Leita í fréttum mbl.is

Austurvöllur

Í gær lagði ég leið mína á Austurvöll ásamt þúsundum annarra Íslendinga. Þar sem ég stóð, ekki langt frá styttunni af Jóni Sigurðssyni svipaðist ég um og velti fyrir mér fólkinu sem var mætt á völlinn. Ef eitthvað er að marka fjölmiðla þá hefðu átt að vera þarna talsverður fjöldi af fólki með dulur fyrir andlitinu. Þarna ættu að vera stuðningsmenn VG (sem eru náttúrulega auðþekkjanlegir á mussunum og sauðsskinnsskónum ... eða eru það framsóknarmenn? ... Breytir engu) og svo var Ástþór Magnússon þarna í miklum mæli (a.m.k. hlutfallslega miðað við þá athygli sem maðurinn fær í fjölmiðlum).

Nei, þetta var ekki svona. Þarna voru greinlega mættar virðulegar húsfrúr úr Vesturbænum, þarna voru læknar, flugmenn og lögfræðingar, háskólastúdentar, bæjarstarfsmenn og atvinnuleysingjar. Það sem sameinaði þetta fólk, fyrir utan mótmælin, var það að flestir virtust vera komnir á miðjan aldur. Langstærstur hluti mótmælenda er á aldrinum 40+. Anarkistar voru jú sjáanlegir, líka stuðningsmenn Ástþórs (sem ég áttaði mig reyndar ekki á fyrr en í dag þegar ég heyrði fréttirnar um fólkið með límbandið fyrir munninn) og svo var þarna einn drengur sem hafði farið í margfalda brúnkumeðferð og gekk um með skilti sem á stóð "Davíð sem forseta". Flestir eða allir gerðu sér fljótlega grein fyrir því að þarna var á ferðinni ungur drengur sem mun ganga í hnapphelduna fljótlega, enda gengu félagar hans hlægjandi á eftir honum og skemmtu sér vel, eins og langsamlega stærstur hluti þeirra sem urðu á vegi hans á Austurvelli.

Segja má að þeir tveir, brúðguminn verðandi og Ástþór hafi skorið sig úr á vellinum. Að öðrum þeirra brostu menn góðlátlega og óskuðu góðs gengis. Hinn var hreinlega boðflenna í partýinu, eins og fullur frændi sem mætir óboðinn í fermingarveislu og menn vilja helst losna við sem fyrst. Í fyrstu þá brostu menn góðlátlega að frændanum en þegar hann vill fara að stjórna veislunni þá grípa menn í taumana og vísa honum vinsamlega á dyr. Ástþór er eins og hann er, það vita allir, og flest höfum við lúmskt gaman að honum. En hér er alvara á ferð, það er þungt í því fólki sem mætir á Austurvöll og það hefur ekki lengur húmor fyrir fulla frændanum, sem hefur svo sem verið í lagi í öðrum partýum. Í dag hafa menn fengið sig fullsadda á kappanum og óska þess heitast að hann láti sig hverfa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún S Hilmisdóttir

Satt hjá þér - bara að láta þig vita að ég var þarna líka sem fulltrúi  miðaldra húsmæðra úr Vesturbænum á þessum fundi.  Var meira að segja í gömlu góðu síðu flottu mokkakápunni minni sem er það næsta að slaga í pels á þessum bæ. 

Guðrún S Hilmisdóttir, 18.1.2009 kl. 14:31

2 Smámynd: corvus corax

Það er ómögulegt að þið hafið verið þarna, fjölmiðlar segja að þetta séu eingöngu ungmenni og anarkistar með klúta fyrir andlitinu. Meira segja RÚV leggur alltaf áherslu að gera sem minnst úr mótmælendum skv. skipunum "að ofan".

corvus corax, 18.1.2009 kl. 14:47

3 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Nákvæmlega, ég hef verið ákaflega undrandi á fréttaflutningi frá mótmælunum og svipaðist þess vegna sérstaklega um eftir klútaliðinu, mussunum og sauðskinnsskónum. Þegar ég hugsa til baka þá man ég varla eftir því að hafa séð lögregluþjón á staðnum. Sáuð þið einhvern slíkan Guðrún eða corvus?

Ingibjörg Hinriksdóttir, 18.1.2009 kl. 16:19

4 Smámynd: Guðrún S Hilmisdóttir

Ég sá lögreglumenn sem stóðu við Alþingishúsið en ég gékk framhjá því þegar ég kom til fundarins.  Ég varð ekki vör við aðra.

Guðrún S Hilmisdóttir, 18.1.2009 kl. 16:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 129460

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband