 20.880 evrur hæst á hvern reikning. Þ.e.  okkar innistæðurtryggingarsjóður. Samtals gerði þetta þegar við skirfuðum undir eitthvað um 660 milljarða. En Bretar og hollendingar tóku á sína innistæðutryggingarsjóði um 630 milljarða minnir mig. Allir þessir sjóðir eiga síðan forgangskröfur í þrotabú Landsbankans. Þú verður að átta þig á að við eigum ekki eignir gamla landsbankans heldur eru það kröfuhafar og þar á meðal innistæðurtyggingarsjóður okkar. Bretar og Hollendingar hefðu getað krafist þess að eingir Landsbankans væru stax seldar og þá væntanlega fyrir lítið sem ekki neitt. Og þá hefði hærri upphæð lendt á okkur. Sennilega mest allt af þessum 6 eða 700 milljörðum.

Magnús Helgi Björgvinsson, 12.8.2009 kl. 14:50

8 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Úps gleymdi því að Bretar og Hollendingar eru Bretar eru náttúrulega búnir að borga hlut okkar og það er það sem verið er að rukka okkur um. Og í stað þess að selja eignirnar strax þá er gefinn tími til að hámarka þær.

Magnús Helgi Björgvinsson, 12.8.2009 kl. 14:59

9 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Þakka ykkur öllum fyrir athugasemdirnar. Miðað við fréttir kvöldins þá held ég að mun fleiri en ég séu á þessari skoðun.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 12.8.2009 kl. 21:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband