Leita í fréttum mbl.is

Ekkert hlustað á íbúana

Í gær var haldinn aukafundur í bæjarstjórn Kópavogs þar sem eina mál fundarins var tillaga að deiliskipulagi fyrir einn reit af 10 á vestanverðu Kársnesi. Undanfarna mánuði hafa íbúasamtök í Vesturbæ mótmælt fyrirhuguðu skipulagi kröftuglega og ítrekað farið með umkvartanir sínar í fjölmiðla. Auk þess hafa íbúar á svæðinu borið fram mótmæli vegna skipulagsins á formlegan hátt í gegnum skipulagssvið bæjarins.

Það skal tekið fram strax að persónulega hef ég nákvæmlega ekkert á móti endurskipulagningu svæðisins og uppbyggingar þess. Ég fagna því að hugmyndir um slíkt séu komnar fram enda eru margar þeirra bygginga sem nú eru á svæðinu barn síns tíma en eru nú lýti á svæðinu og það er eðilegt að menn hugi að því að nýta þá miklu landkosti sem þarna eru.

En offorsið í gjörðum meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur farið langt úr hófi fram. Upphaflegar hugmyndir voru slíkar að á kynningarfundi sem haldinn var í Salnum féllust mönnum hendur. Enda var það svo að þó svo að enginn fulltrúi meirihlutans hafi tjáð sig á þeim fundi þá fullyrtu þeir þegar í óformlegum samtölum í fundarhléi að þær skipulagsbreytingar sem þar voru kynntar yrðu aldrei að veruleika.

Nú slá þessir sömu menn sér á brjóst og segja að verulega hafi verið dregið úr byggingarmagni á svæðinu þegar í raun hefur lítið sem ekkert verið hlustað á mótmæli íbúana sem vilja miklu minni og lágreistari byggð og er það með ólíkindum að meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks skuli hafa geð í sér til að hundsa svo kröftug mótmæli. Þeirra skoðun er að keyra málið í gegn með góðu eða illu og er ekki laust við að sá grunur læðist að manni að hagsmunir annarra en íbúa á svæðinu séu hafðir að leiðarljósi í málinu.

Mótmæli íbúanna hafa að mestu leytið snúið að fjórum þáttum þar sem þess er krafist að:

  • svæðið verði skipulagt sem heild
  • sannfærandi lausn af umferðarmálum fyrir allan Vesturbæinn liggi fyrir
  • stórskipahöfn verði lögð af
  • samráð og samvinna verði höfð við íbúana við skipulag svæðisins

Kröfur íbúanna eru bæði eðlilegar og réttmætar. Þarna eru engar ofurkröfur á ferðinni og krafan um samráð er einfaldlega krafa um nútímalega stjórnsýsluhætti sem byggja að miklu leyti á samráði og samstarfi við íbúa. Þá getur það ekki verið skipulagsyfirvöldum í Kópavogi ofviða að sýna íbúum hvernig þeir hyggjast skipuleggja svæðið í heildina.

Hvað varðar kröfurnar um að sýna fram á að sú fjölgun sem fyrirhuguð er verði ekki umferðinni í Vesturbænum ofviða og að leggja beri hugmyndir um stórskipahöfn af eru mjög samofnar. Aðkoma að því svæði sem hér um ræðir frá Reykjavík er að mestu í gegnum eina götu, Kársnesbraut. Þeir íbúar sem munu búa í nýju hverfunum, ekki aðeins vestast á nesinu heldur einnig á uppfyllingu norðanvert á sama nesi munu nota Kársnesbrautina til að komast til og frá vinnu. Flutningar um stórskipahöfn munu einnig fara fram í gegnum Kársnesbraut, sem og öll sú umferð sem þegar fylgir núverandi og komandi starfsemi á svæðinu.

Bæjarstjórinn, Gunnar I. Birgisson, hélt því fram í bæjarstjórn í gær að umferð sem tengdist stórskipahöfn myndi fara fram á þeim tíma þar sem flestir íbúar yrðu í vinnu. Það má svo sem vel vera, en flutningarnir munu fara fram á þeim tíma sem börn þessara sömu íbúa eru í skóla og eru einmitt á ferli um og við Kársnesbraut til þess m.a. að komast að nýjum heimilum sínum vestast og norðan á nesinu. Skólar í Vesturbænum eru miðsvæðis á nesinu og þangað munu börnin fara til að sækja sitt nám.

Fleiri færslur um sama mál á vefsíðunni www.ingibjorg.net:


mbl.is Samþykkt að fjölga íbúðum á Kársnesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 129461

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband