Leita í fréttum mbl.is

Fortíð - Nútíð - Framtíð

Nú í aðdraganda kosninga hef ég margoft fengið að heyra spurninguna: „Hvað hefur Samfylkingin gert til að bæta hag heimilanna." Viðkomandi hefur gjarnan svarað sér sjálfur og fullyrt: „Ekki neitt!"

En er það svo?

Það tók Sjálfstæðisflokkinn 18 ár að koma Íslandi á hausinn, en það má með vissum rökum benda á að það sé „léttara" verk en að reisa lýðveldið aftur upp úr öskustónni. Af þessum 18 árum var Framsóknarflokkurinn „hækja" íhaldsins í 16 ár, Samfylkingin var „skækja" íhaldsins (eins og Páll Magnússon formannsframbjóðandi í Framsóknarflokknum orðaði það svo smekklega) í 18 mánuði.

Vissulega hrundi íslenska bankakerfið á vakt Samfylkingarinnar þegar hún var í 18 mánuði í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Það er staðreynd sem mun fylgja flokknum inn í kosningarnar nú og um ókomna tíð. Auðvitað átti okkar fólk í ríkisstjórninni að standa sig betur, vera stífari á bremsunni gagnvart sérhagsmuna- og þenslustefnu Sjálfstæðisflokksins og veita meiri og betri upplýsingar en gert var. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að Samfylkingin hafi gert allt sem mögulegt var til að koma í veg fyrir hrunið. En það er auðvelt að vera vitur eftir á og slá fram fullyrðingum þegar maður þarf ekki að standa skil á þeim. Því hef ég margsinnis spurt sjálfa mig að því hvað Samfylkingin hefði getað gert betur?  

Sjálfstæðisflokkurinn fór með stjórn peningamála í landinu þann tíma sem samstarfið við Samfylkinguna varði. Sjálfstæðisflokkurinn bar ábyrgð á forsætisráðuneytinu (og þar með Seðlabankanum) og fjármálaráðuneytinu. Jú, Björgvin G. Sigurðsson var viðskiptaráðherra og flestir eru samála um að hann hefði getað staðið sig betur, þar á meðal hann sjálfur. Björgvin axlaði ábyrgð á mistökum í stjórn bankamála og sagði af sér. Nokkuð sem ráðherrar úr öðrum stjórnmálaflokku hefðu mátt taka sér til fyrirmyndar.  Bankastjóri Seðlabankans á þeim tíma hjálpaði ekki til því honum þóknaðist ekki að tala við ráðherra viðskiptamála í 18 mánaða stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hann lét sér nægja að vera í einkasamtölum við „sína menn", einkasamtöl sem hægt er að segja frá að hafi farið fram en alls ekki má upplýsa um hvað þau fjölluðu.

Á sama tíma var Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, að standa vaktina í félagsmálaráðuneytinu og kom á gríðarmiklum kjarabótum fyrir þá sem minnst höfðu á milli handanna.

Hún stóð m.a. að því að:

  • afnema skerðingu bóta vegna tekna maka
  • skerðingarhlutfall ellilífeyris var lækkað úr 30% í 25%
  • tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga var að fullu afnuminn
  • komugjöld á heilsugæslu fyrir börn voru afnumin
  • hámark húsaleigubóta var hækkað um 50%
  • stimpilgjöld voru afnumin fyrir fyrstu kaupendur íbúða
  • ný jafnréttislög voru sett

Þetta er aðeins hluti þess sem komið var í  framkvæmda á innan við ári eftir að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók við vorið 2007. Það þarf ekki auðugt ímyndunarafl til að sjá ástandið í íslensku þjóðfélagi fyrir sér í dag ef þessar kjarabætur hefðu ekki verið komnar til framkvæmda fyrir fall bankanna.

Það verður hvorki einfalt né auðvelt að reisa íslenskt samfélag uppúr öskustónni og gera okkur á ný að þjóð meðal þjóða. Það er gríðarlega mikilvægt að almenningur í landinu geri sér grein fyrir því að komandi kosningar snúast í raun um tvær ólíkar leiðir í uppbyggingu og endurreisn þjóðarinnar. 

Annarsvegar, er það einkavæðingarleið Sjálfstæðisflokksins sem gengur út á að almenningur greiði sjálfur fyrir sína menntun og heilbrigðisþjónustu. Þeir sem hafa ekki efni á þeirri þjónustu verða þá bara að vera án hennar.

Hinsvegar, er það leið jafnaðarstefnunar þar sem skattar verða hækkaðir til þess að jafna kjör meðal almennings. Með þessari leið getum þó verið viss um að við komum öll til með að hafa jafnan aðgang að mennta- og heilbrigðisþjónustu í framtíðinni hvernig sem fjárhagsleg staða okkar er hverju sinni. Það er ljóst að nú  skiptir öllu máli að jafnaðarstefnan verði höfð að leiðarljósi, enn mikilvægar er að þeir sem hafa látið stýrast af sérhagsmunum og einkavinavæðingu verði ekki settir í bílstjórasætið. Það er fullreynt á 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins.

Endurreisn íslenska lýðveldisins mun vonandi ekki taka 18 ár, en hún verður að vera byggð á bjargi, það þýðir að það verður að gefa ríkisstjórninni, hver sem hún verður, tíma til að treysta undirstöðurnar. Engum öðrum stjórnmálamanni en Jóhönnu Sigurðardóttur treysti ég betur til að leysa það verkefni. Það eru til skyndi- og brellulausnir eins og 20% niðurfelling skulda og einhliða upptaka evru, slíkar lausnir eru skammtímalausnir byggðar á sandi.

Kæri lesandi, ekki láta blekkjast af brellulausnum og gylliboðum. Veldu það stjórnmálafl sem þú treystir best, þann stjórnmálamann sem hefur í gegnum tíðina talað máli alls almennings í landinu og staðið við bakið á þeim sem minna mega sín.

Taktu upplýsta ákvörðun, merktu X við S í kosningunum á laugardag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill - þjóðin þarf víðsýna félagshyggjustjórn = S + V sem er reiðubúin til þess að láta reyna á ESB aðild og leggja niðurstöður aðildarviðræðna í dóm kjósenda sem fyrst.

Reinhard Reynisson (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 21:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband